Ísold Wilberg Antonsdóttir, söngkona, flugfreyja og kennari hjá Play, er mikil ævintýrakona og hefur ferðast víða. Hún hefur starfað hjá íslenska flugfélaginu frá árinu 2022 og elskar lífið í háloftunum. Starfið segir hún skemmtilegt og fjölbreytt og ævintýrin mörg.
Ísold er 32 ára gömul, fædd og uppalin í Reykjavík, nánar tiltekið Grafarvogi, og býr í krúttlegri íbúð í miðbæ Reykjavíkur ásamt litlu hvítu loðbarni, kettinum Rjúpu, sem bíður alltaf spennt eftir að sjá og knúsa mömmu sína þegar hún lendir á klakanum.
Til hvaða landa hefur þú ferðast?
„Ég hef aðallega ferðast innan Evrópu og Norður-Ameríku, örugglega heimsótt hátt í 25 lönd. Meðal þeirra sem ég hef heimsótt eru Danmörk, Færeyjar, Kanada, Tyrkland, Grikkland, Ítalía, Spánn, Ungverjaland, Pólland, Króatía, Svartfjallaland og Ísrael.“
Hvert var eftirminnilegasta ferðalagið þitt?
„Já, þegar stórt er spurt!
Árið 2017 var ég að ganga í gegnum miklar breytingar í lífinu og tók þá skyndiákvörðun að ferðast ein til Balí, foreldrum mínum til mikils ama. Ég bókaði ferðina í gegnum Kilroy á mánudegi og flaug út á miðvikudegi, já, sóaði sko engum tíma,” segir Ísold og hlær.
„Ég bókaði mig á tíu daga brimbrettanámskeið í strandþorpinu Canggu og fékk einnig skemmtilegt tækifæri til að heimsækja nokkrar minni eyjur í kringum Balí, þetta var hreint út sagt algjört ævintýri og upplifun sem ég mun aldrei gleyma.
Ég var 24 ára gömul þegar ég lagði land undir fót og ferðaðist yfir hálfan hnöttinn, ég hafði aldrei ferðast svona langt og hvað þá einsömul, en þetta gerði mér ótrúlega gott.
Menningin og umhverfið á Balí var ólíkt öllu því sem ég hafði áður kynnst, þarna var allt svo afslappað og frjálst og þrátt fyrir að vera að ganga í gegnum erfiðleika þá leið mér mjög vel þarna og var fljót að aðlagast.”
Var ekkert erfitt að vera ein á Balí?
„Nei, alls ekki.
Ég var aldrei ein, alltaf umkringd fólki. Ég kynntist fullt af fólki á hótelinu, bara strax fyrsta kvöldið mitt á Balí, og var einnig með góðum hóp á brimbrettanámskeiðinu. Það var svo fyrir ótrúlega tilviljun að ég rakst á góða vinkonu mína sem hafði einnig ferðast til Balí á námskeið, að vísu ekki brimbrettanámskeið, hún var á jóganámskeiði, og við enduðum á að eyða síðustu dögum okkar á eyjunni saman. Þessi ferð mun alltaf eiga stóran stað í hjarta mínu.”
Hver er uppáhaldsborgin þín í Evrópu?
„Þetta er kannski mjög ófrumlegt svar en ég má til með að segja Kaupmannahöfn. Ég bjó þar um tíma, eða á meðan ég stundaði söngnám við Complete VocalInstitute, og get vel hugsað mér að flytja þangað aftur einn daginn.
Valencia á Spáni er líka einstakur staður sem mér þykir alltaf jafngaman að heimsækja, enda iðar borgin af lífi og býður upp á ótal margt spennandi fyrir ferðafólk. Það væri fullkomið að fljúga til Madrídar og fara til Valencia með stoppi á ströndinni á Alicante og halda áfram til Barselóna og fljúga þaðan heim,” segir Ísold sem elskar að flakka á milli staða án of mikils umstangs.
En fyrir utan Evrópu?
