Steinunn Sigurþórsdóttir er mikill göngugarpur og veit fátt skemmtilegra en að reima á sig gönguskóna og leggja af stað í mikla ævintýraför. Hún hefur ferðast um á tveimur jafnfljótum um hálendi Íslands, þvert og endilangt, sem og utan landsteinanna síðustu ár og segir fátt jafnast á við tilfinninguna að ná á toppinn, sérstaklega í góðum félagsskap, enda fátt betra en að takast á við krefjandi verkefni og ná markmiðinu umkringd góðu og öflugu fólki.
Í byrjun árs hélt Steinunn ásamt eiginmanni sínum, Sigurði Guðjónssyni, og öðrum gönguhrólfum í algjöra ævintýraferð til Tansaníu, en tilgangur ferðarinnar var að klífa Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku. Steinunn segir ferðalagið hafa verið hreint út sagt ótrúlegt, en eitt heldur óheppilegt atvik, sem átti sér stað á leið niður fjallið, gerði ferðina sérlega eftirminnilega fyrir hana.
Hún segir betur frá því hér á eftir.
Steinunn er 63 ára gömul, fædd og uppalin í sveit í Skagafirði, og starfar sem deildarstjóri sérkennslu í Mýrarhúsaskóla, en hún hefur kennt við grunnskólann frá árinu 2001 og starfað við kennslu alla starfsævi sína.
Aðspurð hvenær ferðaáhuginn hafi kviknað segir Steinunn hann alltaf hafa verið til staðar.
„Já, ferðaáhuginn er mér einfaldlega í blóð borinn. Ég hef alltaf ferðast. Faðir minn var mikið á ferðalögum og var einnig í björgunarsveit og frítíminn hans fór mikið til í uppbyggingar á hálendinu, byggja brýr og skála. Ég þvældist heilmikið með honum.“
Manstu eftir fyrstu utanlandsferðinni?
„Úff, ég man nú ekki mikið eftir fyrstu utanlandsferðinni, en þegar ég var þriggja ára gömul, eða fyrir sextíu árum síðan, fór ég til Frakklands ásamt foreldrum mínum og tvíburasystur. Þar eyddum við þremur mánuðum. Þetta var alls ekki algengt á þeim tíma að börn hefðu farið til útlanda, mig minnir að við systurnar værum einu börnin í bæjarfélaginu sem hefðu ferðast erlendis.
Faðir minn var duglegur að segja okkur af þessari ferð og sýna okkur myndir, það sem ég man er út frá því. Maður lifði á þessu þegar maður var yngri, að hafa farið til útlanda.“
Steinunn tilheyrir mörgum gönguhópum og fer reglulega í skipulagðar ferðir.
„Já, ég er mjög virk og við hjónin förum líka oft í ferðir á eigin vegum. Við förum í eina krefjandi ferð á ári með Leifi Erni Svavarssyni, einum reyndasta fjallaleiðsögumanni Íslands. Hann hefur verið fenginn til að skipuleggja ferðir og oft notað gönguhópinn sem tilraunadýr til að sjá hvort hægt sé að selja ferðir á fáfarnar slóðir, þær ferðir standa upp úr hjá mér, enda er Leifur sá allra besti í bransanum.“
Er mikil ævintýraþrá í þér?
„Já, ég myndi segja það. Ég nota fríin mín mjög vel, fer mest í hreyfiferðir. Ég hef bæði farið í nokkrar framandi gönguferðir og hef einnig farið mikið í skíða-, hjóla- og golfferðir. Það er geggjað að fara og hjóla í Frakklandi eða á Ítalíu.“
Steinunn hélt af stað til Tansaníu í lok janúar.
Hvenær ákvaðstu að klífa Kilimanjaro?
