„Ekki bíða eftir öðrum, það er frelsandi og þroskandi að fara einn”

Jóhanna Elísa gisti í tréhúsi sem var aðeins hægt að …
Jóhanna Elísa gisti í tréhúsi sem var aðeins hægt að nálgast með zip-line. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistar- og leiðsögukonan Jóhanna Elísa Skúladóttir lagði af stað í leiðangur, eða réttara sagt í heljarinnar ævintýri, fyrir rétt rúmum tveimur mánuðum síðan. Hún er á svokölluðu sóló-ferðalagi, það er einsömul á ferðalagi, um Suðaustur-Asíu og hefur elskað hverja einustu mínútu, enda er gríðarlega margt að sjá og upplifa í stærstu og fjölmennustu heimsálfu jarðar.

Jóhanna Elísa er sprenglærð í tónlist, en hún lauk námi frá Tónlistarskóla F.Í.H. og Listaháskóla Íslands og starfaði um tíma sem tónlistarkennari. Hún lauk einnig námi frá Leiðsöguskólanum og er löggild leiðsögukona.

„Ég ákvað að taka stökkið og hætti að starfa sem tónlistarkennari til að gerast sjálfstætt starfandi tónlistar- og leiðsögukona. Pælingin með því var að geta verið frjálsari með tímann til að sinna tónlist og ferðast eins og ég er að gera.

Ég vann mjög mikið á síðasta ári, sinnti leiðsögn og hélt tónleika fyrir ferðamenn, sem gerði mér kleift að safna pening til að fjármagna ferðalagið.”

Jóhanna Elísa greip í míkrafóninn og tók lagið á einu …
Jóhanna Elísa greip í míkrafóninn og tók lagið á einu gistiheimili. Ljósmynd/Aðsend

Hvenær kviknaði ferðaáhuginn

„Ég hef alltaf, alveg frá því að ég man eftir mér, haft óbilandi áhuga á ferðalögum. Það er öllum hollt að ferðast, enda upplifir maður mikið af nýjum hlutum og kynnist lífinu og sjálfum sér á nýjan máta. Það er þroskandi og lærdómsrík lífsreynsla að ferðast.

Ferðaáhuginn kviknaði þegar ég var ung stelpa, fjölskyldan mín var mjög dugleg að ferðast, bæði innanlands og utan, og svo hef ég ferðast töluvert um Ísland á fullorðinsárum, bæði vegna vinnu og áhuga.

Ég fór ekki, eins og sumir gera beint eftir menntaskóla, í bakpokaferðalag, en flutti til Svíþjóðar í tónlistarnám þegar ég var tvítug, sem var ótrúlega góð upplifun og tók mig út fyrir þægindarammann. Svo tók lífið við, ég var í námi, vinnu og fór aldrei í bakpokaferðalagið sem mig hafði lengi dreymt um. En ég hef komist að því að ég átti alltaf að fara í þessa ferð núna, ég er ótrúlega glöð að hafa geymt þessa upplifun þar til núna, enda þroskaðri og þakklátari.”

Jóhanna Elísa hefur kynnst fullt af fólki á ferðalagi sínu.
Jóhanna Elísa hefur kynnst fullt af fólki á ferðalagi sínu. Ljósmynd/Aðsend

Manstu eftir fyrstu utanlandsferðinni?

„Úff, það er ansi langt síðan en ég man aðeins eftir henni, þó alls ekki mikið. Ég var þriggja ára gömul og ferðaðist ásamt fjölskyldu minni til Orlando í Bandaríkjunum. Ég man eftir önd sem var í einhverjum vandræðum og stórum poka af gúmmíböngsum, það eru helstu minningar mínar úr þeirri ferð.”

Af hverju varð sóló-ferðalag fyrir valinu?

„Svarið er einfalt! Ég fann engan til koma með mér í þetta ferðalag, það er alls ekkert sjálfgefið að einhver geti farið í burtu í þrjá til fjóra mánuði og ég dreif mig því bara ein og sé sko ekki eftir því.

Til að undirbúa mig þá horfði ég á slatta af myndböndum á Youtube og las mig líka til um það hvernig er að fara einn í bakpokaferðalag og komst fljótt að því að þetta er ótrúlega algengt. Ég hef séð það betur og betur á ferðalaginu, ég gisti á „hostelum“ og langflestir sem ég hef hitt eru einmitt að ferðast einir.

Ég dýrka þetta, að ferðast ein og stjórna öllu, en raunin er sú að ég er aldrei ein, maður er umkringdur fólki hvaðanæva að úr heiminum alla daga. Ég á auðvelt með að láta mér lynda vel við annað fólk, enda jákvæð og opin, og hef verið heppin og eignast ótrúlega marga nýja vini á þessum mánuðum í Asíu. Ég kynntist tveimur stúlkum í Taílandi, önnur frá Þýskalandi og hin Taílandi, og við ferðuðumst saman um Laos í nokkrar vikur, en nú hafa leiðir okkar skilið og það er erfitt að segja bless en ég veit að það bíður mín nýr og spennandi kafli.

Þetta er ótrúlegt ævintýri og ég mæli mikið með þessu, ekki bíða eftir öðrum, það er frelsandi og þroskandi að fara einn.”

Jóhanna Elísa hefur séð og upplifað magnaða hluti.
Jóhanna Elísa hefur séð og upplifað magnaða hluti. Ljósmynd/Aðsend

Varstu með einhverjar efasemdir dagana fyrir brottför?

