Hamingjudalurinn eða Ourika-dalurinn í Marokkó er staðsettur í aðeins 32 kílómetra fjarlægð frá ys og þys hins fræga Djemaa el Fna-torgs í miðborg Marrakech.
Í gegnum dalinn hlykkjast Ourika-áin sem státar af töfrandi görðum, ólífutrjám og gönguleiðum við rætur Atlas-fjallanna.
Þarna eru tré sem eru græn árið um kring, fræbelgir með súkkulaðibragði og fræ sem nýlenduherrar kölluðu áður le „poivre des pauvres“ eða pipar fátæka mannsins. Íbúar fjallanna setja þurrkuð oleander-lauf trjánna á eld til að búa til sótthreinsandi reyk.
Úr dalnum má í fjarska sjá glitta í snjó á fjallstindum Toubkal-þjóðgarðsins en fjögur ár eru síðan snjóaði almennilega í hæstu fjöll Norður-Afríku og skíðatímabilið í Oukaimeden hefur verið nánast ekkert allan þann tíma.
Síðasta villta Atlasljónið var skotið nálægt þessum háu tindum árið 1942, en sérfræðingar telja að afrískir úlfar séu nú að snúa aftur í afskekktustu dali Atlas-fjalla.
Marrakech er þekkt fyrir myndræna garða sína og þeirra frægastur er Jardin Majorelle sem gerður var 1923 og keyptur árið 1980 af hátískuhönnuðinum Yves Saint Laurent og félaga hans. Það hefur þó vaxið í vinsældum að gestir flýi borgina til að verja tíma á svæðum eins og Anima-garðinum, sem austurríski listamaðurinn André Heller opnaði. Garðurinn er eins og suðrænt völundarhús sem státar af dularfullum skúlptúrum.
Í nágrenni við Anima-garðinn má finna Jardin du Safran, Saffrangarðinn, þar sem hið rauða gull Marokkóbúa er uppskorið, en í garðinum er einnig að finna aldintré og hægt er að sötra saffran-, timían-, salvíu- eða lavenderte á verönd garðsins.
Í þorpunum í Ourika-dalnum er að finna markaði þar sem hægt er að versla döðlur og sykurreyrsafa, meðal annarra hluta.
Röð sjö fallegra fossa í Setti Fatma-þorpinu er eitt helsta aðdráttarafl dalsins. Á leið sinni stoppa ferðamenn oft til að láta taka myndir af sér á úlfalda með foss í bakgrunni.
Aghmat-fornleifasvæðið í dalnum var höfuðborg héraðsins í meira en 700 ár, þar til á 11. öld, þegar borgin var flutt þar sem núna er Marrakech. Árið 2005 hófu fornleifafræðingar að endurreisa staðinn og hélst endurreisnarverkefnið nánast óbreytt þrátt fyrir jarðskjálftann í september 2023 sem mældist 6,8 á Richter, varð tæplega 3.000 manns að bana og eyðilagði 60.000 heimili.