Leikkonan Sofia Vergara og íþróttafréttamaðurinn Tom Brady njóta þess að vera á lausu – í sameiningu. Brady, sem er fyrrverandi atvinnumaður NFL-deildarinnar, og Vergara, sem er hvað þekktust fyrir hlutverk sitt í þáttaröðinni Modern Family, hafa sést saman í sólarparadísinni Íbiza, á Spáni, og lýsir heimildarmaður Page Six samveru þeirra sem „sumarrómantík“.
Það byrjaði fyrir viku síðan á lúxussnekkjunni Luminara – úr línu Ritz Carlton Yacht Collection – þar sem saman voru komnir ríkir og frægir á borð við Mörthu Stewart, Naomi Campbell, Kendall Jenner, Kate Hudson, Colman Domingo, Vergara og Brady og fleiri.
Við galakvöldverðinn um borð í snekkjunni bað Brady, sem er 47 ára, sessunaut sinn um að skipta við sig um sæti svo hann gæti setið við hlið Vergara, 53 ára. Þau munu hafa haldið áfram að hafa það gott saman á Íbiza eftir snekkjuferðina.
Vergara var gift leikstjóranum og leikaranum Joe Mananiello í tíu ár en þau skildu 2023. Hún á einn son úr fyrsta hjónabandinu sínu, með æskuástinni Joe Gonzalez. Brady var giftur ofurfyrirsætunni Gisele Bündchen árin 2009-2022 og á með henni tvö börn. Hann hefur síðan þá verið orðaður við leikkonuna Töru Reid.