Á Austurlandi er enginn skortur á fallegum, hlýlegum og vel búnum gististöðum og ættu því allir sem ætla sér að renna austur og njóta bjartra og langra sumardaga fjarri skarkala heimsins að finna eitthvað við sitt hæfi.
Hér eru skemmtilegir gististaðir á Austurlandi sem finna má á vefsíðunni Airbnb.
Við Seyðisfjörð er að finna lítinn sætan kofa sem stendur við miðjan fjörðinn. Kofinn, sem ber heitið Sæberg, er einhverjum kunnur, en í honum var starfræktur skóli hér fyrr á tíð. Í dag er Sæberg vinsæll gististaður en kofinn hefur fengið allsherjaryfirhalningu og býður upp á þægilega aðstöðu fyrir þá sem gista þar. Þakið á kofanum er eldrautt á litinn, sem gerir dvalargestum auðvelt að koma auga á hann.
Á Eskifirði stendur 130 ára gamalt hús sem áhugasömum býðst að leigja fyrir sanngjarnt verð. Húsið hefur haldið í gamla sjarmann, en að stíga inn í Ás er eins og að stíga inn í gamla tímann, sem gerir gististaðinn enn meira heillandi. Á sólskinsdegi er hægt að tylla sér út á pall með kaffibolla og virða fyrir sér fegurð Eskifjarðar.
Reyðarfjörður er lengstur og breiðastur Austfjarðanna, alls 30 km langur, og hefur upp á margt skemmtilegt að bjóða. Þeir sem hyggjast ferðast til Reyðarfjarðar ættu virkilega að kynna sér þessa fimm stjörnu glæsiíbúð sem hefur verið vinsæll valkostur á meðal notenda Airbnb, enda rúmgóð, björt, hlýleg og útbúin öllu því helsta.
Á Fáskrúðsfirði er að finna krúttlegasta hús landsins þar sem gott er að slappa af og horfa út á hafið. Gistirýmið er afar heimilislegt og skemmtilega innréttað með fallegum steinveggjum og litríkum húsgögnum.
Í Mjóafirði stendur einstaklega fallegt myntugrænt hús með stórum palli þar sem auðvelt er að eyða fallegum sumarkvöldum með einn kaldan í hendi. Í húsinu eru þrjú svefnherbergi, tvö baðherbergi og bara allt sem fjölskyldan og/eða vinahópurinn þarf til þess að njóta lífsins til hins ýtrasta. Húsið stendur við sjóinn og geta dvalargestir átt von á skemmtilegri heimsókn frá sætum selum sem sjást reglulega slappa af í fjörunni.