Árið 2024 urðu 36 milljónir ferðataskna viðskila við eigendur sína, ýmist stolnar, týndar eða eyðilagðar. Það gerir um sjö töskur á hverjar þúsund sem eru innritaðar.
Þótt flestar töskur sem týnast innihaldi föt og snyrtivörur þá má einnig finna stórundarlega hluti í einhverjum þeirra.
Bandaríski smásalinn Unclaimed Baggage sem selur hluti úr ósóttum farangri gefur út skýrslu um þá hluti sem þeir fá í hendurnar og afhjúpar undarlegustu, dýrustu og algengustu hlutina sem finna má í týndum farangri.
Brjóstbrynja frá miðaldaherklæðum eða hjálmur rómversks hermanns voru meðal hluta sem fundust í fyrra. Frostþurrkaður hænsnisfótur og köngulær og bjöllur í hólkum fundust í tveimur mismunandi töskum.
Í einni tösku, sem ekki hafði verið vitjað, var að finna steina og var taskan, eins og gefur að skilja, óvenju þung.
Dýrasti hluturinn sem fannst í ósóttri tösku var átján karata demantshringur úr hvítagulli en andvirði hans var talið vera um 39.000 dollarar eða tæpar fimm milljónir króna. Þá fannst einnig gyllt President Oyster Rolex-úr, metið á um 20.000 dollara eða um 2,6 milljónir króna.
Í einhverjum tilfellum fundust rándýrar flíkur frá hönnuðum á borð við Alexander McQueen og einnig dýrar myndavélar. Ein ferðataskan var Louis Vuitton-taska sem ein og sér er að andvirði 10.000 dollara, 1,3 milljónir króna.