Mörgum brá í brún í morgun, rétt einu sinni, þegar þeir litu út um gluggann og sáu snjókomuna, en mikill éljagangur ríkir nú á sunnan- og vestanverðu landinu.
Sumir hafa án efa þurft að fletta upp í dagatalinu til að staðfesta að það sé í raun og veru kominn maí, en veðráttan á Íslandi er, eins og við vitum, algjör prakkari og ófeimin við að gera landsmönnum grikk, líkt og í dag.
Ferðabloggari sem kallar sig Iceland Station á TikTok birti skemmtilegt myndskeið á samfélagsmiðlasíðunni í morgun, en í því sýnir hann snjómagnið í Njarðvík, en þar hefur kyngt niður snjó í allan dag.
Eins og sést í myndskeiðinu þá eru göturnar allar snævi þaktar og komnar kjöraðstæður til að búa til eins og einn snjókarl, jafnvel hjörð af snjókörlum, eða hóa vinina saman í snjóboltaslag.
Já, veturkonungur virðist alltaf sigra sólina á Íslandi!
Myndskeiðið hefur vakið mikla athygli á TikTok, en þegar þetta er skrifað hafa hátt í 12 þúsund manns skoðað það.