„Hvað er sjö mánaða heimsreisa mín að kosta mig?“

Elínborg Una Einarsdóttir lagði af stað í heimsreisu síðasta haust.
Elínborg Una Einarsdóttir lagði af stað í heimsreisu síðasta haust. Samsett mynd

Elínborg Una Einarsdóttir, sviðshöfundur og blaðamaður, hefur verið á heljarinnar ferðalagi um heiminn síðasta hálfa árið og gefið skemmtilega innsýn í ævintýri sín á samfélagsmiðlum, aðallega á TikTok og Instagram.

Í gærdag deildi hún myndskeiði á TikTok, sem vakti mikla athygli netverja, en í því svaraði hún spurningu spurninganna:

Hvað er sjö mánaða heimsreisa mín að kosta mig?

„Þetta er alls ekki ódýrasta heimsreisa í heimi“

Í myndskeiðinu segir Elínborg Una stuttlega frá ferðalagi sínu, þeim stöðum sem hún hefur heimsótt, en meðal viðkomustaða eru Indland, Malasía, Víetnam, Taíland, Ástralía og Japan, og í hvað peningarnir hennar hafa farið.

„Þetta er alls ekki ódýrasta heimsreisa í heimi,” segir Elínborg og viðurkennir að hafa leyft sér að njóta alls þess besta sem lífið býður upp á hverjum áfangastað síðustu mánuði.

„Ég er að fara mjög víða, ég er lengi að ferðast og ég er búin að leyfa mér mikið, hef verið að versla eitthvað og búin að vera að borða matinn sem mig langar til að borða og fara í allar upplifanirnar sem mig langar að fara í,” segir hún.

Líka dugleg að spara

Þrátt fyrir umfang ferðalagsins hefur Elínborg reynt að ferðast um á sem ódýrastan máta.

„Ég er líka búin að vera að spara, tek alltaf bara ódýrustu flugin, sama þó þetta séu þrjú tengiflug og það taki mig sólarhring að fara, ég fer alltaf í næturrútur þegar ég get til að spara gistingu og svo framvegis, þannig að þetta er alls ekki ódýrasta heimsreisa sem hægt er að fara í en heldur ekki dýrasta,” segir hún.

Elínborg endar svo myndskeiðið á því að svara spurningu spurninganna.

„Ég er að gera ráð fyrir því að fyrir þessa sjö mánuði, allt meðtalið, sé ég, þegar allt kemur til alls, að eyða um það bil 2,2 til 2,3 milljónum.

Það tók mig ár að safna fyrir þessu, ég er mjög ánægð að vera að eyða peningnum mínum í þetta, algjörlega rétt ákvörðun á þessum tímapunkti,“ segir hún afar sátt í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert