Eitt af því sem ég elska er að ferðast um landið með börnunum mínum. Ó, fagra Ísland. Við höfum þó einungis dvalið á Vesturlandi, Vestfjörðum, aðeins á Suðurlandi og mikið fyrir norðan, líkt og dregin hafi verið lína frá norðausturhluta landsins og niður í suðausturhluta þess og við haldið okkur vestan megin hennar … Engar áhyggjur, „sunny“ Austfirðir eru á planinu í sumar.
Regla númer eitt á ferðum mínum um landið er að keyra aldrei meira en þrjár klukkustundir í einu, með fjöldann allan af sjoppustoppum. Ég þarf að hafa mig alla við til að halda athyglinni, skíthrædd við að keyra þjóðveginn eftir að ég átti börnin, enda mikið af „fX*%&$“ í umferðinni.
Fréttirnar glymja í útvarpinu þegar við erum að koma inn á Snæfellsnesið – þá erum við búin að hlusta tíu sinnum á lagið Róa með VÆB og ferðalagið rétt að byrja. Eins og alla aðra daga, í öllum fréttatímum, er minnst á Donald Trump og krefst dóttir mín skýringa á hver þessi valdamikli maður sé sem virðist gera fátt annað en að stuða heiminn.
„Er Donald Trump forseti Bandaríkjanna?“
„Dóna-Tröll?“ heyrist í syni mínum.
„Nei, Donald Trump,“ segir dóttir mín.
„Hver er Dóna-Tröll,“ endurtekur strákurinn. „Er hann forseti New York?“
Jú, hann er óttalegt dónatröll, hugsa ég með mér.
Fyrstu nóttina dveljum við í bændagistingu við Grundarfjörð. Seinnipartinn göngum við upp að Kvernárfossi, sem er bæði ævintýraleg og skemmtileg ganga fyrir móður og börn. Eftir það er förinni heitið í sundlaugina á Grundarfirði, laug sem lætur ekki mikið yfir sér en er engu að síður skemmtileg.
Daginn eftir er haldið til Stykkishólms, þaðan sem við tökum ferjuna Baldur yfir til Brjánslækjar. Þegar yfir er komið signi ég mig í bílnum því að það fylgir því alltaf einhver ótti að fara með börnin í bátsferð.
Það er líka mikið spjallað og margar spurningar sem vakna þegar börnin horfa á fegurðina þarna á sunnanverðum Vestfjörðum út um bílgluggann og eitthvað hlýtur bátsferðin yfir Breiðafjörðinn að hafa haft áhrif á dóttur mína.
„Mamma, hvort viltu vera kúkur eða hafmeyja?“
„Uh, kúkur eða hafmeyja?“ Ég þarf að hugsa mig um á meðan ég bíð færis að taka fram úr bifreið sem keyrir á sextíu.
„Hafmeyja,“ svara ég eftir nokkra umhugsun.
„Ég líka,“ svarar dóttir mín glöð í bragði.
Næsta stopp; Ísafjörður. Ég á ættir að rekja til Ísafjarðar og það svífur yfir mig svo mikil ró þegar ég kem þangað. Fyrst er förinni heitið á skjalasafn bæjarins, vegna heimildaöflunar fyrir nýjustu bókina mína – sem ég veit ekki hvenær ég næ að klára. Safnið er í byggingu gamla sjúkrahússins, teiknaðri af arkitekt Íslands, Guðjóni Samúelssyni.
Við hliðina á skjalasafninu er „skemmtilegasti hoppubelgur landsins“ að mati barnanna og hafa þeir ófáir verið prófaðir. Á meðan þau nýta alla orkuna sem þau söfnuðu í báts- og bílferðinni þá stend ég og dáist að gömlu sjúkrahúsbyggingunni.
Ísfirðingar yrðu seint jafn vitlausir og stjórnendur Reykjavíkurborgar, þ.e. þeim myndi örugglega aldrei detta í hug að planta nýju spítalahúsi á lóðinni og skyggja þannig á gömlu bygginguna, líkt og gert var við fallegu spítalabygginguna hans Guðjóns við Hringbraut.
Við erum svakalega heppin með veður og göngum út og suður um bæinn. Það líður að kvöldi og er förinni heitið á Tjöruhúsið, í fiskisúpu og hlaðborð. Þeir vita, sem hafa prófað, hvað þetta er gott.
Daginn eftir keyrum við sömu leið suður og stoppum við Dynjanda. Ekki í fyrsta skipti sem ég geng upp að fossinum og vonandi ekki það síðasta. Hvílíkur kraftur! Það er eins og þyrmi yfir mann af orkunni frá náttúrunni, að því marki að engin orð fá því lýst.
Síðustu nóttina gistum við í æðislegri bændagistingu við Reykhóla, ásamt fjölskyldu frá Kína. Það er svo skemmtilegt að fylgjast með kínversku stúlkunni, sem er á aldur við dóttur mína, leika við börnin mín, þau fara í feluleik og alls konar leiki og tala saman á táknmáli.
Morguninn eftir geri ég nokkrar jógaæfingar í sólinni úti á túni, í návist barnanna minna og tveggja grísa sem þau sóttu í húsin. Á leið í bæinn stoppum við í Króksfjarðarnesi og aftur á Erpsstöðum í Dölunum, í bongóblíðu og lúsmýi, þar sem er hoppubelgur, húsdýr og heimagerður ís. Gerist ekki betra.
Á leið í bæinn dettur allt í dúnalogn. Þau sofna bæði í bílnum. Skyndilega fá hugsanir mínar rými og ég þarf ekki að svara því hve stórt svartholið er. Í stað þess að gera gáfuleg plön í huganum, eins og allar mæður gera undir öllum kringumstæðum, verður mér aftur hugsað til spurningarinnar um hafmeyjuna og kúkinn. Á brúnni á leið frá Borgarnesi kemst ég að þeirri niðurstöðu að kannski skiptir ekki máli hvort ég vilji vera, þetta tvennt endar hvort sem er í sjónum.