Í miðbæ Reykjavíkur er gullfalleg og einstaklega smekklega innréttuð þakíbúð til skammtímaleigu. Íbúðin er auglýst til leigu á vefsíðunni AirBnb. Vandað hefur til verka og augljóst er að sá sem innréttaði íbúðina er með gott auga.
Íbúðin er staðsett í rólegri byggingu og er með einu svefnherbergi. Það er hins vegar hægt að koma til móts við foreldra sem eru að ferðast með barn.
Steyptir, hráir veggir í ljósgráum lit skapa þægilegt andrúmsloft. Á móti koma stórar mottur, ljósbrúnir litatónar og stílhrein húsgögn með hlýleika inn í íbúðina.
Þó að íbúðin sé eflaust markaðssett meira til erlendra ferðamanna þá gæti hún verið fullkomin fyrir þá sem vilja kíkja til Reykjavíkur í helgarferð.