Lífið leikur við ferðalanga á Norðurlandi og þar er hægt að finna afþreyingu fyrir alla fjölskylduna. Hér er að finna nokkrar tillögur en hægt væri að skrifa heila bók um það
sem í boði er.
Marokkóskt þema veitingastaðarins Sigluness á Siglufirði svíkur enga gesti. Meistarakokkurinn Jaouad Hbib töfrar fram rétti sem gæla við bragðlaukana. Það er frábær dægrastytting fyrir fjölskylduna að fara í Brynjuís og rölta svo um garðinn og njóta fegurðar plantna og blóma á meðan ísinn er borðaður.
Ein skemmtilegasta perla Norðurlands er Hrísey í Eyjafirði. Í eynni er margt hægt að skoða og ýmis afþreying í boði, t.a.m. Gallerí Perlu handverkshús, Hríseyjarbúðina, fara í sund, fyrir utan hvað umhverfið er fallegt. Hríseyjarferjan Sævar fer daglega frá Árskógssandi og farið er ókeypis.
Bæjarlífið á Siglufirði er ansi fjölbreytt og skemmtilegt en bærinn státar af fjölda viðburða í sumar og má þar nefna Þjóðlagahátíð fyrstu vikuna í júlí, Síldarævintýrið um verslunarmannahelgina og Alþjóðlega myndasöguhátíð, þá einu hérlendis, sem fram fer helgina 15.-17. ágúst. Svo má ekki gleyma Síldarminjasafninu og hinu rómaða Síldarkaffi.
Barnafólk athugið! Á leiðinni norður er ekki spurning um að stoppa á Blönduósi. Steinsnar frá sundlauginni, á skólalóðinni, er skemmtilegur leikvöllur og ærslabelgur fyrir krakka sem þurfa útrás eftir langa bílferð. Fjölskyldan getur svo kíkt í sundlaugina þar sem hægt er að fá sér uppáhellt kaffi á meðan börnin renna sér í rennibrautunum.
Náttúruunnendur geta vel fundið sig í Ásbyrgi sem tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði. Umhverfið er engu líkt og í skeifulaga kvosinni er stórt tjaldsvæði ásamt þjónustu. Í Ásbyrgi er einnig Gljúfrastofa, gestastofa Jökulsárgljúfra, og á svæðinu má finna fjölda gönguleiða. Frá Húsavík til Ásbyrgis er um 45 mínútna akstur.
Spákonuhof á Skagaströnd er sýning um Þórdísi spákonu sem var uppi á síðari hluta 10. aldar. Í Spákonuhofi er einnig kaffihús og handverksbúð og geta gestir látið spá fyrir sér.
Í Fljótunum í Skagafirði er að finna dýragarðinn á Brúnastöðum, þar er að finna öll íslensku húsdýrin og leiktæki fyrir börnin. Frá og með 20. júní er opið alla daga frá kl. 13-18.
Lystigarðurinn á Akureyri, grasa- og skrúðgarður er opinn frá 1. júní til 30. september.