Sigrún Edda Björnsdóttir, sem hefur verið einn af burðarstólpum í leiklistarlífi þjóðarinnar í áraraðir, er stödd í Japan, nánar tiltekið Tókýó, í fróðleiksferð ásamt eiginmanni sínum, tónlistarmanninum Axel Hallkeli Jóhannessyni.
Sigrún Edda og Axel Hallkell, jafnan kallaður Keli, virðast vera að njóta alls þess besta sem þessi mikla menningarborg hefur upp á að bjóða, ef marka má myndir, en leikkonan gaf innsýn í ferðalag hjónanna á Facebook-síðu sinni í gærmorgun.
„Við erum í Tókýó! Kirsuberjatrén í fullum blóma, gullís í morgunmat. Mögnuð borg, ein með öllu!“ skrifaði leikkonan við færsluna.
Tókýó er höfuðborg Japan og einnig stærsta borg landsins. Tókýó er tilvalin borg fyrir listunnendur en hún býður upp á blöndu af ævagamalli menningu og nútímavæddu hátæknisamfélagi.