Sérfræðingur í öryggismálum segir ferðamönnum sem dvelja á hótelum eða öðrum gististöðum að gæta sín á ákveðnum hlutum sem þykja einstaklega skítugir. Þetta kemur fram í umfjöllun Daily Mail.
Hótelherbergi, hversu þrifaleg sem þau kunna að virðast, eru oft skítugri en venjulegt heimili og jafnvel skítugri en skólar. Og þó að hótelin skarti mörgum stjörnum þá geta þau samt reynst skítugri en önnur.
Rúmteppi, skrautpúðar og teppi eru skítugust. Þau eru ekki þrifin á milli gesta vikum og jafnvel mánuðum saman. Þannig safnast upp húðflygsur, líkamsvessar, slef og aðrir sýklar.
Best er að fjarlægja þessa hluti af rúminu við fyrsta tækifæri. Svo er sniðugt að taka með sér koddaver að heiman til þess að setja utan um púða sem gætu verið „mengaðir“.
Hreingerningarfólk fær lítið borgað fyrir gríðarlega vinnu og nær ekki að þrífa hvern einasta hlut. Þau læra því fljótt að láta herbergi líta út fyrir að vera hreint án þess að þrífa það vandlega.
Fjarstýringar og símar eru hlutir sem allir snerta og þar geta ýmsir sýklar leynst. Sérstaklega sýklar sem geta valdið magakveisum eða kvefpestum. Mælt er með því að fólk hafi með sér sótthreinsandi blautþurrkur sem hægt er að þrífa alla snertifleti með.
Sturtuhausar, sturtuhengi, baðker og vaskar á baðherbergjunum eru sýklastía. Rannsókn hefur t.d. sýnt það að sturtuhaus sé 25 þúsund sinnum skítugri en klósettseta.
Sumir sem starfa í herbergisþrifum nota sömu tuskuna til þess að þrífa klósett, vask og borð og auka þar með hættuna á að sýklar dreifist um.
Gott er að strjúka yfir öll svæði með blautþurrkum áður en áfram er haldið. Þá er gott að leyfa heitu vatni að renna úr sturtuhausnum í eina mínútu til þess að ná að skola burt helstu bakteríunum og þrífa létt baðkarið.
Ísfatan á hótelherbergjum virkar kannski sárasaklaus en getur verið gróðrastía fyrir bakteríur. Margir hótelgestir hafa notað fötuna fyrir margt annað en bara ísmola. Sagt er að fatan hafi stundum verið notuð sem gubbufata og ekki þrifin almennilega á milli gesta. Sérfræðingar mæla alltaf með að fólk setji fyrst plastpoka í fötuna áður en ísmolarnir eru settir í.
Kaffivélin getur verið góður staður fyrir bakteríur og myglu að vaxa og dafna enda er þetta mjög hlýr og rakur staður. Ef vélin er ekki þrifin reglulega þá getur kaffið liðið fyrir það. Sama á við um glösin, gott er að skola þau áður en drukkið er úr þeim.