Mosskógar í Mosfellsdal er besta tjaldsvæðið á Íslandi samkvæmt stærstu upplýsinga- og bókunargátt tjaldsvæða í Evrópu, Camping.info. Könnunin byggir á yfir 230.000 endurgjöfum frá yfir 150.000 tjaldgestum í Evrópu.
Camping.info skoðaði einnig verð á gistinótt fyrir tvo á tjaldsvæðum víðs vegar um Evrópu, með tjaldstæði, hjólhýsi, rafmagni og staðbundnum skatti, og setti upp meðalverð á gistinóttina í alls 34 löndum.
Meðalverð á nóttina á tjaldsvæði hérlendis eru 24,81 evra eða um 3.700 kr. á núverandi gengi. Í tilkynningu frá Camping.info kemur fram að verð á tjaldsvæði hérlendis er frekar í neðri kantinum miðað við 33 önnur lönd í Evrópu, þar sem Ítalía trónir á toppnum með 40,4 evrur á nóttina og Albanía er ódýrast með 14,18 evrur á nóttina.
Frá síðasta ári hefur gistinótt á tjaldsvæðum í Evrópu hækkað að meðaltali um 4,75%, en gistinóttin á Ísland hækkaði á sama tíma um 7,96%. Mest var hækkunin í Slóvakíu en þar hækkaði gistinóttin um 13,20% en eina landið með enga hækkun er Eistland.
Á vefnum tjalda.is kemur fram að tjaldsvæðið Mosskógar er fjölskyldurekið en á svæðinu er einnig garðyrkjustöð. Umhverfið er gróið og skjólsælt og aðeins í um 17 kílómetra fjarlægð frá miðbæ Reykjavíkur. Þar er góð aðstaða fyrir tjöld, fellihýsi, hjólhýsi og húsbíla. Hægt er að setjast inn í gróðurhúsið, elda þar og borða.
Þar er yfirbyggð aðstaða fyrir allt að 60 manna hópa og grænmetismarkaður sem opinn er frá júlí fram á haust.
Mikið er um afþreyingu í Mosfellsdal en þar er m.a. golfvöllurinn í Bakkakoti, hestaleiga í Laxnesi og húsdýragarður á Hraðastöðum. Þá er vissulega stutt í sund og verslanir inn í Mosfellsbæ.