Þrátt fyrir grátt og vætusamt veður undanfarið, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, er sumar á Íslandi og margir á leið út úr bænum í útilegu. Blaðamaður ferðavefs mbl.is fór yfir veðurspána og kannaði hvar best væri að tjalda um helgina.
Samkvæmt spánni er Austurland sigurvegari helgarinnar og mun bjóða upp á mestu sólina. Við erum að tala um allt að tuttugu stiga hita og glampandi sól, fullkomið fyrir góða útilegu!
Austurland hefur upp á margt að bjóða fyrir alla aldurshópa. Hægt er að fara í gönguferðir, spila golf, skella sér í sund og njóta fjölbreyttrar afþreyingar. Þar sem svæðið er stórt og möguleikarnir margir hef ég útbúið hina fullkomnu dagskrá að mínu mati:
Best væri að taka sér frí úr vinnu og leggja snemma af stað, þar sem keyrslan er löng frá höfuðborgarsvæðinu. Njótið þess að keyra í góðum sumargír. Ef allt gengur vel ættuð þið að vera komin á tjaldsvæðið á Egilsstöðum um sexleytið.
Tjaldsvæðið er staðsett miðsvæðis í bænum, undir klettunum við Kaupvang, stutt frá verslunum og þjónustu. Á svæðinu er rafmagn, leiktæki fyrir börnin, snyrtingar með aðgengi fyrir fatlaða, þvottavélar, þurrkarar, sturtur og salerni.
Eftir að hafa komið sér fyrir er tilvalið að rölta yfir á veitingastaðinn Ask og fá sér gómsæta pizzu með svalandi drykk í sumarhitanum.
Í dag er spáð 22 stiga hita og sól, svo ég ætla að nýta daginn vel! Ég vakna snemma og byrja á stuttum golfhring á vellinum á Ekkjufelli. Eftir níu góðar holur liggur leiðin í Vök-böðin. Ég byrja á að fá mér hádegismat á Vök Bistro og fer síðan í böðin þar sem ég hyggst njóta sólarinnar og útsýnisins eins lengi og mögulegt er. Kannski fær maður sér einn svalandi drykk á meðan. Um fjögurleytið er tími til að snúa aftur á tjaldsvæðið.
Fyrir þá sem ekki spila golf er tilvalið að fara í göngutúr um Egilsstaði, setjast á kaffihús og njóta dagsins á rólegri nótum.
Kvöldið fer í að kveikja á útilegugrillinu til að grilla hamborgara og kartöflubátana. Að sjálfsögðu enda ég kvöldið á grilluðum sykurpúðum og notalegri samveru í kvöldsólinni.
Það er enn spáð tuttugu stiga hita og sól, svo það kemur ekki til greina að eyða deginum í löngum akstri. Morguninn byrjar rólega á að pakka saman dótinu og halda af stað í áttina að Akureyri. Þar ætla ég að njóta dagsins aðeins lengur, t.d. með heimsókn í Skógarböðin þar sem hægt er að slaka vel á og fá sér svalandi drykk.
Eftir góða sundferð og mögulega smá roða í kinnum enda ég daginn með stoppi á Brynju þar sem ísinn er ómissandi áður en haldið er aftur heim á höfuðborgarsvæðið.
Ég veit ekki með ykkur, en ég ætla austur á land um helgina að gera nákvæmlega þetta. Vonandi sé ég sem flesta njóta góða veðursins meðan það varir!