Fótbrotnaði á leið sinni niður Kilimanjaro

Steinunn Sigurþórsdóttir er mikill fjallagarpur.
Steinunn Sigurþórsdóttir er mikill fjallagarpur. Ljósmynd/Aðsend

Stein­unn Sig­urþórs­dótt­ir er mik­ill göngugarp­ur og veit fátt skemmti­legra en að reima á sig göngu­skóna og leggja af stað í mikla æv­in­týra­för. Hún hef­ur ferðast um á tveim­ur jafn­fljót­um um há­lendi Íslands, þvert og endi­langt, sem og utan land­stein­anna síðustu ár og seg­ir fátt jafn­ast á við til­finn­ing­una að ná á topp­inn, sér­stak­lega í góðum fé­lags­skap, enda fátt betra en að tak­ast á við krefj­andi verk­efni og ná mark­miðinu um­kringd góðu og öfl­ugu fólki.

Í byrj­un árs hélt Stein­unn ásamt eig­in­manni sín­um, Sig­urði Guðjóns­syni, og öðrum göngu­hrólf­um í al­gjöra æv­in­týra­ferð til Tans­an­íu, en til­gang­ur ferðar­inn­ar var að klífa Kilimanjaro, hæsta fjall Afr­íku. Stein­unn seg­ir ferðalagið hafa verið hreint út sagt ótrú­legt, en eitt held­ur óheppi­legt at­vik, sem átti sér stað á leið niður fjallið, gerði ferðina sér­lega eft­ir­minni­lega fyr­ir hana.

Hún seg­ir bet­ur frá því hér á eft­ir.

Stein­unn er 63 ára göm­ul, fædd og upp­al­in í sveit í Skagaf­irði, og starfar sem deild­ar­stjóri sér­kennslu í Mýr­ar­húsa­skóla, en hún hef­ur kennt við grunn­skól­ann frá ár­inu 2001 og starfað við kennslu alla starfsævi sína.

Steinunn umvafin fallegri náttúru á Grænlandi.
Stein­unn um­vaf­in fal­legri nátt­úru á Græn­landi. Ljós­mynd/​Aðsend

„Ég þvæld­ist heil­mikið með hon­um“

Aðspurð hvenær ferðaáhug­inn hafi kviknað seg­ir Stein­unn hann alltaf hafa verið til staðar.

„Já, ferðaáhug­inn er mér ein­fald­lega í blóð bor­inn. Ég hef alltaf ferðast. Faðir minn var mikið á ferðalög­um og var einnig í björg­un­ar­sveit og frí­tím­inn hans fór mikið til í upp­bygg­ing­ar á há­lend­inu, byggja brýr og skála. Ég þvæld­ist heil­mikið með hon­um.“

Manstu eft­ir fyrstu ut­an­lands­ferðinni?

„Úff, ég man nú ekki mikið eft­ir fyrstu ut­an­lands­ferðinni, en þegar ég var þriggja ára göm­ul, eða fyr­ir sex­tíu árum síðan, fór ég til Frakk­lands ásamt for­eldr­um mín­um og tví­bura­syst­ur. Þar eydd­um við þrem­ur mánuðum. Þetta var alls ekki al­gengt á þeim tíma að börn hefðu farið til út­landa, mig minn­ir að við syst­urn­ar vær­um einu börn­in í bæj­ar­fé­lag­inu sem hefðu ferðast er­lend­is.

Faðir minn var dug­leg­ur að segja okk­ur af þess­ari ferð og sýna okk­ur mynd­ir, það sem ég man er út frá því. Maður lifði á þessu þegar maður var yngri, að hafa farið til út­landa.“

Hjónin gengu Rommdalseggen í Noregi á síðasta ári.
Hjón­in gengu Romm­dal­seggen í Nor­egi á síðasta ári. Ljós­mynd/​Aðsend

„Ég er mjög virk“

Stein­unn til­heyr­ir mörg­um göngu­hóp­um og fer reglu­lega í skipu­lagðar ferðir.

