Hringvegurinn um landið er lofsamaður í nýrri grein á fréttamiðlinum Telegraph. Þessi rúmlega 1.320 kílómetra langa leið er sögð ein sú fegursta sem hægt er að aka um, á heimsvísu.
Líkt og segir í greininni er um að gera að huga að hver upplifunin sé líkleg til að verða þegar ferðalag snýst um akstur frá a til b. Upplifunin felur í sér ýmislegt bæði þjónustu, s.s. bensín- og hleðslustöðvar, öryggi vega og hvar hægt er að kaupa veganesti, og það sem fyrir augu ber, s.s. gljúfur, eyðimerkur, eldfjöll eða regnskóga.
Þá skipta hvíldarstaðir máli, þ.e. hvar hægt sé að stoppa og hvíla sig.
Til að vinna samantektina, sem staðsetti Ísland í 1. sæti, var notast við tiltæk gögn, innlenda fjölmiðla og alþjóðlegar skýrslur, t.d. frá Sameinuðu þjóðunum.
Þannig voru gefin stig fyrir tíu atriði sem þykja skipta sköpum þegar kemur að akstri á ferðalagi: Öryggi vega, verð á bílaleigubílum, kurteisi annarra ökumanna, lítið um ölvunarakstur, fegurð í umhverfi, merking vega, lítið um tollskylda vegi, þjónustu við rafbíla, ástand á yfirborði vega, veganesti.
Í umsögninni um íslenska vegi segir m.a. að þeir séu rólegir utan háannatíma, tiltölulega auðvelt sé að finna heitar laugar á leiðinni til að dýfa sér í og að miðað við íbúafjölda verði hér færri banaslys í umferðinni.
Ísland hlýtur 66 stig af 100 mögulegum og þau atriði sem skoruðu hæst voru; lítið um tollskylda vegi og öryggi á vegum. Þá fékk ástand vega sjö stig af tíu mögulegum sem er áhugavert samanber umræðu síðastliðnar vikur í fjölmiðlum er varðar holótta og slitna vegi.
Hins vegar er minnst á að mjög dýrt sé að leigja bílaleigubíl og að rafhleðslustöðvar séu frekar fáar, þrátt fyrir að orkan sé sú ódýrasta í Evrópu. Að lokum segir að fyrst engar járnbrautir séu á Íslandi verði bíllinn konungur.
Önnur lönd sem komust í topp tíu eru: Spánn, Skotland, Jórdanía, Nýja-Sjáland, Kosta Ríka, Bandaríkin, England, Argentína og Namibía.