Fjölmiðlakonan Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og eiginmaður hennar, Haukur Ingi Guðnason sálfræðingur, lögðu nýlega land undir fót ásamt börnum sínum og ferðuðust alla leið til Egyptalands til að kynna sér eina elstu og þekktustu siðmenningu í heimi.
Ragnhildur Steinunn gaf innsýn í ævintýraferðina á Instagram-síðu sinni og af myndum að dæma þá er fjölskyldan að njóta alls þess besta sem landið hefur upp á að bjóða.
Fjölskyldan heimsótti að sjálfsögðu einn vinsælasta áfangastað ferðamanna, Píramídana á Giza, og skellti sér einnig í köfunarferð þar sem hún virti fyrir sér alla fegurðina sem sjávarlífið hefur upp á að bjóða.
Þó nokkrir þjóðþekktir einstaklingar hafa á síðustu mánuðum ferðast til Egyptalands og deilt fallegum myndum frá ferðalögum sínum á samfélagsmiðlasíðunni Instagram.
Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli, lét langþráðan draum rætast þegar hún heimsótti Egyptaland ásamt eiginmanni sínum, Snorra Steini Þórðarsyni arkitekt, á síðasta ári.
Hún sagði frá ferðalaginu í skemmtilegu viðtali sem birtist á ferðavefnum í mars.
Örn Árnason, leikari og leiðsögumaður, hélt jólin í Egyptalandi, en þar var hann staddur ásamt hópi ævintýraþyrstra ferðalanga og grínistinn Björn Bragi Arnarsson heimsótti landið nýverið og birti mynd af sér á baki úlfalda.