Í miðri „bílahöfuðborg heimsins“ er kyrrlát, ökutækjalaus eyja þar sem búsettir eru 600 manns árið um kring og 600 hestar. Þetta er í Detroit í Bandaríkjunum þar sem fyrirtæki eins og Ford, General Motors og Chrysler eiga uppruna sinn.
Mackinac-eyja er við norðurströndina, á Huron-vatni, og hefur lokkað til sín ferðamenn í áraraðir. Hún er 3,8 ferkílómetrar og um hana liggur eini hluti þjóðvegarins þar sem bílaumferð er bönnuð.
Þegar fyrstu bílarnir voru framleiddir 1898 og hræddu hesta í nágrenninu bönnuðu yfirvöld í þorpinu ökutæki, bann sem tveimur árum síðar náði um alla eyjuna.
Meira en öld síðar eru þar einungis hestar notaðir sem farartæki, árið um kring. Á sumrin eru um 1,2 milljónir ferðamanna sem flykkjast í ferju í Mackinaw-borg og sigla þaðan í um 20 mínútur til eyjarinnar. Ferjan leggur að í þorpinu á suðurodda eyjunnar.
„Hestar eru nýttir til allt frá sorphirðu til FedEx-sendinga,“ segir smásalinn Morse sem búsettur hefur verið í þorpinu frá 1990.
Seint á 19. öld var Mackinac-eyja orðin leikvöllur auðugra fjölskyldna frá Chicago, Detroit og öðrum hlutum Miðvesturríkjanna, sem flykktust til eyjunnar á sumrin til að slaka á og fá sér sundsprett í óspilltu vatninu.
Hið 138 ára gamla Grand hótel á Mackinac-eyju er með sérinnréttuð herbergi og segist vera með lengstu verönd í heimi. Hótelið er eitt af síðustu fullvirku hótelunum frá iðnaðaröld Ameríku. Slíkt er aðdráttaraflið að Gretchen Whitmer, ríkisstjóri Michigan, kynnti eyjuna sem stað fyrir fjórðu þáttaröð The White Lotus.
Morse segir hins vegar að þrátt fyrir fegurð eyjunnar séu íbúar hennar tregir við að gera hana að of vinsælum ferðamannastað.
Um 80% eyjunnar tilheyrir Mackinac Island-þjóðgarðinum og þar geta gestir rölt um gamalt skóglendi, hjólað eða leigt hestvagn til að skoða hinn 15 metra breiða Arch Rock.
Fyrir utan hesta eru um 1.500 reiðhjól til leigu á eyjunni og hægt er að fara í skemmtilegan hjólatúr á göngu- og hjólavegi umhverfis eyjuna með útsýni út á átta kílómetra langa Mackinac-hengibrúna, skóglendi og steiniþaktar strendur.