„Já, ég er mjög virk og við hjón­in för­um líka oft í ferðir á eig­in veg­um. Við för­um í eina krefj­andi ferð á ári með Leifi Erni Svavars­syni, ein­um reynd­asta fjalla­leiðsögu­manni Íslands. Hann hef­ur verið feng­inn til að skipu­leggja ferðir og oft notað göngu­hóp­inn sem til­rauna­dýr til að sjá hvort hægt sé að selja ferðir á fá­farn­ar slóðir, þær ferðir standa upp úr hjá mér, enda er Leif­ur sá allra besti í brans­an­um.“

Er mik­il æv­in­týraþrá í þér?

„Já, ég myndi segja það. Ég nota frí­in mín mjög vel, fer mest í hreyfi­ferðir. Ég hef bæði farið í nokkr­ar fram­andi göngu­ferðir og hef einnig farið mikið í skíða-, hjóla- og golf­ferðir. Það er geggjað að fara og hjóla í Frakklandi eða á Ítal­íu.“

Steinunn og eiginmaður hennar, Sigurður Guðjónsson, hafa ferðast víða. Hér …
Stein­unn og eig­inmaður henn­ar, Sig­urður Guðjóns­son, hafa ferðast víða. Hér standa þau á hæsta tindi Mar­okkó, Tou­bkal. Ljós­mynd/​Aðsend

„Þetta hafði blundað í mér í nokk­ur ár“

Stein­unn hélt af stað til Tans­an­íu í lok janú­ar.

Hvenær ákvaðstu að klífa Kilimanjaro?

„Þetta hafði blundað í mér í nokk­ur ár, enda draum­ur hvers göngu­manns að klífa Kilimanjaro, en alls ekki öll­um fært, enda dýrt og þarfn­ast mik­ils und­ir­bún­ings. En síðastliðið sum­ar, þegar ég var að ganga á fjöll í Nor­egi, ásamt göngu­fé­lög­um og Leifi Erni leiðsögu­manni, fór ég að spyrj­ast fyr­ir um ferðir á Kilimanjaro, en Leif­ur Örn, eða öllu held­ur ferðaskrif­stof­an hans, Slóðir, býður upp á slík­ar ferðir tvisvar á ári.

Eft­ir að hafa heyrt allt sem hann hafði að segja um æv­in­týr­in á Kilimanjaro þá ákvað ég, eða við hjón­in öllu held­ur, að láta af þessu verða. Við pöntuðum ferðina um leið og við kom­um heim frá Nor­egi.“

Rétt um þrem­ur vik­um eft­ir að Stein­unn og Sig­urður keyptu ferðina fengu þau ansi skemmti­legt og óvænt sím­tal.

„Já, það er alltaf gam­an að kom­ast að því að snjall­ir hugsa í takt. En já, þrem­ur vik­um eft­ir að við keypt­um ferðina þá hringdi sím­inn, mág­ur minn var á hinum enda lín­unn­ar og sagði okk­ur að hann og eig­in­kona hans hefðu keypt sömu ferðina og séð nafnið okk­ar á farþegalist­an­um. Okk­ur fannst það held­ur skondið, þar sem það skipt­ir auðvitað öllu máli að vera hluti af góðum hópi.

Þetta var 17 manna hóp­ur og við þekkt­um um það bil helm­ing­inn af fólk­inu áður en við lögðum af stað og kynnt­umst hinum í ferðinni.“

Hvernig leið þér dag­ana áður en þið hélduð af stað?

„Það voru blendn­ar til­finn­ing­ar, spenna og kvíði. Ég pældi mikið í hæðar­veiki, en þegar komið er upp í mikla hæð, 3.500 metra yfir sjáv­ar­mál eða meira, get­ur hæðar­veiki gert vart við sig.

