Íslenska flugfélagið Icelandair og byggingavöruverslunin Byko hafa hafið Vildarpunktasamstarf og nú geta viðskiptavinir Byko safnað Vildarpunktum Icelandair. Byko hefur stofnað fríðindaklúbbinn Byko Plús fyrir einstaklinga sem vilja fá aukinn ávinning af sínum viðskiptum við byggingavöruverslunina. Félagar klúbbsins safna punktum, sem eru kallaðir Byko-krónur, sem hægt er að umbreyta í Vildarpunkta Icelandair eða inneign í Byko. Ásamt því fá félagar í Byko Plús ýmis sértilboð og fríðindi.
Byko bætist með þessu í hóp samstarfsaðila Icelandair Saga Club en eftir sem áður er hægt að safna Vildarpunktum með notkun greiðslukorta sem tengd eru Icelandair og hjá öðrum samstarfsaðilum.
„Vildarkerfi Icelandair, Icelandair Saga Club er stærsti vildarklúbbur á landinu og það er mjög ánægjulegt að hefja samstarf við Byko og fjölga þeim stöðum þar sem viðskiptavinir geta safnað Vildarpunktum. Samstarfið er sérstaklega við hæfi þar sem nú er hægt að safna Vildarpunktum fyrir sumarverkin eða framkvæmdir heima fyrir og komast þannig í langþráð frí að verki loknu,“ segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair.
„Í Byko erum við með skýrt markmið um að veita viðskiptavinum okkar bestu heildarupplifunina í framkvæmdum og fegrun heimilisins. Með Byko Plús og samstarfinu við Icelandair erum við að taka þetta lengra og veita ekki bara sértilboð heldur einnig möguleika á að verðlauna þig að verkefni loknu með draumaferðinni hjá Icelandair,“ segir Bragi Þór Antoníusson, framkvæmdastjóri markaðs- og vörustjórnunarsviðs Byko.
Fyrir hverjar 25.000 krónur sem verslað er fyrir í BYKO safnast 1.500 Byko krónur sem hægt er að umbreyta í 1.500 Vildarpunkta Icelandair eða 1.500 kr. inneign í Byko. Saga Club félagar geta notað Vildarpunktana sína með margvíslegum hætti: til að greiða fyrir flug, gistingu, bílaleigubíl, upplifanir, veitingar, gjafakort og vöru og þjónustu af ýmsu tagi. Einnig er hægt að nota Vildarpunkta til þess að kaupa þráðlaust net um borð eða uppfærslu á milli farrýma.