Andrew Welch ákvað að flytja í nektarnýlendu í breskri sveitasælu. Staðurinn heitir Spielplatz og á sér langa sögu en hann var stofnaður árið 1928.
„Í dag eru fjórir staðir í Bretlandi þar sem hægt er að vera nakinn í takt við náttúruna, sér til heilsueflingar.
Maður verður að vera nakinn til þess að synda í útilauginni, í heita pottinum eða þegar slakað er á í gufunni. Annars eru föt valkvæð og undir hverjum og einum komið,“ segir Andrew Welch núdisti í pistli sínum í Daily Mail.
„Þegar heitt er í veðri má sjá nakið fólk sinna garðyrkju, þrífa bílinn sinn eða hvað sem er. Þarna er klúbbhús með bar þar sem fólk kemur reglulega saman og dansar. Þegar á líður kvöldið eru allir naktir. Rétt er að taka fram að þetta er algjörlega ókynferðislegt umhverfi og nektin verður fljótt ómerkileg.
Sjálfur uppgötvaði ég náttúruhyggju fyrst á franskri strönd þegar ég var 14 ára og það opnaðist alveg nýr heimur fyrir mér.
Ég hef síðan gert það að starfsferli mínum og veitt markaðs- og almannatengslaþjónustu fyrir margs konar fyrirtæki í þessum geira.
Ég ímyndaði mér aldrei að þetta væri þar sem ég myndi enda og ég hafði svo sannarlega ekki ætlað að búa á svona stað en flutti hingað í kjölfar sambandsslita. Þarna var hús til sölu og ég sló til.
Eftir að hafa tekið þátt í þessum lífsstíl í 40 ár þá var bara eðlilegt að flytjast alfarið á nektarnýlendu sem þessa. Hér búa um 60 manns allt árið um kring og aðrir taka á leigu lóðir sem þeir geta notað í allt að níu mánuði á ári.
Aðrir félagsmenn greiða ársáskrift og koma og fara eins og þeir vilja. Í augnablikinu eru nokkur hús á staðnum til sölu og Lundúnir eru í aðeins 30 mínútna fjarlægð með lest,“ segir Welch.