Hróarskelduhátíðin, eða Roskilde festival eins og heimamenn kalla hana, hófst um helgina. Tónleikahald hefst þó ekki af alvöru fyrr en á miðvikudaginn og því margir sem mæta á svæðið þá.
Hvort sem fólk gistir í viku eða þrjá daga er mikilvægt að vera við öllu búinn á hátíðinni þar sem gist er í tjaldi og búast má við öllu veðri og vindum. Blaðamaður hefur tekið saman nokkrar nauðsynjar sem gera dvölina í Hróarskeldu auðveldari og skemmtilegri.
Blautklútar eru lykilatriði. Blaðamaður lifir eftir þeirri lífsreglu að fara aldrei að sofa með farða. Þegar maður staulast inn í tjald eftir langan dag (og nótt) er því alger lífsbjörg að geta strokið af sér farðann með blautklút. Auk þess eru klútarnir nytsamlegir til að viðhalda lágmarkshreinlæti.
Vatnsheld föt eru nauðsyn hvernig sem spáin er. Það er aldrei að vita hvernig viðrar og allur er varinn góður. Það er betra að vera með ósnertan regnjakka ofan í tösku en að vera holdvotur. Ekki má gleyma regnbuxum líka. Það skiptir engu máli að vera þurr að ofan ef maður er blautur á rassinum.
Það getur verið sniðugt að koma með útilegustól. Það er huggulegt ef maður situr á tjaldsvæðinu að þurfa ekki að sitja á jörðinni. Þeir eiga það hins vegar til að týnast.
Ef New York er borgin sem aldrei sefur þá veit ég ekki hvað Hróarskelda er. Þar er aldrei svefnfriður, það er alltaf einhver sem vill halda fjörinu áfram. Margir gætu haldið að þeir verði sjálfir þeir sem þurfa engan svefn en á einhverjum tímapunkti þurfa allir að sofa og þá er nauðsynlegt að geta kæft lætin. Svefngríma getur einnig verið hentug hér.
Þó allir séu vinir og fælleskab sé alltumlykjandi á Hróarskeldu þá stundar fólk það að stela bjór úr tjöldum. Þetta virðist vera eins konar hringrásahagkerfi þar sem bjór er stolið af öllum og allir stela bjór. Ef maður hefur ekki áhuga á að taka þátt í slíku hagkerfi er sniðugt að koma með talnalás (hér er talnalás mikilvægur af því það er ekki séns að komast hjá því að týna lykli) sem hægt er að henga á rennilás tjaldsins.
Ef aleigan á ekki að fara í matarkaup á hátíðinni er nauðsynlegt að koma með eitthvað matarkyns sjálfur. Þar er ekki sama hvað komið er með. Mikilvægast er auðvitað að maturinn endist í steikjandi heitu og/eða blautu tjaldi. Einhverjir hafa lifað af túnfisk í dós alla vikuna og aðrir komið með harðfisk (blaðamaður getur þó ekki mælt með því þar sem hún var nær rekin úr tjaldinu fyrir að koma með slíkt og harðfisknum meinaður aðgangur inn í tjaldið). Konungur fæðunnar á Hróarskeldu eru pakkanúðlur. Það er fátt betra en að vakna þreyttur, svangur og sjúskaður og fá sér rjúkandi heitar núðlur í morgunmat.
Taska sem auðvelt er að vera með á sér. Hún þarf að rúma síma, drykk, blautklúta og aðrar nauðsynjar. Það er mjög leiðinlegt að þurfa alltaf að halda á einhverju.
Besta ráðið sem blaðamaður getur gefið ferðalöngum sem leggja leið sína á Hróarskeldu er að deila staðsetningu sinni með vinum sínum, vera með fólki í tjaldi sem maður þolir og sætta sig við að maður verður smá ljótur, en það eru það allir.