Nýlega kom út ný og endurbætt útgáfa bókarinnar Bíll og bakpoki eftir leiðsögumanninn Pál Ásgeir Ásgeirsson. Bókin er gefin út af Máli og menningu en upprunalega útgáfan kom út árið 2006.
Bókin er ætluð þeim sem vilja fara með allt á bakinu en vilja njóta þess frelsis og þeirrar sérstöku upplifunar sem þessi ferðamáti felur í sér, að sögn Páls.
„Við lýsum ákveðinni leið í bókinni en það er sveigjanlegt hvar þú gistir og hvernig þú skiptir dagleiðunum.“
Á flestum leiðunum er ein gistinótt í tjaldi og í bókinni má, auk ferðaleiðbeininga, finna ítarlega lista um hvernig eigi að búa sig og hvað skuli hafa meðferðis.
„Við höfum ferðast gríðarlega mikið um Ísland út af efnisöflun í þessar leiðsögubækur og þannig kynntust við Íslandi fyrst,“ segir Páll, en með „við“ á hann við þau Rósu Sigrúnu Jónsdóttur en Rósa er sjálf leiðsögumaður og eiginkona Páls til 27 ára.
Páll hefur ekki nákvæma tölu yfir þær leiðsögubækur sem hann hefur skrifað en giskar á að þær séu á bilinu tíu til tólf. Sú fyrsta kom út árið 1994 og var ætluð bakpokaferðamönnum, um fjórar gönguleiðir á hálendi Íslands.
„Þekktasta er eflaust Hálandshandbókin sem kom út 2001 og hefur verið uppfærð tvisvar sinnum eftir það. Sú fyrsta hét 101 Ísland áfangastaðir í alfaraleið, svo fóru þeir upp í 151 og 171 í núverandi útgáfu.“
Hann nefnir að eitthvað hafi verið til um leiðsögubækur fyrir hans fyrstu bók en að enginn hafi gefið út eins margar leiðsögubækur fyrir Íslendinga eins og þau hjónin.
Þegar þau Rósa söfnuðu efni fyrir fyrstu bækurnar voru þau í útivistinni alfarið á eigin spýtur. Það var ekki fyrr en 2007 sem þau fóru að fást við leiðsögn, en þá fór Páll í stjórn Ferðafélags Íslands og hóf svo að leiðsegja.
„Satt best að segja hélt ég alltaf að ég hefði ekki þolinmæði til að leiðsegja fólki. Kannski þurfti ég bara að komast á miðjan aldur,“ segir hann kíminn.
Páll er sjálfmenntaður leiðsögumaður og hefur að baki gríðarlega reynslu. Hann kennir verðandi leiðsögumönnum og heldur fyrirlestra um Ísland á námskeiðum í Endurmenntun Háskóla Íslands og Leiðsöguskólanum í Kópavogi.
„Það er alveg einstök upplifun að vera einhvers staðar úti í íslenskri náttúru, með allt sem þú þarft og þá finnst þér eins og hægt sé að fara hvert sem er, bara eins og fuglarnir og kindurnar.“
Þegar fólk fer á eigin spýtur hefur það meira frelsi til að velja tímann sem lagt er af stað og þá er hægt að bíða eftir góðu veðri eða hreinlega fara heim aftur ef veðrið er leiðinlegt, líkt og Páll útskýrir. Allur gangur sé á hvernig fólk kýs að undirbúa sig fyrir ferðir en þó er alltaf ákveðinn grunnbúnaður sem þarf að vera með í för.
„Sumir vilja vera með alla skapaða hluti og hafa þungan bakpoka og það er bara fínt.“
Páll ítrekar að vilji fólk upplifa náttúruna á eins hreinan hátt og mögulegt er þá sé best að hafa sem minnst meðferðis.
„Við tilheyrum þeim hópi ferðamanna sem vill vera spartanskur svo við erum ekki fólkið sem tekur litla kampavínsflöskku í bakpoka. Það er miklu betra að fara ekki í bað á meðan á ferðalaginu stendur því þá nýturðu sturtunnar svo vel þegar þú kemur heim.“
Hann útskýrir að því sé eins farið með matinn og nefnir hrökkbrauð og te í ferðalaginu og að hægt sé að opna kampavínið og borða steikina þegar heim er komið.
„Andstæðurnar eru svo skemmtilegar. Þú átt ekki endilega að taka siðmenninguna með þér út í náttúruna.“
Spurður um uppáhaldsstað segir Páll að það séu ekki endilega staðirnir sjálfir sem skipti máli, heldur það eitt að vera úti; með dótið sitt, í fallegu veðri og með góðu fólki.
„Þá eigið þið þetta saman og þegar heim er komið er minningin svo dýrmæt og þá skiptir ekki máli hvar þið voruð. Við eigum ekki að ætlast til þess af náttúrunni að hún úthluti okkur þessar stórkostlegu upplifanir, það er ekki hennar, þetta er allt í hausnum. Hver og einn kemur sjálfur með sína upplifun í ferðina.“