Icelandic Cottages eru fjögur heilsárshús sem eru í Hraunmörk, skammt fyrir utan Selfoss. Húsin eru nú til sölu, ásamt einbýlishúsi á 5,5 hektara einkalóð, líkt og fram kemur á fasteignavef mbl.is. Svo nú er tækifæri fyrir hvern þann sem hefur áhuga að gerast ferðaþjónustubóndi.
Húsin eru í um 2,3 kílómetra fjarlægð frá Þjóðvegi 1. Einbýlishúsið er 167 fm, en því fylgir 12 fm gestahús og þvottahús sem er 24 fm.
Heilsárshúsin fjögur eru 73 fm hvert og kemur fram að hægt sé að bæta við byggingum á lóðinni.
Gistihúsin eru timburhús, björt og rúmgóð, með stórum gluggum. Úr húsunum er útsýni í allar áttir og skiptast þau í þrjú svefnherbergi, samliggjandi stofu og eldhús og baðherbergi. Rafmagnsofnar eru í húsunum en varmadælu var komið fyrir síðasta sumar svo hægt sé að hita húsin árið um kring.
Veröndin við gistihúsin er stór og fylgja húsgögn og útigrill. Bílastæði eru við öll húsin.
Rekstrarfélagið Icelandic Cottages er einnig til sölu en það hefur öll tilskilin leyfi til ferðaþjónustu. Bókunarstaða félagsins fyrir árið 2025 lofar mjög góðu.
Einbýlishúsið sjálft er afar glæsilegt timburhús á tveimur hæðum sem skiptist í fjögur svefnherbergi, samliggjandi stofu og borðstofu og eldhús, baðherbergi og skemmtilegan garðskála. Á garðskálanum eru vandaðar rennihurðir sem hægt er að opna alveg á góðviðrisdögum.
Við verönd einbýlishússins stendur gestahús á tveimur hæðum, risið er nýtt sem svefnloft en í aðalrýminu eru 24 fm þvottahús með iðnaðarþvottavél og þurrkara, geymslu fyrir lín og öðru sem þarf til reksturs gistihúsa.
Hægt er að taka við rekstrinum frá og með 1. júní 2025. Tilboð óskast í eignina.
Nánari upplýsingar á: fasteignavef mbl.is
Suðurlandið hefur löngum verið einn vinsælasti landshluti fyrir ferðamenn að heimsækja. Þar eru ófáar náttúruperlurnar og mikil ferðaþjónusta er á svæðinu sem heldur utan um spennandi afþreyingu fyrir ferðamenn.
Á heimasíðu Iceland Cottages er m.a. bent á kajakferðir, sund á Selfossi, golf, en mikið er um skemmtilega golfvelli steinsnar frá eins og í Hveragerði eða Öndverðarnesi, og reiðhjólaferðir.