Kynnt hefur verið röð nýrra reglna fyrir ferðamenn á Balí í því skyni að stemma stigu við óviðeigandi hegðun. Yfirvöld segja að strangari aðgerðir miði að því að vernda menningarlega og helga staði eyjunnar.
Reglurnar ná bæði yfir klæðnað og hegðun, þegar farið er inn í musteri og trúarlegar byggingar en í því felst t.d. að meina konum, sem hafa blæðingar, aðgang sum staðar.
Varað hefur verið við því að brot á reglunum geti haft í för með sér lagalegar afleiðingar.
Nýju reglurnar voru gefnar út af ríkisstjóra Balí, I Wayan Koster, 24. mars.
„Við höfum áður gefið út svipaðar reglugerðir en eftir því sem hlutirnir breytast þurfum við að aðlaga okkur. Þær eiga að tryggja að ferðaþjónusta Balí haldist virðingarfull, sjálfbær og í samræmi við staðbundin gildi.“
Reglurnar fela einnig í sér að fólk standi skil á greiðslum ferðamannagjalda.
Þá er ferðamönnum gert að nota löggilta leiðsögumenn og gistingu, fylgja umferðarlögum og skipta gjaldeyri á viðurkenndum stöðum.
Þess er krafist að ferðamenn klæði sig smekklega og hegði sér af virðingu hvort sem er á trúarlegum stöðum, veitingastöðum, í verslunarmiðstöðvum eða á þjóðvegum.
Gestum er t.d. bannað að blóta og ber að sýna heimamönnum kurteisi og þá er einnig lagt bann við að deila hatursorðræðu eða röngum upplýsingum á samfélagsmiðlum.
Einnota plast er með öllu bannað.
Með klæðaburði eiga ferðamenn að virða siði og venjur heimamanna og klæða sig á viðeigandi hátt þegar musteri, ferðamannastaðir og aðrir almenningsstaðir eru heimsóttir.
Ekki má klifra í heilögum trjám eða á minnisvörðum, né taka myndir sem sýna nekt á trúarlegum stöðum.
Reglurnar eru innleiddar aðeins nokkrum dögum fyrir helgu hátíðarinnar Nyepi eða Dags þagnarinnar, 29. mars. Í heilan sólarhring ríkir algjör þögn á eyjunni þegar öll starfsemi stöðvast og fólk heldur sig innandyra, þ.á.m ferðamenn, sem ber að taka þátt í þögninni.
„Balí er falleg, heilög eyja og við væntum þess að gestir sýni sömu virðingu og við sýnum þeim,“ segir Koster.