Það væsir ekki um brasilísku ofurfyrirsætuna Gisele Bündchen og kærasta hennar, jui jitsu-kennarann Joaquim Valente, um þessar mundir.
Parið nýtur lífsins í hinni sólríku Miami-borg í Bandaríkjunum.
Myndir náðust af Bündchen og Valente að deila eldheitum kossi um borð í lúxussnekkju sem þau festu nýverið kaup á.
Snekkjan er engin smásmíði, enda kostaði hún dágóðan skilding. Bündchen og Valente greiddu 160 milljónir íslenskra króna fyrir snekkjuna.
Parið, sem byrjaði saman skömmu eftir að fyrirsætan skildi við bandaríska ruðningskappann Tom Brady síðla árs 2022, eignaðist sitt fyrsta barn saman fyrir aðeins örfáum vikum og ef marka má myndirnar sem náðust af Bündchen um borð þá var hún enga stund að komast í sitt fyrra form.
Fyrirsætan var glæsileg í fallegum svörtum sundbol og leyfði hárinu að flaksa í golunni er hún endurhlóð batteríin í faðmi Valente.