Í útivist verður orkan til

Björn Víglundsson lætur gamlan draum rætast í St. Anton.
Björn Víglundsson lætur gamlan draum rætast í St. Anton. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er svo ótrú­lega hepp­inn að for­eldr­ar mín­ir settu mig á skíði fljót­lega eft­ir að ég byrjaði að labba. Grænu plast­skíðin sem smellt var á kulda­skóna eru mér enn í fersku minni. Það voru eng­ir stál­kant­ar á þeim og ég myndi senni­lega ekki setja skinn und­ir þau held­ur. Síðan hef ég verið á skíðum og fjöl­skyld­an mín öll elsk­ar að vera á skíðum,“ seg­ir Björn Víg­lunds­son viðskipta­fræðing­ur sem stadd­ur er um þess­ar mund­ir í St. Ant­on í Aust­ur­ríki en þar réð hann sig tíma­bundið til fyr­ir­tæk­is­ins Piste to Powder sem sér­hæf­ir sig í ut­an­braut­ar­skíðum. „Ég er hér fyrst og fremst til að njóta lífs­ins og láta gaml­an draum ræt­ast um að eyða löng­um tíma á skíðum, en ekki alltaf bara dag og dag eða eina viku á ári. Þetta er því búið að vera mikið æv­in­týri sem ég sé ekki eft­ir,“ seg­ir Björn sem seg­ist þó ekki vilja kalla sig sér­fræðing í íþrótt­inni og þaðan af síður leiðsögu­mann því til þess þarf að ljúka löngu námi. „Ég hef hins veg­ar það frá­bæra hlut­verk að taka á móti viðskipta­vin­um þeirra á morgn­ana og skíða svo með hópn­um á dag­inn, til aðstoðar við leiðsögu­mann­inn.“

Á svæðinu hefur kyngt niður snjó sem aldrei fyrr.
Á svæðinu hef­ur kyngt niður snjó sem aldrei fyrr. Ljós­mynd/​Aðsend

Hræðist snjóflóð meira en nokkuð annað

Björn seg­ir St. Ant­on vera ein­stakt skíðasvæði og þar sé að finna ein­stakt svæði til ut­an­braut­ar­skíðaiðkun­ar auk þess sem fallið hef­ur meiri snjór núna í vet­ur en nokkru sinni. „Hér eru fjöll­in há og brött og stórt svæði sem ekki er þjón­ustað af lyft­um. Hér má því enda­laust finna brekk­ur sem eng­inn hef­ur skíðað í og geyma púðursnjó mörg­um dög­um eft­ir að síðast snjóaði. Það er auðvitað ynd­is­legt að skíða niður brekku sem eng­inn hef­ur komið í lengi, en það er líka ótrú­lega ró­andi og skemmti­leg til­finn­ing að ganga á skíðunum og reyna á lík­amann. Ég er ekki mik­ill jógamaður, en ég ætla að leyfa mér að giska á að til­finn­ing­in sé svipuð. Kyrrð og ró, áreynsla og auðvitað stund­um farið aðeins út fyr­ir þann þæg­ind­aramma sem maður býr yfir. Reynd­ar hef­ur það gerst ansi oft í þess­ari ferð.“

Glaðir fjallaskíðakappar njóta sín í góða veðrinu.
Glaðir fjalla­skíðakapp­ar njóta sín í góða veðrinu. Ljós­mynd/​Aðsend

Aðspurður hvort Íslend­ing­ar séu hluti af kúnna­hópi Piste to Powder seg­ir Björn svo ekki vera en hvet­ur ís­lenskt skíðaáhuga­fólk til að ráða sér leiðsögu­mann því þeir viti allt um fjöll­in. „Mark­mið þeirra er að koma sér og viðskipta­vin­um sín­um ekki á þá staði sem kunna að vera hættu­leg­ir. Það get­ur breyst frá degi til dags, allt eft­ir snjóa­lög­um, vindátt­um og sól­ar­lagi. Ég hræðist snjóflóð meira en nokkuð annað og finn fyr­ir mik­illi ör­ygg­is­til­finn­ingu þegar ég ferðast með leiðsögu­manni sem veit ná­kvæm­lega hvernig landið ligg­ur og hvar hætt­urn­ar leyn­ast.“

Tek­ur fagn­andi á móti áskor­un­um

Björn er mik­ill úti­vist­armaður og seg­ist end­ur­nær­ast á sál og lík­ama þegar hann stund­ar hreyf­ingu af ein­hverju tagi. „Í úti­vist verður ork­an til. Maður end­ur­nær­ir sál og lík­ama og hleður á tank­ana fyr­ir næstu verk­efni. Það er senni­lega ein­fald­asta leiðin til að út­skýra það. Ég held að all­ir með skemmti­leg áhuga­mál kann­ist við þá til­finn­ingu, hvort sem það er í formi úti­vist­ar eða ein­hvers ann­ars. Þetta er senni­lega hin enda­lausa leið af jafn­vægi í líf­inu.“

Björn réð sig tímabundið til fyrirtækisins Piste to Powder sem …
Björn réð sig tíma­bundið til fyr­ir­tæk­is­ins Piste to Powder sem sér­hæf­ir sig í ut­an­braut­ar­skíðum. Ljós­mynd/​Aðsend

Hann seg­ist þó ekki vera af­reksmaður í neinu en þó áhugamaður um margt. „Á sumr­in spila ég golf og svo finnst mér fjalla­hjólið frá­bært, enda á það margt sam­merkt með fjalla­skíðunum. Maður puðar upp og fær svo verðlaun á leiðinni niður. Ég hef líka látið plata mig í WOW Cyclot­hon og farið 2 eða 3 hringi með góðu fólki. Nú síðast lét ég plata mig í Land­vætti Ferðafé­lags Íslands og er að læra að synda og ganga á göngu­skíðum til þess að ná að klára þær þraut­ir sem í því fel­ast. Það var kon­an mín sem plataði mig í það með sér eins og hún gerði með fjalla­skíðin. Ég hef gam­an af áskor­un­um og reyni að hafa þá reglu að segja bara „já“ þegar þær koma,“ seg­ir Björn að lok­um og er far­inn að iða í skinn­inu að kom­ast út í brekk­urn­ar enda sól og blíða sem bíður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert