Þær tvítugu stöllur Birna Mjöll Björgvinsdóttir og Ísabella Ósk J. Morthens eru staddar í Balí í Indónesíu þegar þær gefa sér smá tíma til að svara spurningum um heimsreisuna, Ljóskureisuna.
Um þessar mundir er reisan hálfnuð en þær hafa áætlað að fara hringinn í kringum jörðina á fjórum mánuðum. Þær lögðu af stað 18. febrúar og stefna á heimkomu 7. júní. Til að skipuleggja ferðina fengu þær aðstoð frá ferðaskrifstofunni Kilroy, sem sérhæfir sig í slíkum ferðum, þrátt fyrir að hafa skipulagt hana mest megnis sjálfar.
„Við eyddum ótal klukkustundum í að rannsaka menningu, trúarbrögð og sérstaka staði sem við vildum upplifa.“
„Þegar við tókum ákvörðunina [um að fara] hófst mikill undirbúningur sem tók í raun heilt ár. Til að fjármagna ferðina unnum við báðar fullt starf eftir útskrift.“
Birna og Ísabella kynntust á fyrsta árinu í Verzlunarskóla Íslands og urðu strax bestu vinkonur. Þær segjast hafa verið á hálfgerðum krossgötum eftir útskrift úr skólanum, vorið 2024, um hvort halda ætti beint í háskólanám eða láta villta drauma rætast.
Vitaskuld varð síðari kosturinn fyrir valinu.
„Við þurftum að skipuleggja ótal hluti s.s. bólusetningar, vegabréfsáritanir, bóka hótel, ferjur, lestir og kynna okkur margt. Við vildum ekki bara ferðast heldur einnig kynnast löndunum, menningunni og fólkinu.“
Áður en lagt var í hann stofnuðu þær Instagram-aðganginn Ljóskureisuna, svo fjölskylda og vinir gætu fylgst með ævintýrunum, en þær segja fjölda fólks hafa bæst í fylgjendahópinn bæði á Instagram og TikTok.
„Hingað til höfum við ferðast til Dúbaí, Víetnam, Taílands og Singapúr, og erum núna staddar á Balí. Eftir Balí förum við til Ástralíu, þar sem við munum ferðast niður austurströndina.”
Þá er förinni heitið til Nýja-Sjálands en þar ætla þær að leigja húsbíl, keyra um og upplifa náttúru landsins.
„Að lokum munum við dvelja á Cooks-eyjum og Havaí, þar sem við njótum eyjalífsins áður en við endum ferðalagið í New York og fljúgum heim til Íslands.“
Á ferðalagi sínu hafa þær gert ýmislegt til að fara út fyrir þægindarammann eins og þær orða það; tekið köfunarréttindi á Taílandi, farið á brimbrettanámskeið á Balí og þær stefna á fallhlífastökk í Ástralíu og teygjustökk á Nýja-Sjálandi.
Inntar eftir hvort þær hafi gert eitthvað þessu líkt áður svara þær neitandi. „Þetta er í fyrsta skipti sem við förum í svona stórt ævintýri.“ Þær segjast ekki einu sinni hafa tekið millilandaflug fyrir ferðalagið.
Markmið Birnu og Ísabellu með ferðinni var að blanda saman ævintýrum, náttúruupplifun, kynnast ólíkri menningu og stunda sjálfsrækt.
„Áður en við lögðum af stað bjuggum við til „bucket-lista“ og við erum smátt og smátt að vinna okkur niður listann.“
Á listanum voru afþreyingar á borð við að kafa, fara á brimbretti og prófa teygju- og fallhlífastökk. Þá hafa þær þegar farið á matreiðslunámskeið, í göngu- og bátsferðir og heimsótt söfn.
„Við viljum ekki bara skoða ferðamannastaði heldur líka kynnast menningu hvers lands. Við gistum aðallega á hostelum þar sem við kynnumst ótrúlega mörgum ferðalöngum alls staðar að úr heiminum.“
„Við lögðum af stað sem tvær vinkonur með bakpoka, en komum heim ríkari af reynslu, þroska og ævintýrum sem munu fylgja okkur alla ævi.“
Báðar segja þær heimsreisuna hafa víkkað sjóndeildarhringinn. Á meðal þess fallega sem þær hafi upplifað hafi þær einnig séð fólk lifa við mjög erfiðar aðstæður. Slík upplifun dýpki sýnina á lífið og kenni þeim að vera þakklátar fyrir það sem þær hafa.
þá hafi ævintýrin ekki alltaf verið auðveld en Birna og Ísabella hafa lent í veseni með flugmiða, bókað rangar dagsetningar í gistingu, bókað ferju í mars í stað febrúar og fengið matareitrun. Allt sé þetta þó partur af upplifuninni og sé ekki annað en þroskandi og lærdómsrík reynsla.
Eflaust sé þó mikilvægasta reynslan sú að þær læra að treysta á sig sjálfar. Þannig eykst sjálfstraustið þegar þarf að bjarga sér í alls kyns óvæntum aðstæðum, segja þær.
„Við héldum að við værum bara að fara að sjá heiminn en í raun er heimurinn líka að kenna okkur að sjá lífið í nýju ljósi. Við vissum að ef við gerðum þetta ekki núna, þá myndum við kannski aldrei gefa okkur þetta tækifæri.“