Alltaf með íbúfen, íþróttateip og vaselín

Ívar Finnbogason segir mikilvægt að sjúkrabúnaður sé aðgengilegur.
Ívar Finnbogason segir mikilvægt að sjúkrabúnaður sé aðgengilegur. Ljósmynd/ÍF

„Búnaður þarf fyrst og fremst að taka mið af ferðinni auk þekk­ing­ar og kunn­áttu. Það kunna all­ir að nota plást­ur og verkjalyf þannig að það er aug­ljós­lega eitt­hvað sem á að vera til staðar,“ seg­ir Ívar Finn­boga­son, rekstr­ar­stjóri hjá Íslensk­um fjalla­leiðsögu­mönn­um, en hann hef­ur mikla reynslu af fjalla­mennsku og held­ur meðal ann­ars utan um nám­skeiðið vett­vangs­hjálp í óbyggðum eða Wilder­ness First Respond­er sem fer fram bæði í lok janú­ar og í maí hjá fyr­ir­tæk­inu.

Ívar seg­ir skyndi­hjálp­artösk­una oft lenda á botni bak­pok­ans og mæl­ir því með því að hafa það sem mest sé notað á aðgengi­leg­um stað. „Það að hafa tösk­una aðgengi­lega ger­ir það að verk­um að þrösk­uld­ur­inn fyr­ir að taka rétt­ar og góðar ákv­arðanir er minni. Ég er alltaf með íbú­fen, íþrótta­teip og vasel­ín í topp­hólf­inu.“

Hann seg­ir íbú­fenið virka við öll­um minni verkj­um og geta komið í veg fyr­ir að litl­ar bólg­ur og eymsli verði að stærri vanda­mál­um. „Íþrótta­teipið er það sem ég nota langoft­ast á hæl­særi en það virk­ar ekki á blöðrur og sár. Ef fólk fylg­ist með og læt­ur vita í tíma þá leys­ir smá íþrótta­teip málið áður en hæl­særi verður að vanda­málið,“ seg­ir Ívar og bæt­ir við að sem bet­ur fer séu nú­tíma­göngu­skór orðnir létt­ari og þægi­legri og nún­ings­sár fátíðari en áður.

Vasel­ín er einnig eitt­hvað sem Ívar mæl­ir sterk­lega með að taka með í lengri sem og skemmri ferðir en var­ar við því að nota það sem hendi sé næst á viðkvæm svæði. „Vasel­ínið er frá­bært á alls kon­ar minni nudds­ár sem geta mynd­ast á milli læra eða rasskinna, sem þó er ekki al­gengt en get­ur komið fyr­ir og er ákaf­lega óþægi­legt. Ég lenti einu sinni í því sjálf­ur og var ekki með aðra feiti en vara­sal­va sem inni­hélt frísk­andi ment­hol, slíkt set­ur maður bara einu sinni á viðkvæm svæði.“

Meiri búnaður í erfiðari ferðir

Ívar mæl­ir með því að vera með stærri skyndi­hjálp­artösku fyr­ir lengri ferðir og velti stærðin að sjálf­sögðu á mark­miði ferðar­inn­ar og því hversu langt sé farið inn í óbyggðirn­ar. „Þannig erum við nátt­úru­lega út­bún­ir með mikið magn lyfja og birgðir af sjúkra­búnaði til að skipta ít­rekað um umbúðir á mis­mun­andi sár­um ef við erum í leiðöngr­um eins og á Græn­landi,“ seg­ir Ívar en bæt­ir við að á Íslandi sé al­mennt ekki verið að ferðast með eins mikið af sjúkra­búnaði þar sem víðast hvar sé hægt að kom­ast í vega­sam­göng­ur og svo séu björg­un­ar­sveit­ir ein­stak­ar bjarg­ir þegar þannig beri und­ir.

„Ekki svo að skilja að maður eigi að stilla hlut­un­um þannig upp að maður treysti á ut­anaðkom­andi bjarg­ir en það er samt alltaf eitt­hvað sem maður hef­ur bak við eyrað.“ Ívar seg­ir mik­il­væg­ast að ná sér í þekk­ingu og mæl­ir með því að sem flest­ir fari á skyndi­hjálp­ar­nám­skeið hjá Rauða kross­in­um. „Íslensk­ir fjalla­leiðsögu­menn og Lands­björg bjóða svo upp á viðameiri nám­skeið sem henta þeim sem eru annaðhvort í úti­vist að at­vinnu eða eru í lengri ferðum og leiðöngr­um og vilja fá enn meiri þekk­ingu og und­ir­bún­ing. Slík nám­skeið snú­ast ekki um það að hlaða á sig flókn­um skyndi­hjálp­ar­búnaði, frek­ar að leggja mat á hvað maður þarf og treysta á hyggju­vitið og smá skiln­ing á því hvernig manns­lík­am­inn virk­ar.“

Neyðar­skýli geta bjargað lífi

Svo­kölluð Bot­hy Bag eða neyðar­skýli er nýj­ung sem Fjalla­leiðsögu­menn nota en það er sér­sniðinn plast­dúk­ur sem hægt er að kasta yfir lít­inn hóp. „Inni í skýl­inu er hægt að bíða af sér veður, nær­ast, hlúa að slösuðum eða bara taka smá pásu til að nústilla aðstæður og fá tíma til að hugsa og taka góðar ákv­arðanir. Ég mæli ein­dregið með að gera þannig hluta af grunnút­búnaði. Á vet­urna er þetta sér­stak­lega þægi­legt þar sem það er hægt að grafa út sæti og sitja þægi­lega inni í neyðar­skýl­inu. Ég er oft­ast með þannig með mér og ætla að full­yrða að a.m.k. einu sinni hef­ur það al­ger­lega bjargað lífi mínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert