Ef þig hefur einhvern tímann dreymt um að rölta um litríkar götur við Miðjarðarhafið, borða góða sjávarrétti á fjölskyldureknum veitingastað þar sem enginn talar ensku og vera á ströndinni allan daginn, þá gæti Camogli verið staðurinn fyrir þig.
Camogli á Ítalíu er fyrir þá sem leita að friðsælum og fallegum stað þar sem lítið er af túristum. Camogli er lítið sjávarþorp við Ligúríaströndina á Ítalíu og er bærinn í 30 mínútna fjarlægð frá borginni Genóa.
Camogli er staðsettur á Golfo di Paradiso eða Paradísarflóa. Flestir sem heimsækja Paradísarflóann fara til Cinque Terre eða Portofino sem eru með vinsælustu stöðum í heimi. Camogli er hins vegar enn þá frekar falin perla þar sem heimamenn fara oft í frí.
Þorpið er þekkt fyrir litrík hús, rólegt andrúmsloft og fallegar strendur. Auðvelt er að komast til Camogli og er best að fljúga til Genóa sem er aðeins 26 kílómetra frá þorpinu. Lestin frá Genóa tekur um 20 mínútur en einnig er hægt að sigla að sumri til frá Portofino eða Santa Margherita Ligure sem eru í nágrenni við Camogli.
Einnig er hægt að fljúga til Mílanó eða Rómar og taka lest þaðan til Camogli eða leigja bíl og ferðast um strandir Ítalíu.
Sagt er að nafn bæjarins komi frá Ca' Moglie en það orð merkir ‚fyrir eiginkonurnar‘. Talið er að bærinn hafi hlotið nafn sitt frá eiginkonunum sem biðu eftir að eiginmenn þeirra kæmu til baka úr löngum sjóferðum.
Camogli hefur lengi verið þekktur sem blómlegt sjávarpláss en á miðöldum voru hundruð seglskipa í höfninni sem gaf Camogli viðurnefnið „Borg þúsund hvítra segla.“
Seint á 18. öld notaði Napóleon Camogli sem bækistöð fyrir hluta af flota sínum áður en hann var sigraður í orrustunni við Níl.
Camogli minnir helst á málverk þar sem mikil litadýrð einkennir bæinn. Litirnir rauður, sinnepsgulur og bleikur einkenna húsin og speglast litirnir í hafinu. Í þorpinu er fjöldinn allur af litlum og krúttlegum búðum sem selja alls kyns vörur.
Ligúría er þekkt fyrir pestó og foccacia og er Camogli með fjölbreytt úrval veitingastaða. Foccacia var fundið upp í bænum Recco sem er við hliðina á Camogli. Heimamenn eru því mjög kröfuharðir þegar kemur að því að bjóða fólki foccacia.
Bakaríið Focacceria Revello er gríðarlega vinsælt og býður bakaríið upp á eitt besta foccacia á Ítalíu. Það er því nauðsynlegt að koma þar við og gæða sér á nýbökuðu foccacia brauði.
Hægt er að ganga yfir til San Fruttuoso sem er eins konar vík þar sem stór klettur stendur við sjóinn ásamt dularfullri styttu sem hvílir á sjávarbotninum og kallast „Kristur hafsins.“ Þessi falda perla er aðeins aðgengileg fótgangandi eða með bát. Klaustrið við San Fruttuoso, sem er falið í afskekktri vík, var byggt árið 984 og er nú safn sem gaman er að heimsækja.
Göngufólk getur gengið að klaustrinu um gönguleið hins fagra Portofino-garðs en garðurinn er verndað náttúrusvæði. Gönguleiðin byrjar í Camogli og tekur gangan um þrjár klukkustundir. Frá San Fruttuoso er hægt að taka bát aftur til Camogli eða fara til Portofino og Santa Marherita Ligure.