„Þetta hafði blundað í mér í nokkur ár, enda draumur hvers göngumanns að klífa Kilimanjaro, en alls ekki öllum fært, enda dýrt og þarfnast mikils undirbúnings. En síðastliðið sumar, þegar ég var að ganga á fjöll í Noregi, ásamt göngufélögum og Leifi Erni leiðsögumanni, fór ég að spyrjast fyrir um ferðir á Kilimanjaro, en Leifur Örn, eða öllu heldur ferðaskrifstofan hans, Slóðir, býður upp á slíkar ferðir tvisvar á ári.
Eftir að hafa heyrt allt sem hann hafði að segja um ævintýrin á Kilimanjaro þá ákvað ég, eða við hjónin öllu heldur, að láta af þessu verða. Við pöntuðum ferðina um leið og við komum heim frá Noregi.“
Rétt um þremur vikum eftir að Steinunn og Sigurður keyptu ferðina fengu þau ansi skemmtilegt og óvænt símtal.
„Já, það er alltaf gaman að komast að því að snjallir hugsa í takt. En já, þremur vikum eftir að við keyptum ferðina þá hringdi síminn, mágur minn var á hinum enda línunnar og sagði okkur að hann og eiginkona hans hefðu keypt sömu ferðina og séð nafnið okkar á farþegalistanum. Okkur fannst það heldur skondið, þar sem það skiptir auðvitað öllu máli að vera hluti af góðum hópi.
Þetta var 17 manna hópur og við þekktum um það bil helminginn af fólkinu áður en við lögðum af stað og kynntumst hinum í ferðinni.“
Hvernig leið þér dagana áður en þið hélduð af stað?
„Það voru blendnar tilfinningar, spenna og kvíði. Ég pældi mikið í hæðarveiki, en þegar komið er upp í mikla hæð, 3.500 metra yfir sjávarmál eða meira, getur hæðarveiki gert vart við sig.
Ég hafði áður ferðast til Marokkó til að ganga í Atlas-fjöllunum og þá hafði ég gengið 4.167 metra á Toubkal, það er það hæsta sem ég hafði farið. Það gekk vel og ég fann ekki fyrir neinu. En Kilimanjaro er 5.895 metrar á hæð, talsvert hærra. Það var því ákveðin kvíðatilfinning að ætla að ganga á þetta magnaða fjall en tilhlökkunin var samt miklu meiri, en það er auðvitað mikilvægt að vera raunsær.”
Eftir nokkurra mánaða bið héldu Steinunn og Sigurður af stað í janúar síðastliðnum í þetta mikla ævintýri. Þau flugu, ásamt fleirum, til Oslóar, síðan til Katar og þaðan til Tansaníu, en ferðalagið tók þau rúman sólarhring.
„Þetta var langt ferðalag. Við vorum gjörsamlega uppgefin þegar við lentum og byrjuðum því á að fara upp á hótelherbergi og leggja okkur. Þegar við vorum búin að ná áttum fórum við í smátúr um litla borg rétt hjá hótelinu, bara til að sjá lífið þar og kúltúrinn. Við heimsóttum markað, skoðuðum ótrúlegt úrval af kryddum og ávöxtum og kíktum á kaffihús. Byrjuðum þetta bara rólega.”
Hvernig leist þér á þetta svona við fyrstu sýn?
„Þetta var bara dásamlegt, gott fólk, fallegt umhverfi og ýmislegt áhugavert að sjá. Daginn eftir að við lentum fórum við upp í fjall og skoðuðum svæði þar sem verið var að rækta kaffi. Við fengum kynningu á því og svo var hellt upp á kaffi fyrir okkur. Það var mjög góður kaffibolli, gott orkuskot fyrir ævintýrið sem fram undan var.“
Steinunn og göngugarparnir byrjuðu gönguferðalagið mikla á því að ganga á fjall sem heitir Meru, en það er 4.500 metra hátt og góð upphitun fyrir Kilimanjaro, enda kærkomin leið til að aðlagast hæðinni.
„Á þriðja degi keyrðum við inn í Arusa-þjóðgarðinn og byrjuðum gönguna þar. Við gengum í gegnum regnskóg, með byssumann meðferðis, en í skóginum er fjölskrúðugt dýralíf og því var asni mikilvægt að vera var um sig, maður vissi ekkert á hvern eða hvað maður gat rekist á. Við sáum mikið af fuglum og öpum, en í þjóðgarðinum leynast stærri dýr eins og gíraffar, buffalóar og nashyrningar.“
Gangan á Meru tók hópinn fjóra daga.
„Þetta var æðisleg upplifun en ég fann samt aðeins fyrir hæðarveiki. Ég varð andstutt og þurfti að fara mér hægt.“
Eftir ævintýralega daga á Meru þá var tími til kominn fyrir hópinn að leggja af stað á Kilimanjaro.
„Tilhlökkunin var gífurleg,“ segir Steinunn.
Var engin þreyta í hópnum eftir fyrri gönguna?
„Ég væri nú að ljúga ef ég segði að ég hafi ekki verið þreytt, en Kilimanjaro var tilgangur ferðarinnar og við vorum öll þrælspennt að halda af stað, enda þaulvön að skunda yfir fjöll og firnindi.“
Steinunn náði, ásamt hinum, á topp fjallsins, Uhuru-tind, sem er 5.895 metrar, eftir nokkurra daga göngu. Á leiðinni niður Kilimanjaro lenti hún í því að renna á rassinn og fótbrotna mjög illa.
„Já, þetta var bara algjör óheppni. Ég náði göngunni og brotnaði á leiðinni niður. Þetta gerðist í 3.000 metra hæð. Ég var ekki göngufær og þurfti hjálp. Heppilega vorum við nýbúin að mæta manni með börur, börur sem eru notaðar ef fólk verður veikt af hæðarveiki. Leiðsögumaðurinn hljóp á eftir manninum og sótti hann, þeir báru mig á þessum börum, sex leiðsögumenn, niður á stað þar sem hægt var að lenda þyrlu. Þeir þurftu að bera mig einn kílómetra. Þessar börur eru hátt í 40 kíló og ég, með kílóin mín, ætla ekki að segja töluna, en þetta hefur ekki verið auðvelt.”
Steinunn var sótt af þyrlu og flutt á bráðamóttöku.
„Ég braut mig rosalega illa, margbraut á mér vinstri ökklann og sá það. Ég var í stuttbuxum og sá beinin ganga til, en sem betur fer var þetta ekki opið brot,“ segir Steinunn sem þurfti að bíða eftir þyrlunni í dágóðan tíma vegna erfiðra lendingaraðstæðna sökum þoku.
„Ég lá á borði og heyrði þyrluna koma og fara. Það var erfiðasti kaflinn, biðin eftir þyrlunni. Ég var sárþjáð, mínúturnar líða mun hægar þegar maður er sárþjáður.“
Steinunn var flutt á bráðamóttöku þar sem hún var mynduð og sett í gifs. Fótbrotið setti að sjálfsögðu stórt strik í reikninginn.
„Já, síðustu dagarnir breyttust!
Ferðin var skipulögð þannig að maður gæti keypt sér safaríferð, sem við gerðum, og síðan ætluðum við okkur að enda í slökun í Sansibar, en það varð ekkert úr því. Við lögðum af stað heim til Íslands.“
Steinunn lenti á Íslandi fimm dögum eftir slysið og er enn að jafna sig.
Hvernig gengur bataferlið?
„Ég þurfti að bíða mjög lengi eftir að komast í aðgerð. Ég var svo bólgin, enda gifsuð úr lið, sem er ekki alveg það besta. Ég fór í aðgerð 12 dögum eftir slysið og er í veikindaleyfi. Þetta kemur hægt og bítandi, ég verð betri og betri með hverjum deginum,“ segir Steinunn sem bíður spennt eftir að komast aftur á lappir og út í óbyggðirnar.