Ég hafði áður ferðast til Mar­okkó til að ganga í Atlas-fjöll­un­um og þá hafði ég gengið 4.167 metra á Tou­bkal, það er það hæsta sem ég hafði farið. Það gekk vel og ég fann ekki fyr­ir neinu. En Kilimanjaro er 5.895 metr­ar á hæð, tals­vert hærra. Það var því ákveðin kvíðatil­finn­ing að ætla að ganga á þetta magnaða fjall en til­hlökk­un­in var samt miklu meiri, en það er auðvitað mik­il­vægt að vera raun­sær.”

Steinunn gekk í gegnum regnskóg í Tansaníu þar sem sjá …
Stein­unn gekk í gegn­um regn­skóg í Tans­an­íu þar sem sjá mátti fjöl­skrúðugt dýra­líf. Ljós­mynd/​Aðsend

Ótrú­legt æv­in­týri

Eft­ir nokk­urra mánaða bið héldu Stein­unn og Sig­urður af stað í janú­ar síðastliðnum í þetta mikla æv­in­týri. Þau flugu, ásamt fleir­um, til Osló­ar, síðan til Kat­ar og þaðan til Tans­an­íu, en ferðalagið tók þau rúm­an sól­ar­hring.

„Þetta var langt ferðalag. Við vor­um gjör­sam­lega upp­gef­in þegar við lent­um og byrjuðum því á að fara upp á hót­el­her­bergi og leggja okk­ur. Þegar við vor­um búin að ná átt­um fór­um við í smát­úr um litla borg rétt hjá hót­el­inu, bara til að sjá lífið þar og kúltúr­inn. Við heim­sótt­um markað, skoðuðum ótrú­legt úr­val af krydd­um og ávöxt­um og kíkt­um á kaffi­hús. Byrjuðum þetta bara ró­lega.”

Hvernig leist þér á þetta svona við fyrstu sýn?

„Þetta var bara dá­sam­legt, gott fólk, fal­legt um­hverfi og ým­is­legt áhuga­vert að sjá. Dag­inn eft­ir að við lent­um fór­um við upp í fjall og skoðuðum svæði þar sem verið var að rækta kaffi. Við feng­um kynn­ingu á því og svo var hellt upp á kaffi fyr­ir okk­ur. Það var mjög góður kaffi­bolli, gott orku­skot fyr­ir æv­in­týrið sem fram und­an var.“

Stein­unn og göngugarp­arn­ir byrjuðu göngu­ferðalagið mikla á því að ganga á fjall sem heit­ir Meru, en það er 4.500 metra hátt og góð upp­hit­un fyr­ir Kilimanjaro, enda kær­kom­in leið til að aðlag­ast hæðinni.

„Á þriðja degi keyrðum við inn í Ar­usa-þjóðgarðinn og byrjuðum göng­una þar. Við geng­um í gegn­um regn­skóg, með bys­su­m­ann meðferðis, en í skóg­in­um er fjöl­skrúðugt dýra­líf og því var asni mik­il­vægt að vera var um sig, maður vissi ekk­ert á hvern eða hvað maður gat rek­ist á. Við sáum mikið af fugl­um og öpum, en í þjóðgarðinum leyn­ast stærri dýr eins og gír­aff­ar, buffaló­ar og nas­hyrn­ing­ar.“

Steinunn og göngugarparnir byrjuðu gönguferðalagið mikla á því að ganga …
Stein­unn og göngugarp­arn­ir byrjuðu göngu­ferðalagið mikla á því að ganga á fjall sem heit­ir Meru. Ljós­mynd/​Aðsend

Gang­an á Meru tók hóp­inn fjóra daga.

„Þetta var æðis­leg upp­lif­un en ég fann samt aðeins fyr­ir hæðar­veiki. Ég varð andstutt og þurfti að fara mér hægt.“

Fót­brotnaði á fjall­inu

Eft­ir æv­in­týra­lega daga á Meru þá var tími til kom­inn fyr­ir hóp­inn að leggja af stað á Kilimanjaro.

