Á hlaupum undan ísbjörnum

Inga Fanney Sigurðardóttir ólst upp við að elta kindur upp um fjöll og firnindi í norðlenskri sveit. Síðan þá hefur hún víða stigið niður fæti og skipuleggur nú hlaupaferðir í óbyggðum Íslands, Færeyja og Grænlands. Hún segist sérstaklega heilluð af ósnertri náttúru þess síðastnefnda og segir áhuga ferðamanna á landinu sífellt vera að aukast.

Hvenær og hvernig hófst þessi áhugi þinn á hlaupum?

Ég byrjaði að hlaupa árið 2011, eftir að ég átti mitt annað barn. Fram að því hafði ég alltaf verið í fjallgöngum og lengri göngum en eftir að fjölskyldan stækkaði hafði ég ekki eins mikinn tíma til þess. Þá fór ég að hlaupa leiðirnar í kring, í stað þess að ganga þær (til að spara tíma). Svo það gerðist eiginlega óvart að ég byrjaði að hlaupa. Á þeim tíma bjó ég á barmi Ásbyrgis, sem er auðvitað alger stígaparadís. Svo ég hef alltaf verið utanvegahlaupari en aldrei náð að aðlagast malbikinu, ekki enn a.m.k.

Það er ævintýralegt að hlaupa um í náttúru Grænlands
Það er ævintýralegt að hlaupa um í náttúru Grænlands Ljósmynd/Kelvin Trautman

Hvað kom til að þú fórst að hlaupa á Grænlandi?

Markaðsstofa Austur-Grænlands komst á snoðir um hlaupaferðirnar sem ég var að bjóða upp á á afskekktum stöðum á Íslandi og hafði samband við mig. Þá vildu þau kanna hvort Austur-Grænland þætti hlaupanlegt og jafnvel skipuleggja eins og eitt stykki hlaupakeppni þar. Ég fór þá í nokkra hlaupaleiðangra þar fyrir þau sem voru vægast sagt frumstæðir miðað við það sem maður var vanur hér. Ég þekkti svæðið ekki neitt á þeim tíma og talaði ekki neina grænlensku.

Fyrstu skiptin sem ég fór þangað voru þannig að ég fundaði með markaðsstofunni þar, í Tasiilaq, fór svo á pínulitlum bát með grænlenskum bátstjóra sem talaði pínulitla dönsku. Ég benti honum svo á á kortinu hvert ég vildi fara og hvar ég vildi að hann myndi sækja mig. Þegar við komum að staðnum þar sem ég átti að fara í land tók hann upp riffilinn sinn og skoðaði landið vel og vandlega í gegnum sjónaukann, sagði þá annaðhvort: “isbjorn nej” eða “isbjorn måske”. Ef það var “isbjorn måske”-svarið hafði ég túrana yfirleitt í styttri kantinum.

Inga Fanney í sínu náttúrulega umhverfi
Inga Fanney í sínu náttúrulega umhverfi Ljósmynd/Kelvin Trautman

Þetta var auðvitað bara mögulegt af því að ég var vön fjallamennsku og að ferðast ein mín liðs á fjöllum. Svo allur undirbúningur miðaðist við að fara af stað, við því búin að koma jafnvel ekki á áfangastað fyrr en í myrkri, með aukaföt, aukamat, álteppi, skyndihjálparbúnað, riffil, rötunarbúnað, gervihnattasíma, talstöð, aukarafhlöður o.s.frv. Á Grænlandi getur allt gerst og maður þarf að vera við öllu búinn. 

Seinna fór ég að framkvæma hlaupaskútuferðir á Grænlandi með Aurora Arktika svipað og við höfum verið að gera á Hornströndum. Þá fljúga hlaupararnir til Kulusuk, þar sem ég og skútan bíðum ásamt áhöfn, svo siglum við á milli áfangastaða og hlaupum þegar þangað er komið.

Hvernig eru aðstæður til hlaupa þar?

Austurgrænlenskt undirlendi er mjög tæknilegt og fjölbreytt, enda er það eitt af því sem heillar. Yfirleitt má búast við stórgrýti, smágrýti, vötnum, ám, snjó, jöklum, stundum stígum en yfirleitt ekki samt, a.m.k. ekki þar sem ég fer. Alltaf má þó reikna með mikilli hækkun og lækkun.

Óttastu ekki ísbirni?

Jú! Eftir hvern einasta dag, þegar ég kem með hópinn heilan á húfi aftur í skútuna eða á áfangastað er mér létt satt best að segja. Það er kannski móðureðlið, því auðvitað eru ekki miklar líkur á því að hitta ísbjörn. Líklega myndi ísbjörninn heldur ekki viljað hafa neitt með okkur mannfólkið að gera en maður veit jú aldrei. Nokkrum sinnum hef ég hlaupið fram á fersk fótspor eftir ísbirni, á svæðum þar sem hafði sést til þeirra. Þá byrjar hjartað alveg að slá aðeins hraðar.

Fjöldi tækifæri er til að taka ljósmyndir í þessu fallega …
Fjöldi tækifæri er til að taka ljósmyndir í þessu fallega umhverfi. Ljósmyndari/Kelvin Trautman

Er ólíkt að hlaupa á Íslandi og Grænlandi?

Já mér finnst það mjög ólíkt. Það er allt mikið villtara, stærra og hrárra á austurströnd Grænlands a.m.k. Það er vissulega mjög góður undirbúningur fyrir Grænlandshlaupaferð að skottast um íslenskt fjalllendi. Enn virðist hlaupakúltúrinn á Íslandi vera þó nokkuð tengdur við keppnishlaup frekar en hlaupaferðir en ef ég ætti að nefna keppnishlaup hér fyrir lesendur að tengja við sem gætu verið undirbúningur fyrir undirlendið á Grænlandi þá væru það Þorvaldsdalsskokkið, Dyrfjallahlaupið og Gullspretturinn á Laugarvatni.

Eru einhverjar ferðir fram undan?

Það er fullt af ferðum fram undan. Grænland kallar alltaf. Þeir sem hafa farið til Grænlands tengja sennilega við það að það er óviðjafnanlegt. Það er bara ekkert sem toppar það. Hingað til hef ég aðallega verið á austurströndinni en í sumar ætlum við Hayat Mokhenache, skipstjóri á Auroru, seglskútu, á Ísafirði að vera með leiðangur frá austurströndinni yfir á vesturströndina í gegnum Prins Christian-sund og bjóða upp á m.a. hlaupaferð frá Narsarsuaq um Suður-Grænland, siglandi og hlaupandi.

Inga Fanney býður upp á hlaupaskútuferðir á Grænlandi
Inga Fanney býður upp á hlaupaskútuferðir á Grænlandi Ljósmynd/Kelvin Trautman

Hvernig eru ferðirnar, hvað þarf maður að taka með sér og hvernig er með gistingu?

Ég er svo lánsöm að hafa flestar ef ekki allar ferðirnar mínar í samstarfi við skúturnar Auroru og Arktiku sem er eiginlega eins og færanlegur fjallaskáli. Þar sofum við og borðum, spjöllum og spáum í spilin. Það er svona mandatory kit, sem allir sem koma í ferðirnar þurfa að hafa með sér alltaf þegar við förum út að hlaupa. Grænland er bara svo extreme, það þarf að fara varlega og vel útbúinn. En annars gef ég líka út útbúnaðarlista á heimasíðunni minni sem svona viðmið fyrir fólk varðandi hvað á að taka með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka