Skemmtigarður Universal er á leið til Evrópu en Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í dag um samning sem hann hefur undirritað við Comcast, móðurfyrirtæki Universal, um uppbyggingu garðsins í Bedford í Bretlandi.
Áætlað er að garðurinn opni eftir sex ár eða árið 2031.
„Í dag lokuðum við samningi um fjárfestingu upp á marga milljarða punda sem mun gera Bedford að heimili eins stærsta skemmtigarðs Evrópu,“ sagði Starmer í yfirlýsingu.
Áætlað er að garðurinn muni skapa um 28.000 störf, þar af 20.000 meðan uppbygging hans stendur yfir. Sömuleiðis er búist við að yfir 8,5 milljón manns muni heimsækja garðinn á fyrsta ári hans.
Árið 2023 keypti Comcast 200 hektara svæði í Bedford þar sem skemmtigarðurinn er fyrirhugaður. Í garðinum verða allt að 500 hótelherbergi ásamt fjölmörgum tækjum og veitingasvæði.
Sem stendur eru fimm Universal-skemmtigarðar í heiminum. Tveir þeirra eru í Bandaríkjunum og þrír í Asíu.