„Ég held mikið upp á Boston, mér líður smá eins og borgin sé heimili mitt að heima þar sem ég hef fengið að kynnast henni vel í gegnum starf mitt hjá Play. Þegar ég vann hjá WOW air þá var uppáhaldsáfangastaðurinn minn Montreal í Kanada, gullfalleg borg með evrópsku ívafi og góðum mat. Þar er algjör skylda að finna sér gott „poutine“, franskar sem eru löðrandi í brúnni sósu og ostabitum sem bráðna á milli franskanna. Og ef maður er hugrakkur þá er hægt að bæta við beikonbitum.“
Dreymdi þig um að gerast flugfreyja þegar þú varst barn? Ef svo, hvernig leið þér þegar sá draumur rættist?
„Haha, mig dreymdi bara um að verða Disney-prinsessa þegar ég var barn. Lífið í háloftunum kom nú allt frekar óvænt upp á.
Þegar ég útskrifaðist frá Tónlistarskóla FÍH árið 2016 þá langaði mig að breyta aðeins um stefnu og prófa eitthvað nýtt og spennandi. Ég rak augun í auglýsingu frá WOW air, sem var að leita að flugfreyjum, og ákvað að sækja um. Ég var ráðin og ætlaði bara að gera þetta í eitt til tvö ár, en mér líkaði þetta vel og endaði á að starfa hjá flugfélaginu þar til það fór á hausinn árið 2019.
Flugfreyjustarfið hentar mér vel þar sem ég þrífst í smá óreglu og finnst mjög gaman að enginn mánuður sé eins, sérstaklega þar sem ég er kennari líka og fæ því að sjá um alls konar þjálfun á áhafnarmeðlimum, það gerir starfið enn fjölbreytilegra.”
Hvað er það skemmtilegasta við flugfreyjustarfið?
„Það er heilmargt. Maður hittir mikið áhugaverðu fólki, hvaðanæva að úr heiminum, bæði farþega og samstarfsfólk, og svo auðvitað ferðatækifærin og upplifanirnar. Ég hef fengið að sjá og upplifa heiminn í gegnum vinnuna mína, það er ómetanlegt.“
Hvað er mest krefjandi við flugfreyjustarfið?
„Ætli það sé ekki svefnrútínan eða svefnrútínuleysið. Það getur verið hálfniðurdrepandi að stilla vekjaraklukkuna sína á 03:00 fyrir fyrstu morgunflugin og það getur verið krefjandi að flakka svona á milli, en það hefur klárlega vanist með tímanum.
Ég hef líka lært að það er í lagi að taka sinn tíma til að jafna sig og hvílast eftir strembin flug án þess að fá samviskubit.“
Geturðu deilt eftirminnilegu augnabliki úr starfi þínu?
„Seinasta sumar vorum við að fljúga heim frá Bandaríkjunum og það var þrumuveður nánast alla leiðina. Það hafði engin áhrif á flugið og við fundum ekki einu sinni fyrir ókyrrð en það var stórkostlegt að fylgjast með þessu út um gluggann, ótrúleg sjón.
Ég fyllist einhvers konar æðruleysi þegar ég stend frammi fyrir öflum móður jarðar, sérstaklega þarna af því að eldingarnar virtust vera mun nær heldur en þegar maður sér þær frá jörðinni, ég var alveg dáleidd.“
Ertu með skemmtileg plön í sumar?
„Eins gaman og ég hef af því að ferðast erlendis þá er ekkert sem jafnast á við íslenskt sumar.
Ég fæ þriggja vikna sumarfrí í júlí og ætla að nýta það til þess að ferðast um fallega landið okkar, baða mig í náttúrulaugum og skoða fossa.
Annars langar mig líka að kynna mér Portúgal betur, ég hef komið til ýmissa landa í Evrópu en einhvern veginn alltaf gleymt Portúgal. Mér skilst að Madeira sé algjörlega vanmetin paradís og fólk talar ótrúlega vel um Portó og Lissabon líka.“