Skíðagöngunámskeið aldrei vinsælli 

Ásóknin í íþróttina hefur margfaldast á undanförnum misserum.
Ásóknin í íþróttina hefur margfaldast á undanförnum misserum. Mynd/Skíðagöngufélagið Ullur

Segja mætti að sprenging hafi orðið í gönguskíðaíþróttinni hér á Íslandi á undanförnum misserum og víða farið að leggja brautir á höfuðborgarsvæðinu. Að sögn Einars Ólafssonar, arkítekts og eins af aðstandendum Skíðagöngufélagsins Ulls, er ásóknin sífellt að aukast og má til að mynda ætla að allt að 2-300 manns hafi lagt leið sína á gönguskíði í Heiðmörk um liðna helgi.

Einar Ólafsson er öllum hnútum kunnugur þegar kemur að skíðagönguíþróttinni.
Einar Ólafsson er öllum hnútum kunnugur þegar kemur að skíðagönguíþróttinni. Mynd/Aðsend

Hvað það er sem valdi því að íþróttin njóti vaxandi vinsælda telur Einar að fólk sé almennt farið að hreyfa sig meira en áður. „Það er meira norm í dag að hreyfa sig en til dæmis fyrir 10-15 árum og að auki er fólk meðvitaðra um heilsu sína en áður. Síðan hafa komið upp svona „trend“ í íþróttum. Fyrir nokkrum árum voru margir í boot camp, svo kom crossfit, í kjölfarið kom hjólamenningin og þríþrautin. Hjólabólan myndi ég segja að hafi í raun verið fyrsta alvöruíþróttabólan og með þessu fylgdi að fólk var orðið vant að stunda ýmiss konar íþróttir. Fyrir nokkrum árum var svo komið á fót mjög skemmtilegu formi af  fjórþraut, svokallaðri Landvætt. en þar er keppt í hjólreiðum, hlaupi, sundi og á gönguskíðum í Fossavatnsgöngunni á Ísafirði,“ segir Einar og bætir við að þeir sem hafi tekið þátt í fjórþrautinni hafi þurft að tileinka sér skíðagönguna og fara á námskeið því ákveðin tímamörk séu í göngunni. „Þú þarft sem sagt að ná ákveðnum tíma innan 35 km af 50 km. Ef þú nærð því ekki þá er þér bara kippt út og færð ekki að klára.“

Ekki ljúga til um þyngd 

Víða um land er hægt að fara á námskeið í skíðagöngu og má þá helst minnast á þau sem haldin er á Ísafirði og Akureyri og jú að sjálfsögðu hjá Skíðagöngufélaginu Ulli sem staðsett er í Bláfjöllum. Að sögn Einars eru helstu undirstöðuatriði íþróttarinnar kennd á námskeiðunum eins og til að mynda að ganga hefðbundna göngu, ýta sér og síðan en ekki síst að detta rétt. „Svo kennum við fólki að renna sér niður brekku og förum aðeins í að kenna fólk að smyrja undir skíðin auk þess að fara yfir þann búnað sem nauðsynlegt er að fólk hafi.“

Skíðagönguíþróttin er fyrir alla. Hér eru þeir feðgarnir Andri, Askur …
Skíðagönguíþróttin er fyrir alla. Hér eru þeir feðgarnir Andri, Askur og Ás saman komnir á skíði. Mynd/Skíðagöngufélagið Ullur

Einar segir grunnbúnaðinn að sjálfsögðu vera skíðin sjálf, skó og stafi og að mikilvægt sé að hafa í huga að fá réttar ráðleggingar varðandi skíðin. „Verslanir í dag eru miklu betri í að ráðleggja fólki varðandi skíðagöngubúnað en fyrir nokkrum árum. Það er mikilvægt að fólk fái réttu skíðin sem henta þyngd hvers og eins, þetta er því hvorki staður né stund til að ljúga um þyngdina því það kemur niður á manni úti í braut,“ segir Einar og hlær. „Annars er Skíðagöngufélagið Ullur með skíðaleigu í skálanum sínum í Bláfjöllum og þá getur fólk byrjað t.d. að leigja sér skíði, skó og stafi til að átta sig á hvort þetta sé sport sem hentar.“ 

 

Námskeið fyrir alla 

Sem fyrr segir er Skíðagöngufélagið Ullur með námskeið fyrir þá sem vilja kynnast íþróttinni betur og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. „Við erum með eins skiptis námskeið fyrir þá sem vilja aðeins prófa sig. Svo erum við með sex skipta námskeið líka sem fyllast strax og þau eru auglýst. Að auki höfum við líka boðið upp á skautanámskeið, en það er önnur aðferð sem er notuð í skíðagöngu. Þá er skautað á skíðunum líkt og á skautum og kemur þér hraðar en krefst mikils jafnvægis og góðrar tækni. Ullur er svo líka með æfingar fyrir þá sem eru vanir og vilja hittast og æfa saman en allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu félagsins og á Facebook-síðu þess en þar má meðal annars finna nýjustu upplýsingar um aðstæður í Bláfjöllum og í Heiðmörk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka