Samui flugvöllurinn á eyjunni Koh Samui við Taíland þykir einn sá huggulegasti þó víðar væri leitað. Hann er frábrugðinn öðrum flugvöllum að því leyti að þar er hægt að leyfa sér að sökkva ofan í baunapoka, drekka úr kókoshnetum og horfa á falleg pálmatré á meðan maður bíður eftir fluginu.
Það eru til margir fallegir flugvellir í heiminum á mjög framandi stöðum en Samui flugvöllurinn heldur því fram að hann sé sá allra fegursti og hannaður með það markmiði að falla vel að umhverfinu.
Áhrifavaldar á TikTok hafa tekið undir þessi sjónarmið.
„Þetta er heimsins fegursti flugvöllurinn þar sem maður getur drukkið úr ferskum kókoshnetum og horft á flugvélarnar takast á loft. Oftast finnst mér flugvellir streituvaldandi og kaótískir en þessi er öðruvísi. Þarna eru falleg kaffihús og opið rými með baunapúðum til þess að setjast í. Ég hef aldrei verið jafnafslöppuð fyrir flug,“ segir Jessica Jayne í færslu sinni á TikTok.
Flugvöllurinn er í einkaeigu og er rekinn af Bangkok Airways.