Vinkonurnar Sunna Natalía Eiðsdóttir og Sóley Bára Þórunnardóttir kynntust árið 2012 þegar þær stunduðu áhaldafimleika hjá Fylki og hafa verið límdar saman síðan þá. Þær eru báðar nýorðnar tvítugar og að stúdentsprófi loknu ákváðu þær að skella sér saman í tveggja og hálfs mánaða Asíureisu, og lögðu af stað í febrúar. Þær stefna báðar á nám í haust og heillar sálfræðin þær mikið.
„Við erum mjög nánar, góðar vinkonur og getum hlegið endalaust saman! Við erum traustar hvor annarri og getum rætt um allt og ekkert. Við erum lífsglaðar, miklir húmoristar, eða okkur finnst það, og fyrst og fremst stemningskonur. Við vinnum á Hrafnistu og svo er Sóley bæði dansari og danskennari hjá Dansstúdíói World Class,“ segja þær.
„Ég reyndi að sannfæra Sunnu um að koma með mér í reisu í smá tíma og hélt að það væri langsótt en á einu góðu laugardagskvöldi fékk ég símtal frá Sunnu og hún sagði mér að hún væri búin að panta fund hjá ferðaskrifstofunni Kilroy.
Sunna hafði þá líka ráðfært sig við aðra vinkonu sína sem var einnig á leiðinni í reisu. Þá var þetta eiginlega bara klappað og klárt. Við fórum á fund, sögðum þeim frá pælingum okkar og þetta small allt saman,“ segir Sóley Bára.
Hvert eru þið búnar að fara og hvert er förinni heitið?
„Við byrjuðum ferðina í Dúbaí sem var gjörsamlega sturlað. Þaðan flugum við til Taílands og vorum þar í mánuð. Við heimsóttum borgirnar Chiang Mai og Krabi og eyjarnar Phuket, Phi Phi, Koh Lanta, Koh Phangan og Koh Samui. Við elskuðum Taíland!
Eftir dvölina þar fórum við til Singapúr og þaðan til Balí. Við byrjuðum Balí-ævintýrið í Canggu og fórum þar í brimbrettabúðir í eina viku. Næst sigldum við til Gili Trawangan og erum núna staddar í Uluwatu. Við eigum eftir að fara til Ubud og erum svo spenntar fyrir því,“ segja þær.
Í Ubud ætla stöllurnar að hitta vinkonuhóp Sunnu úr Verzlunarskólanum í nokkra daga og er planið að njóta, hlæja og hafa gaman. Þær ætla svo að fljúga til Noregs og heimsækja móður Sunnu sem býr þar, og verja tíma með henni áður en haldið verður heim til Íslands.
Hvernig byggðu þið ferðina upp?
„Kilroy sá um að skipuleggja ferðina að mestu leyti. Við komum með uppástungur um hvaða lönd við vildum fara til og hvað okkur langaði að upplifa. Þau skipulögðu svo í kringum það á núll einni og sendu okkur plan með öllum upplýsingum. Við fínpússuðum svo ferðina og bókuðum nokkrar gistingar sjálfar og áður en við vissum af vorum við búnar að græja flest allt.“
„Draumurinn okkar hefur alltaf verið að ferðast til Taílands og Balí og stóðu staðirnir heldur betur undir væntingum. Við vildum ekki vera alltaf á flakki og í flugvél svo við ákváðum að stoppa lengur á hverjum stað og fara því til færri landa heldur en við hefðum getað gert. Með því náðum við að upplifa svo margt í hverju landi ásamt því að slaka á og njóta.“
Hvað hefur verið það eftirminnilegasta í ferðinni hingað til?
„Það sem stóð upp úr í Dúbaí var klárlega að fara á jeppasafarí í eyðimörkinni, okkur fannst það ótrúlega gaman. Taíland er yndislegur staður. Fólkið er svo einlægt og allir eru svo hjálpsamir, samfélagið er mjög fallegt og allir deila öllu. Við hittum mikið af vinum okkar frá Íslandi í Taílandi sem var svo gaman, enda eru Íslendingar alltaf stemningsfólk.“
„LaPoint-brimbrettabúðirnar á Balí munu alltaf eiga stóran stað í hjarta okkar. Það var mögnuð upplifun að fá að læra á brimbretti og ná fyrstu öldunum okkar, ásamt því vorum við umkringdar yndislegu fólki allan daginn. Við eignuðumst danskar vinkonur í búðunum sem við getum ekki beðið eftir því að heimsækja einn daginn eða sýna þeim um Ísland,“ segja þær.
Hverju mælið þið með að pakka í ferðatöskuna fyrir langa ferð?
„Það er svo margt, við gætum mögulega gert heila grein um það, en pökkunarhólf hafa reynst okkur vel og sparað okkur mikinn tíma þar sem þau gera manni kleift að hafa auðveldlega gott skipulag í töskunni. Góðar hárvörur eins og frá merkinu Kérastase og álíka eru mikilvægar þar sem við sem búum á Íslandi erum óvön óhreinu vatni, og fer vatnið mjög illa með hárið og oft húðina líka.“
„Ég hef séð Sóleyju oftar með svefngrímu á sér heldur en ekki, svo ætli það sé ekki ákveðinn staðalbúnaður á svona löngu ferðalagi,“ segir Sunna Natalía.
Hvað finnst ykkur vera það skemmtilegasta við að ferðast til framandi staða?
„Það hefur verið svo gaman að sjá ólíka menningu og prufa alls konar nýjan mat þar sem við erum báðar miklir matgæðingar. Það hefur líka verið magnað að sjá náttúruna hérna úti og þá sérstaklega strendurnar. Það að fá að upplifa heiminn í öðru ljósi hefur verið mjög lærdómsríkt og líka skemmtilegt. Við sem komum frá Íslandi erum miklir forréttindapésar og þegar maður sér með sínum eigin augum hvernig fólk lifir og kemst af hér, áttar maður sig á því hvað við höfum það gott.
Okkur gafst tækifæri til þess að gista í heimahúsi í Umphang í Taílandi. Þar voru heimilisaðstæður sem við höfum aldrei séð áður og við trúðum því varla að þetta væri raunveruleikinn þeirra á hverjum degi, en bara okkar í fjórar nætur.“
„Við mælum eindregið með því að fara í reisu. Taktu þér pásu og sjáðu heiminn! Rétti ferðafélaginn skiptir þó öllu máli og við duttum í lukkupottinn. Þetta er besta ákvörðun sem við höfum tekið í lífi okkar. Við höfum skapað minningar sem við munum halda fast í og upplifað hluti sem er ekki hægt að lýsa rétt með orðum.
Heimurinn er svo fallegur og það hafa verið mikil forréttindi að fá tækifæri til að standa á eigin fótum og upplifa lífið hinum megin á hnettinum. Við munum koma heim uppfullar af þakklæti og gleði eftir þessa mögnuðu ferð. Við erum sjálfstæðari, reyndari og fyrst og fremst hamingjusamari eftir tveggja og hálfs mánaðar reisu,“ segja þær að lokum.