„Til­hlökk­un­in var gíf­ur­leg,“ seg­ir Stein­unn.

Útsýnið var magnað.
Útsýnið var magnað. Ljós­mynd/​Aðsend

Var eng­in þreyta í hópn­um eft­ir fyrri göng­una?

„Ég væri nú að ljúga ef ég segði að ég hafi ekki verið þreytt, en Kilimanjaro var til­gang­ur ferðar­inn­ar og við vor­um öll þræl­spennt að halda af stað, enda þaul­vön að skunda yfir fjöll og firn­indi.“

Stein­unn náði, ásamt hinum, á topp fjalls­ins, Uhuru-tind, sem er 5.895 metr­ar, eft­ir nokk­urra daga göngu. Á leiðinni niður Kilimanjaro lenti hún í því að renna á rass­inn og fót­brotna mjög illa.

Á Kilimanjaro.
Á Kilimanjaro. Ljós­mynd/​Aðsend

„Já, þetta var bara al­gjör óheppni. Ég náði göng­unni og brotnaði á leiðinni niður. Þetta gerðist í 3.000 metra hæð. Ég var ekki göngu­fær og þurfti hjálp. Heppi­lega vor­um við ný­bú­in að mæta manni með bör­ur, bör­ur sem eru notaðar ef fólk verður veikt af hæðar­veiki. Leiðsögumaður­inn hljóp á eft­ir mann­in­um og sótti hann, þeir báru mig á þess­um bör­um, sex leiðsögu­menn, niður á stað þar sem hægt var að lenda þyrlu. Þeir þurftu að bera mig einn kíló­metra. Þess­ar bör­ur eru hátt í 40 kíló og ég, með kíló­in mín, ætla ekki að segja töl­una, en þetta hef­ur ekki verið auðvelt.”

Stein­unn var sótt af þyrlu og flutt á bráðamót­töku.

„Ég braut mig rosa­lega illa, marg­braut á mér vinstri ökkl­ann og sá það. Ég var í stutt­bux­um og sá bein­in ganga til, en sem bet­ur fer var þetta ekki opið brot,“ seg­ir Stein­unn sem þurfti að bíða eft­ir þyrlunni í dágóðan tíma vegna erfiðra lend­ing­araðstæðna sök­um þoku.

„Ég lá á borði og heyrði þyrluna koma og fara. Það var erfiðasti kafl­inn, biðin eft­ir þyrlunni. Ég var sárþjáð, mín­út­urn­ar líða mun hæg­ar þegar maður er sárþjáður.“

Stein­unn var flutt á bráðamót­töku þar sem hún var mynduð og sett í gifs. Fót­brotið setti að sjálf­sögðu stórt strik í reikn­ing­inn.

Tjaldbúðir á Kilimanjaro.
Tjald­búðir á Kilimanjaro. Ljós­mynd/​Aðsend

„Já, síðustu dag­arn­ir breytt­ust!

Ferðin var skipu­lögð þannig að maður gæti keypt sér safaríferð, sem við gerðum, og síðan ætluðum við okk­ur að enda í slök­un í Sansi­b­ar, en það varð ekk­ert úr því. Við lögðum af stað heim til Íslands.“

Stein­unn lenti á Íslandi fimm dög­um eft­ir slysið og er enn að jafna sig.

Hvernig geng­ur bata­ferlið?

„Ég þurfti að bíða mjög lengi eft­ir að kom­ast í aðgerð. Ég var svo bólg­in, enda gifsuð úr lið, sem er ekki al­veg það besta. Ég fór í aðgerð 12 dög­um eft­ir slysið og er í veik­inda­leyfi. Þetta kem­ur hægt og bít­andi, ég verð betri og betri með hverj­um deg­in­um,“ seg­ir Stein­unn sem bíður spennt eft­ir að kom­ast aft­ur á lapp­ir og út í óbyggðirn­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert