Var hátt uppi allan tímann

Valentína ásamt vinkonum sínum
Valentína ásamt vinkonum sínum Ljósmynd/Aðsend

Valentína Björns­dótt­ir, for­stjóri Móður Nátt­úru, tók bara sjálfa sig og einn bak­poka með sér þegar hún gekk hring­inn í kring­um Mont Blanc síðasta sum­ar en í ferðinni er gengið í gegn­um Sviss, Ítal­íu og Frakk­land. Hún und­ir­bjó sig vel fyr­ir ferðina, fór að stunda reglu­lega lík­ams­rækt og var þakk­lát fyr­ir það þegar æv­in­týr­in í fjöll­un­um tóku völd­in. Hún seg­ir að miðaldrakrísa og æv­in­týraþrá hafi ýtt henni af stað.

„Upp­haf­lega kom þessi ferð til vegna þess að mig langaði svo til að ögra sjálfri mér al­menni­lega, í bland við smámiðaldrakrísu. Þó að ég væri búin að vera að ganga smá þá vantaði hell­ing upp á formið og mig langaði að koma mér í betra form. Ég hafði fylgst með þess­ari göngu á Face­book árið áður og hélt að það væri bara á færi fólks í svaka formi að ganga þessa leið. Svo sá ég ferðina aug­lýsta og eitt­hvað inni í mér sagði mér að skrá mig. Ég gerði það og mig svimaði við til­hugs­un­ina um að ég væri í al­vöru að fara ganga 180 km á 10 dög­um. Til að standa með sjálfri mér dreif ég mig í rækt­ina og stundaði hana sam­visku­sam­lega ásamt göng­um úti í nátt­úr­unni fram að ferðinni. Það skilaði sér svo sann­ar­lega þegar í göng­una var komið.

Einnig hitt­umst við vin­kon­urn­ar sem fór­um sam­an í ferðina reglu­lega til að ræða ferðina, skoða kort og láta okk­ur hlakka til,“ seg­ir Valentína.

Hún seg­ir að mynd­ir af stór­brotnu lands­lagi Alp­anna hafi upp­haf­lega kveikt í henni að fara í ferðina. Svo hafi hana langað að fara í eitt skipti fyr­ir öll hressi­lega út fyr­ir þæg­ind­aramm­ann, vera á ókunn­ug­um slóðum með lág­marks búnað á bak­inu og finna sinn innri styrk. Þegar hún er spurð að því hvort fólk þurfi að vera í góðu formi til að fara í slíka ferð seg­ir hún að það sé alltaf betra.

„Ég myndi mæla með því að fólk væri í frek­ar góðu formi ef það ætlaði í svona langa göngu. Fólk nýt­ur sín bet­ur í göng­un­um ef það er vel á sig komið og er búið að vinna í því að byggja sig upp eins og var í mínu til­felli. Svo eru minni lík­ur á að liðverk­ir og hnévanda­mál plagi þig ef þú erft í góðu formi,“ seg­ir hún.

Valentína naut hverrar mínútu ferðalagsins
Valentína naut hverr­ar mín­útu ferðalags­ins Ljós­mynd/​Aðsend

Valentína er mikið nátt­úru­barn og hef­ur gengið mikið á ís­lensk fjöll. Aðspurð hver sé mun­ur­inn á að fara í svona ferð eða fara í ferðir inn­an­lands seg­ir hún að ís­lenskt lands­lag sé miklu fjöl­breytt­ara.

„Ég hef aldrei farið í svona langa ferð inn­an­lands. Ég elska að ganga um Ísland og hef gert svo­lítið af því. Lands­lagið á Íslandi er mun fjöl­breyti­legra en á þess­ari göngu­leið, en veðrið hef­ur svo mikið að segja í göngu og því miður er svo oft allra veðra von á Íslandi. Mér finnst það ekki mjög spenn­andi til­hugs­un að ganga í roki og rign­ingu lang­ar leiðir og eiga svo kannski eft­ir að tjalda. En á fal­leg­um degi er ís­lensk nátt­úra al­gjör töfra­ver­öld og birt­an oft ein­stök. Alpanátt­úr­an er miklu blíðari en á sama tíma mjög stór­brot­in. Þessi miklu fjöll, skriðjökl­ar og jök­ulár í bland við blóma­breiður og fiðrildi í öll­um lit­um. Gengið er í gegn­um skóga­stíga niður í dali fram­hjá kúm á beit og gegn­um litla bæi. Það get­ur nú líka rignt hressi­lega þar og skollið á með þrum­um og eld­ing­um eins og við lent­um til dæmi í uppi í 2.300 m hæð. Það var frek­ar óþægi­leg lífs­reynsla en lær­dóms­rík.

Mér fannst al­veg frá­bært að koma í alla þessa mis­mun­andi skála sem við gist­um í á leiðinni og í flest­um þeirra var ágæt­is mat­ur og huggu­leg­ir desert­ar! Þess­ir skál­ar eru bara starf­rækt­ir yfir sum­ar­mánuðina. Sum­ir eru það hátt uppi að þar er ekk­ert raf­magn, bara notuð sól­ar­orka og all­ar vist­ir flutt­ar með þyrlu,“ seg­ir hún.

Stór­kost­legt frelsi

Hvað var stór­kost­leg­ast við ferðina?

„Stór­kost­leg­ast fannst mér þetta frelsi sem ég fann fyr­ir og þakk­lætið og gleðin yfir að geta gert þetta. Vera á rambi dög­um sam­an úti í nátt­úr­unni létt­klædd og vita að í enda dags­ins biði manns ein­hver skáli til að gista í. Vakna svo næsta dag, reima á sig skóna og halda áfram al­veg að springa úr til­hlökk­un fyr­ir göngu dags­ins.“

Hverju breytti þessi ferð?

„Þessi ferð var á all­an hátt mjög upp­byggi­leg. Mér fannst ég styrkj­ast mikið lík­am­lega og set það ekki fyr­ir mig að ganga lengri leiðir og hef meiri unun að því að taka á því í rækt­inni. Það gaf mér líka heil­mikla innri ró að ganga svona marga daga sam­fleytt í þess­ari ægi­feg­urð. Svona smá and­leg hreins­un sem fylg­ir með í kaup­bæti.“

Þannig að það ger­ist eitt­hvað stór­kost­legt innra með fólki þegar það geng­ur alla þessa kíló­metra í tíu daga?

„Það er sjálfsagt per­sónu­bundið hvað hver og einn upp­lif­ir. Hver göngu­dag­ur fyr­ir mér var pínu­lítið eins og lífs­gang­an. Það koma erfiðir kafl­ar og það koma góðir kafl­ar með litl­um per­sónu­leg­um sigr­um inni á milli sem vert er að halda upp á með góðum desert um kvöldið.

Við fór­um þrjár vin­kon­ur sam­an með hóp á veg­um Mundo-ferðaskrif­stofu sem allt voru frá­bær­ir ferðafé­lag­ar. En maður finn­ur það svo vel á langri göngu hvað það er gott að vera með kær­um vin­um, geta deilt upp­lif­un­inni, spjallað og hlegið en líka gengið sam­an í þögn­inni það er ómet­an­legt.“

Valentína seg­ist hafa komið mun sterk­ari til baka.

„Mér fannst ég koma miklu sterk­ari til baka heim úr ferðinni og hún opnaði fyr­ir mér al­veg nýja ver­öld hvað göng­ur varðar. Það er ekki svo flókið að ganga um þess­ar slóðir og vel hægt að fara í alls kyns styttri ferðir þar. En ég myndi samt mæla með að ef fólk ætl­ar að ganga TMB og hef­ur ekki mikla þekk­ingu á fjall­göng­um að fara í skipu­lagða ferð, ég hefði ekki viljað sleppa okk­ar ynd­is­legu far­ar­stjór­um, þeim Guðrúnu Hörpu Bjarna­dótt­ur og Er­lendi Páls­syni, því þau voru mjög fróð um leiðina og ég lærði heil­mikið af þeim.“

Pakkaði bara því allra nauðsyn­leg­asta

„Það er erfitt að velja eitt­hvert eitt sér­stakt augna­blik, ég var í hálf­gerðu „blizzi“ all­an tím­ann. Mesta feg­insaugna­blikið var þegar við kom­um í skál­ann eft­ir þrumu­veður­skafl­ann. Svo fannst mér það stór­kost­legt þegar við kom­um á landa­mæri Frakk­lands og Ítal­íu, það var eitt­hvað svo magnað að hafa gengið til Ítal­íu fjalla­leiðina! Fyr­ir mig þá fannst mér Ítal­íu­part­ur­inn best­ur, bestu skál­arn­ir og besti mat­ur­inn, svo vor­um við ein­stak­lega hepp­in með veður og fjalla­sýn­in stór­kost­leg á þeirri leið,“ seg­ir Valentína spurð um besta augna­blik ferðar­inn­ar.

Það eina sem Valentína tók með sér í ferðina, fyr­ir utan sjálfa sig, var einn bak­poki og hann mátti alls ekki vera of þung­ur.

„Ég tók eins lítið með mér og ég gat! Fór bara að ráðum far­ar­stjór­anna, ég var með um það bil 8 kg á bak­inu, það var eitt og annað sem ég ætlaði að taka með en hætti við all­an óþarfa þegar ég sá hvað það bætti við í þyngd­ina. Hugsaði oft um það í löng­um brekk­um hvað ég var feg­in að vera bara með föt til skipt­anna og varla það.“

Hvað er næst á dag­skrá? Eru fleiri ferðir fyr­ir­hugaðar?

„Það stytt­ist að í að við fjöl­skyld­an för­um til Teneri­fe, þar eru marg­ar spenn­andi göngu­leiðir í boði. Við höf­um gengið aðeins þar og er það mjög skemmti­legt. Svo lang­ar mig að ganga eins mikið og ég get hérna heima í sum­ar, vera dug­leg að stökkva á fjall þegar færi gefst. Ég væri al­veg til í að ganga TMB aft­ur, en það verður að bíða betri tíma.“

Hvað færðu út úr göngu­ferðum sem ekki tekst í hefðbund­inni lík­ams­rækt inn­an­húss?

Það er varla hægt að bera þetta sam­an þetta er svo ólík hreyf­ing. Það er ákveðinn unaður sem fylg­ir því að vera út í nátt­úr­unni sem maður finn­ur hvergi ann­ars staðar, en rækt­in er svo frá­bær til að fá út­rás og um leið að styrkja svo marga vöðva­hópa og bæta þolið, sem aft­ur gagn­ast svo vel í göng­um, fyr­ir mér er þetta frá­bær blanda. Rækt­in er líka alltaf til staðar alla daga, það eru ekki alltaf aðstæður til að ganga út í nátt­úr­unni, mér finnst ástund­un­in skipta mestu máli, það er eig­in­lega magnað hvað það er hægt að ströggla við að koma sér af stað í rækt­ina. Ekki það að ég sé ein­hver sér­fræðing­ur, það er búið að taka mig 30 ár að fatta þetta en betra seint en aldrei. Óska­draum­ur­inn er að fá að vera sterk og hraust fram eft­ir öll­um aldri og stunda úti­vist af full­um krafti.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert