„Tilboðin voru alls ekki grín“

Snjólaug Lúðvíksdóttir stóð vaktina á Thorsplani.
Snjólaug Lúðvíksdóttir stóð vaktina á Thorsplani. Samsett mynd

Í gær, 1. apríl, á „gabbdaginn“ mikla, auglýsti Icelandair D-vítamínferðir á sturluðu tilboði á Facebook-síðu sinni, tilboð sem hljómuðu of góð til að vera sönn.

Flugfélagið hvatti áhugasama til að mæta á Thorsplan í Hafnarfirði og heimsækja Vítamínvagn Icelandair, en þar var engin önnur en Snjólaug Lúðvíksdóttir, uppistandari með meiru, að veita ókeypis ráðgjöf um hvar og hvernig sé best að innbyrða sólina eftir langan og þungan vetur.

Margir héldu eflaust að um aprílgabb væri að ræða en svo var ekki og voru þónokkrir heppnir sem nældu sér í D-vítamínferðir á frábæru verði.

Sex áfangastaðir voru í boði og gat fólk valið á milli Las Palmas, Nice, Barselóna, Lissabon, Róm og Tenerife.

Ódýrasta ferðin var til Las Palmas en sú ferð kostaði 18.800 krónur en dýrustu áfangastaðirnir voru Nice og Rómar en flug báðar leiðir var auglýst á rétt rúmar 23.000 krónur, sem er heldur betur gjöf en ekki gjald.

„Tilboðinu er lokið!

D-vítamínvagninn þakkar fyrir sig Það er gaman að segja frá því að tilboðin voru alls ekki grín, heldur rammasta alvara.

Fjölmargir tryggðu sér ferð í sólina fyrir aðeins skatta og gjöld – ef þú misstir af vagninum geturðu að sjálfsögðu bókað sólarferðina þína á icelandair.is og fyllt á D-vítamínbirgðirnar. Vagnstjórinn hvetur alla til þess!” tilkynnti flugfélagið á Facebook-síðu sinni þegar gildistími tilboðsins rann út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert