Þótt kórónaveirufaraldurinn virðist í órafjarlægð er flugiðnaðurinn enn að jafna sig. Aðfangakeðjur virka ekki eins og þær eiga að gera og afhendingar nýrra flugvéla hafa tafist, samkvæmt Euro News.
Þau skref hafa verið tekin að lappa upp á útlit og innréttingar eldri flugvéla sem ku vera ein lausn á vandamálinu.
Etihad tilkynnti nýlega að flugfélagið myndi fjárfesta um einum milljarði dala í endurnýjun á Boeing 777 og 787 flugvélum sínum á meðan beðið er eftir nýjum vélum. Emirates gengur enn lengra og ver um fimm milljörðum dala í nýjar innréttingar.
Finnair hefur nýlega ráðist í endurbætur á Airbus A330 og sett upp nýjar innréttingar á viðskiptafarrými, sem ættu að samræmast A350 vélum. Floti Finnair samanstendur af tólf Embraer E190 vélum sem hafa meðalaldurinn 16,8 ár en eru flestar að verða 19 ára gamlar. Farþegar verða þess ekki varir vegna endurbóta á innréttingum vélanna.
Endurbæturnar fela m.a. í sér að skipta út sætunum í vélunum og leggja ný teppi á gólfin.
Alþjóðasamtök flugfélaga (IATA) gaf út upplýsingar í desember á síðasta ári um hve meðalaldur flugvéla hefði hækkað á heimsvísu, í 14,8 ár. Fyrir heimsfaraldur voru það 13 ár, en þetta er í fyrsta skipti frá 1990 sem meðalaldurinn fer yfir 14 ár.
IATA hefur einnig áhyggjur af eldsneytisbrennslu gömlu vélanna en þær nýju eiga að spara um 20% samanborið við þær eldri og eru flugfélögin því engan veginn að ná settum markmiðum.
Flugfélögin hafa einnig það markmið að þægindin í vélunum séu eins og best verður á kosið. Því hefur verið einblínt á að hanna ný sæti fyrir gömlu vélarnar eins þægileg og unnt er, til að þjóna kröfum viðskiptavina. Vel hannaðar endurbætur á innréttingum flugvélanna eiga að ná sömu, a.m.k svipuðum þægindum og í nýrri vélum.