Þær eru alls konar andlitsmeðferðirnar sem fólk sækist eftir í dag, allt frá býflugnastungum til 24-karata gullmeðferðar. Meðferðin sem tröllríður öllu um þessar mundir er hins vegar andlitsmeðferð með laxasæði.
Breski ferðasérfræðingurinn og áhrifavaldurinn Nicky Kelvin ferðaðist alla leið til Seúl í Suður-Kóreu til að prófa hina óvenjulegu nýjung þar sem laxasæði er sprautað í húðina.
Stjörnur á borð við Kim Kardashian og Jennifer Aniston hafa sagst prófað laxasæðismeðferðina.
Kelvin ákvað að ferðast yfir hálfan hnöttinn til að prófa þessa meðferð og sýndi frá því á Instagram-síðu sinni. Ástæðuna fyrir ferðalaginu sagði Kelvin að Suður-Kórea væri besti staður í heimi fyrir húðvörur.
Hann fór á Cheongdam La Belle Clinic og byrjaði þar í rakameðferð ætlaðri að endurnýja húðina. Að þeirri meðferð lokinni var andlitið smurt með deyfikremi, sem tók nokkurn tíma að ná virkni.
Þá var hann fluttur í annað herbergi til að hefja laxasæðismeðferðina en alls 700 sprautum var komið fyrir á andliti hans sem eiga að örva kollagen- og elastínframleiðslu, bæta raka og yngja húðina.
Að lokum var sett á hann andlitsgríma með led-ljósum til að klára meðferðina. Hann var að vonum hæstánægður með útkomuna.