Ameríski ferðaáhrifavaldurinn Emily Hodge kom með fjölskyldu sína til landsins fyrr í sumar og ferðuðust þau í um fjölmarga staði í eina viku í húsbíl. Þau voru fjögur á ferð en hún sagði son sinn ekki hafa heillast af landinu.
„Dró Nintendo-elskandi strákinn á ótrúlegustu staði Íslands. Hann varð ekki hrifinn, hefði frekar viljað vera í tölvunni,“ skrifaði Hodge við myndskeið sem hún deildi á Instagram.
Viðbrögðin stóðu ekki á sér og fékk Hodge hundruð athugasemda um það sem hún hefði átt að gera. Margir voru á því að hún hefði átt að skilja drenginn eftir heima.
Í næsta myndskeiði útskýrði hún þetta aðeins betur.
„Á síðasta ári varð hann eftir heima. En svo fannst mér Ísland of draumkennt til að deila því ekki. Svo ég dró hann með þótt ég vissi að hann væri meira fyrir heima og hlýju. Hann var ekki hrifinn af fallegustu stöðum heims en við breyttum því í fyndið myndskeið sem fór eins og eldur um sinu um allt Internetið.
En þetta er málið. Þroski er alls konar. Stundum kemur hann fram með fýlusvip í andlitinu hjá barni sem saknar þægindanna heima við þegar fjögurra manna fjölskyldu er troðið í lítinn húsbíl án baðherbergis í heila viku.
„En ég trúi á að ýta börnunum mínum út fyrir þægindarammann sinn. Að gefa þeim upplifanir sem þau kunna ekki að meta enn þá. Hann hefur gengið á fjöll og staðið á toppi rúmlega fjögur þúsund metra hárra fjalla þegar ég veit að hann væri frekar til í að vera á sófanum að spila Nintendo,“ skrifar hún.
Hún segir son sinn ekki vera ævintýragjarnan og það sé í lagi.
„Hann er fyndinn, klár og mjög elskaður eins og hann er. Leyfum börnunum að vera eins og þau eru.“