Borgaryfirvöld í Barcelona hafa nú gert áætlanir um að smala ferðamönnum inn á sérstakt svæði við Sagrada Familia-kirkjuna, sem gæti kallast sjálfusvæði, en kirkjan laðar að 4,7 milljónir gesta á ári hverju.
Samfélagsmiðlar á borð við TikTok og Instagram hafa gert það að verkum að Placa Gaudí, torgið fyrir framan kirkjuna, hefur verið stútfullt af gestum sem reyna hver af öðrum að ná bestu sjálfunni, með tilheyrandi truflunum við íbúa í nágrenninu. Ferðamenn hafa gengið svo langt að standa kyrrir í rúllustiga sem liggur niður í nærliggjandi neðanjarðarlestarstöð til að ná hinni fullkomnu mynd, sem gerði það að verkum að þeir stífluðu inn- og útgönguleiðina.
Þessi ákvörðun borgaryfirvalda er einn liður í áætlunum um að ná einhverri stjórn á ferðaþjónustu í Barcelona. Árið 2024 gerði borgin 44 milljóna fjárhagsáætlun til að koma stjórn á sextán vinsæla ferðamannastaði innan borgarmarkanna.
Sjálfusvæðið verður staðsett við kirkjuna og geta gestir stillt sér þar upp fyrir eina eða tvær sjálfur áður en gengið er inn í kirkjuna.
Áætlað er að framkvæmdir hefjist eftir sumarið og standi fram í apríl 2026 í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá andláti Gaudí.