„Nei, ég var ekki með neinar efasemdir dagana fyrir brottför, ég var meira og minna spennt og mjög tilbúin í þetta ferðalag. Það var kannski örlítill titringur í maganum og ég viðurkenni alveg að ég hugsaði með mér: „Hvað er ég eiginlega að fara út í? En er ég sem betur fer ævintýragjörn og elska að upplifa nýja hluti og titringurinn var því ekkert annað en spenningur.“

Hvenær lagðir þú af stað og hvað ætlarðu að ferðast lengi?

„Ég lagði land undir fót í byrjun janúar og upphaflega ætlaði ég að vera á flandri í þrjá mánuði en ég verð líklegast aðeins lengur. Vinnan mín byrjar meira og minna í maí og vegna þess hef ég aðeins meiri tíma til að njóta og skoða.

Ég keypti mér „one way ticket“ til Suðaustur-Asíu og gerði það af nokkrum ástæðum. Ég hef aldrei farið í svona langt ferðalag og hugsaði því með mér að það væri sniðugt að hafa þetta svigrúm til að geta bara bókað flug heim þegar mér hentar. Hin ástæðan er að með því að gera þetta svona þá er ég svo sveigjanleg og get því auðveldlega bara bókað allar ferðir með nokkurra daga fyrirvara. Ef ég fíla staðinn get ég verið lengur og ef ég fíla ekki staðinn þá get ég haldið förinni áfram.

Ég veit því ekki alveg hvenær ég kem heim.”

Hversu ljúft?
Hversu ljúft? Ljósmynd/Aðsend

Hvaða áfangastaður hefur staðið upp úr hingað til og af hverju?

„Nú er ég búin að vera á Filippseyjum, Taílandi, Laos og Kambódíu. Mér leið ótrúlega vel í Chiang Mai í Taílandi, borgin er ótrúlega falleg og skemmtileg. Gamli bærinn í borginni er sjarmerandi og rólegur, þar er mjög auðvelt að njóta sín. Ég heimsótti hof, eða háskóla fyrir munka, og fór á fyrirlestur hjá munki þar sem ég lærði um búddisma og fékk einnig kennslu í hugleiðslu. Þetta var svo lærdómsríkt og áhugavert og stendur klárlega upp úr frá dvöl minni í Chiang Mai.

Annar staður sem stendur upp úr er Laos, það er gríðarlega falleg náttúra í Laos. Luang Prabang er bær í Norður-Laos sem er virkilega skemmtilegur, en hann er undir frönskum áhrifum. Arkitektúrinn í bænum minnir mjög mikið á franskan stíl en svo sér maður asísk áhrif inn á milli. Þetta er skemmtileg blanda. Mér leið afskaplega vel þar.”

Jóhanna Elísa lærði um búddisma.
Jóhanna Elísa lærði um búddisma. Ljósmynd/Aðsend

Hefur eitthvað komið þér á óvart?

„Já, tvennt. Það fyrsta er að ég var alveg að búast við því að upplifa einhverja daga þar sem ég væri lítil í mér, með heimþrá og einmana, en það hefur bara ekki komið fyrir, alla vega ekki enn þá. Ef eitthvað er þá er ég að reyna að finna tíma til að vera ein, hér er maður umkringdur fólki. Það hefur því komið mér mjög á óvart hvað ég er ekki einmana þrátt fyrir að vera að ferðast ein.

Svo er það annað, en 7-Eleven búðarkeðjan er úti um allt í Taílandi og á fleiri stöðum hér í Suðaustur-Asíu. Það er ákveðið „trend“ í gangi meðal bakpokaferðalanga en það er að fara í 7-Eleven á kvöldin og fá sér súkkulaðiköku, þetta er besta súkkulaðikaka sem ég hef smakkað, það kom mér því skemmtilega á óvart hvað ódýr búðarkeðjukaka getur verið góð.“

Jóhanna Elísa með búðarkeðjukökuna.
Jóhanna Elísa með búðarkeðjukökuna. Ljósmynd/Aðsend

Hefur þú lent í einhverju hættulegu eða upplifað þið óörugga?

„Svarið er bara nei, ég hef upplifað mig mjög örugga í Suðaustur-Asíu, þetta eru friðsæl lönd og fólkið er vingjarnlegt. Ég er skynsöm og fer varlega.“

Var eitthvað sérstakt sem þú vildir sjá og upplifa?

„Stutta svarið er að mig langaði einfaldlega að upplifa aðra menningu og kynnast nýju fólki. Það er hálfómögulegt að skipuleggja allt sem þú vilt sjá og upplifa á svona ferðalagi, ég er bara að ferðast og í raun ekki með neinar væntingar sem gerir það að verkum að allt sem ég hef og er að upplifa er óvænt og skemmtilegt.”

Hvað hefur ferðalagið gefið þér?

„Þetta er mjög stór og góð spurning. Ferðalagið hefur gefið mér mjög margt. Til að mynda nýjar vináttur, ég hef kynnst fólki hvaðanæva að úr heiminum. Þetta hefur sömuleiðis þroskað mig og gefið mér aukna sýn á heiminn, víkkað sjóndeildarhringinn og hjálpað mér að sjá heiminn í nýju ljósi. Þetta hefur líka gefið mér meira sjálfstraust, og svo má ekki gleyma þakklæti. Ferðin hefur gefið mér meira þakklæti, það er svo margt sem maður getur verið þakklátur fyrir. Ég er líka ánægð að hafa þorað að halda af stað ein út í hinn stóra heim, ég er rosalega ánægð með þessa ákvörðun og hlakka til áframhaldsins.”

Ferðalag Jóhönnu Elísu hefur verið eitt stórt ævintýri.
Ferðalag Jóhönnu Elísu hefur verið eitt stórt ævintýri. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka