Júlía Dagbjört Styrmisdóttir, 23 ára gömul Reykjavíkurmær, er búsett í Livingston í Alabama þar sem hún stundar nám við The University of West Alabama. Hún hélt út til Bandaríkjanna, nánar tiltekið Georgíu, í háskólanám á fótboltastyrk árið 2021 og líkar lífið vel í Suðurríkjunum.
Júlía Dagbjört sagði blaðamanni mbl.is frá því hvernig hún kynntist stóru ástinni á fyrstu önn sinni við Emmanuel University og heldur hér áfram og segir aðeins frá lífinu í Bandaríkjunum, þá sérstaklega smábænum Livingston, en þar búa ríflega þrjú þúsund manns.
„Þetta hefur verið mikil upplifun, það er að vera í skóla í Suðurríkjunum og umkringdur mjög trúuðu fólki, ég get lýst því sem bæði skemmtilegu og leiðinlegu. Það er mjög mikið menningarsjokk að búa í Suðurríkjunum þar sem þessi fylki eru bara eins og önnur lönd innan Bandaríkjanna. Maturinn er öðruvísi, trúarbrögðin eru ýktari og ég hef einnig þurft að venjast hinum svokallaða „southern“ hreim. Fólk segir í alvörunni „hey y’all“, sem mér þykir alltaf jafn fyndið.
Ég sé samt ekki eftir neinu, ég datt auðvitað í lukkupottinn þegar ég kynntist kærastanum mínum og svo hef ég eignast vini sem ég mun eiga restina af lífinu. Reynslan sem ég hef fengið er ómetanleg og fæst hvergi annars staðar.”
Hvernig lýsir þú borginni?
„Litli bærinn sem við búum í núna er mjög klassískur, lítill ekta amerískur bær. Og ég er ekkert að ýkja með hvað bærinn er lítill. Það er ein matvöruverslun, einn bar, eitt bíó, eitt apótek, o.s.frv. Skólinn er það sem kallast „college town“ og er bara til út af háskólanum sem er í bænum. Ég alveg elska að búa hérna. Það er ekkert að frétta og það er mjög mikið öryggi að vera í smábæ. Stundum væri ég til í að vera í stærri borg sem er nær stærri verslunum, en þar væri ég ekki í eins mikilli ró og næði og öryggi. Þegar við erum að kaupa í matinn þurfum við oftast að keyra í 30 til 40 mínútur í næstu borg þar sem við komumst í stærri matvöruverslanir, eins og Costco og Walmart. Það er dýrt að versla í litlu matvöruversluninni sem er í bænum.”
Hvað hefur komið þér mest á óvart?
„Ég myndi segja að menningin sem er ríkjandi í Suðurríkjunum er það sem hefur komið mér og Kyle einna mest á óvart, en Kyle er fæddur og uppalinn í Baltimore þar sem lífshættir fólks eru aðrir. Hér snýst allt um trú og djúpsteiktan mat. Það er allt djúpsteikt hérna, það er ansi erfitt að finna veitingastað sem er ekki með djúpsteiktan kjúkling og franskar á matseðlinum.
Trúin er einnig mikilvæg í daglegum athöfnum og lífi fólks hér. Fólk giftir sig mjög ungt þar sem það trúir ekki á að búa saman eða stunda kynlíf fyrir giftingu. Ég á tvær vinkonur, báðar undir 25 ára, sem eru nú þegar giftar og með börn. Og þegar ég var nemandi við Emmanuel University, sem er mjög kristilegur skóli, þá voru reglulega haldnir fyrirlestrar þar sem nemendur voru skammaðir fyrir að drekka áfengi, vera með húðflúr og fleira sem flestum þykir eðlilegt.
Þetta gerðist einum of oft og fyrsta skiptið sem ég lenti í þessu labbaði ég bara út úr salnum og hringdi rakleitt í mömmu grátandi og sagði: „Hvaða rugl var ég að koma mér út í?“
En þetta er stór hluti af því af hverju það er skemmtilegt að búa hérna, þetta er algjört ævintýri, gjörólíkt því sem ég ólst upp við, og ég kem alltaf heim með fyndnar og skemmtilegar sögur.”
Hvernig er skemmtanalífið í borginni?
„Mjög óspennandi! Það er einn bar í bænum sem ég heimsæki stundum með vinkonum mínum, en oftast hittumst við heima hjá einhverjum til að fá okkur í glas og spjalla. Það eru borgir aðeins frá okkur sem eru með gott næturlíf og nokkrum sinnum á önn gerir maður sér ferð þangað til að skemmta sér.
Það er líka lítið bíó í bænum þar sem allir úr háskólanum fá að koma á eina sýningu í viku ókeypis. Ég reyni að fara á allar myndirnar sem eru í boði með vinkonum mínum. Annars er frekar lítið að frétta í svona háskólabæ, það fara mjög margir á alla íþróttaviðburði skólans. Við erum með fótbolta-, körfubolta-, blak-, hafnabolta- og ruðningsfótboltalið.”
Hvernig er draumadagurinn þinn?
„Draumadagurinn minn væri að fá að sofa út með Kyle, vakna og gera morgunmat saman. Síðan væri gaman að keyra í næsta bæ til að versla í Target og thrift-búðunum sem þar eru og fá sér svo eitthvað gott að borða. Punkturinn yfir i-ið væri svo að keyra heim, elda góðan kvöldmat og kúra yfir bíómynd, að sjálfsögðu með kisuna okkar, Sonny, hjá okkur.”
Áttu þér uppáhalds kaffihús og eða veitingastað?
„Uppáhaldsveitingastaðurinn minn er Chick-Fil-A. Það er kjúklingastaður sem er með besta kjúllann af öllum hinum keðjunum og býður upp á alls konar annað gúmmelaði. Ég elska kjúklingaborgarana hjá þeim og vöfflufranskarnar. Síðan er signature-sósan þeirra svo góð að móðir mín og stjúpfaðir biðja mig alltaf um að koma með eina dollu heim eftir hverja önn.“
Sérðu þig flytja aftur til Íslands?
„Já, á endanum 100%.
Ég er mjög heimakær og sakna þess að búa á Íslandi. Ég sakna fjölskyldunnar, vina og menningarinnar sem er heima. Ég sé mig ekki fyrir mér að kaupa húsnæði í Bandaríkjunum og ala upp börn hérna. Þetta land er ekki fyrir mig og Kyle er meira að segja sammála. Hann er mjög hlynntur því að flytja til Íslands einn daginn. Hann hefur heimsótt Ísland fimm sinnum og sér hvað það er gott að búa þar.
Jafn skemmtilegt og ævintýrið mitt hefur verið hérna í Bandaríkjunum og mun halda áfram að vera næstu árin, þá veit ég innst inni að leið okkar Kyle liggur til Íslands.“