Athafnakonan Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, eiginkona tónlistarmannsins Bubba Morthens, ferðaðist alla leið til Balí til að heimsækja dóttur sína, Ísabellu Ósk J. Morthens, og vinkonu hennar Birnu Mjöll Björgvinsdóttur. Ísabella og Birna hafa verið í heimsreisu síðan í febrúar, undir formerkjum Ljóskureisunnar á Instagram, og ætla að vera á faraldsfæti fram í byrjun júní.
Balí er eyja og hérað í Indónesíu, en héraðinu fylgja einnig smáeyjarnar Nusa Penida, Nusa Lembongan og Nusa Ceningan. Héraðið er eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna í allri Indónesíu og er ferðaþjónusta þar um 80% af landsframleiðslunni.
Hrafnhildur dvaldi á Balí í tvær vikur og naut sólarinnar og hvítra sandstranda. Saman ferðuðust þær þrjár til staða eins og Ubud, Gili T, Nusa Penida og Uluwatu, líkt og segir í Instagram-færslu Ljóskureisunnar. Þá fóru þær á hina rómuðu Demantsströnd, eða Diamond beach, á eyjunni Nusa Penida.
Teknar voru guðdómlegar myndir af Hrafnhildi í rauðum kjól með síðum slóða í Bali-rólunni í Ubud. Ekki er annað hægt að sjá en að þær hafi notið dvalarinnar í botn.