Í gær fór fram heldur nýstárleg kynjaveisla í 30.000 feta hæð þegar farþegar PLAY á leið til Parísar urðu vitni að einstakri stund yfir miðju Norður-Atlantshafi. Þar fengu Katrín María Blöndal og Anton Örn Hilmarsson að vita kyn fyrsta barnsins síns saman – hún á tvo drengi fyrir og hann eina stelpu.
Þau ákváðu að halda þessa veislu um borð í flugvélinni þar sem Anton Örn er mikill flugáhugamaður og fannst þeim það vera töfrandi hugmynd að upplifa augnablikið í háloftunum. Allir farþegar tóku þátt í leik með bleikum og bláum spjöldum áður en Katrín María og Anton Örn skáru í köku og fengu staðfest að drengur væri á leiðinni.
Við tóku fagnaðarlæti, bláar skreytingar fóru á loft, smákökur voru borðaðar og parið fékk glaðning frá PLAY: samfellu og sólhatt fyrir barnið, flugvélamódel, bangsa og gjafabréf – fullkomið fyrir fyrstu utanlandsferð fjölskyldunnar.
Parið var í skýjunum að fá svona veglegan viðburð og lýsti yfir mikilli ánægju með upplifunina. Þetta var í senn hjartnæmt og eftirminnilegt augnablik sem enginn um borð gleymir – og mögulega ein fyrsta kynjaveisla heimsins sem fer fram í háloftunum.