Flutti norður og fékk útivistardelluna

Hér er Eyrún ásamt systur sinni.
Hér er Eyrún ásamt systur sinni. Ljósmynd/Aðsend

Fyr­ir nokkr­um árum ákvað Eyrún Ásgeirs­dótt­ir að venda kvæði sínu í kross og flytja norður á Ak­ur­eyri. Þar fékk hún smjörþef­inn af líf­inu á fjöll­um og líf henn­ar tók stakka­skipt­um. Fljót­lega var hún far­in að renna sér á fjalla­skíðum í fyrsta sinn og fór reglu­lega út fyr­ir þæg­ind­aramm­ann. Í dag eiga hreyf­ing og úti­vist hug henn­ar all­an. 

Eyrún ólst upp í Bol­ung­ar­vík og fór því reglu­lega í fjall­göng­ur á sumr­in þegar hún var yngri.

„Fjöl­skyld­an á sum­ar­bú­stað í Leiruf­irði í Jök­ul­fjörðum og sumr­in ein­kennd­ust því oft af fjall­göng­um og ým­is­kon­ar úti­veru þar. Ég byrjaði líka snemma á skíðum og var virk á þeim fram­an af,“ seg­ir Eyrún.

Hún fór til höfuðborg­ar­inn­ar í há­skóla eins og geng­ur og starfaði í banka eft­ir nám. Hún fann að sig vantaði breyt­ingu og hafði verið í ákveðinni lægð er kom að hreyf­ingu og úti­veru. „Það var ekki fyrr en ég flutti norður árið 2015 sem ég fór að end­urupp­götva úti­vist­ina og fjall­göng­ur. Syst­ir mín og fjöl­skylda henn­ar búa á Ak­ur­eyri og eru þau mikið á skíðum, Til að byrja með elti ég þau og fór að vera með þeim í fjall­inu. Þau voru að kaupa sér fjalla­skíði og ég ákvað að vera með í par­tí­inu, en þá má segja að hafi opn­ast al­veg nýj­ar dyr fyr­ir mér.“

Fljót­lega eft­ir að hún keypti skíðin kynn­ist hún svo kær­ast­an­um sín­um sem er einnig mikið í úti­vist.

„Fjalla­skíðin og úti­vist­in al­mennt er því okk­ar sam­eig­in­lega áhuga­mál sem er dá­sam­legt. Síðastliðið haust byrjaði ég svo í nýliðapró­grammi hjá Súl­um, björg­un­ar­sveit­inni á Ak­ur­eyri en þar hef ég lært ým­is­legt nýtt og skemmti­legt sem teng­ist úti­vist.“

Líf Eyrúnar er mun innihaldsríkara eftir að útivistin kom inn …
Líf Eyrún­ar er mun inni­halds­rík­ara eft­ir að úti­vist­in kom inn í líf henn­ar Ljós­mynd/​Aðsend

Lífið snýst um veður­spá

Eyrún seg­ir að lífið hafi sann­ar­lega breyst í kjöl­far úti­vistaráhug­ans. „Ég fór frá því að eiga mik­inn frí­tíma yfir í að vera mjög upp­tek­inn ein­stak­ling­ur. Ég hef held­ur aldrei verið jafn dug­leg við að skoða veður­spá! Flest­ar helg­ar yfir vetr­ar­mánuðina síðustu ár hafa verið nýtt­ar á skíðum, þá bæði fjalla­skíðum og ut­an­braut­ar­göngu­skíðum. Ég er mjög hepp­in með fólkið í kring­um mig og hef lært mikið af því, tekið tölu­verðum bæt­ing­um og kynnst fullt af nýj­ung­um í þessu. Eitt það skemmti­leg­asta við úti­vist­ina er þegar ég næ að toppa sjálfa mig, þegar maður spark­ar hugs­un­inni „nei ég get þetta ekk­ert“ svo langt í burtu að maður þekk­ir hana ekki leng­ur.“

Stórt skref að ganga ein milli fjarða

Þegar Eyrún er spurð um eft­ir­minni­leg­an dag uppi á fjöll­um er hún fljót að nefna þegar hún gekk ein milli fjarða á Horn­strönd­um. „Sum­arið eft­ir að ég flutti norður stökk ég á tæki­færi til að fara í fjög­urra daga göngu á Horn­strönd­um með systr­um pabba og fleiri vel völd­um kon­um. Ég hafði nokkra auka­daga eft­ir þá göngu og ákvað því að ef það myndi spá sæmi­legu veðri dag­ana eft­ir göngu myndi ég bæta ein­um göngu­degi við og enda í sum­ar­bú­staðnum okk­ar í Leiruf­irði. Veðrið var gott svo ég sló til. Við enduðum göng­una í Miðkjós í Lónafirði þar sem við vor­um sótt­ar. Ég fékk auka­búnað og tjald og var skutlað á bátn­um yfir í Sóp­anda í Lónafirði meðan aðrir fóru til byggða. Ég gisti þá nótt ein í tjaldi í Sóp­anda og labbaði yfir Hrafn­fjörð og þaðan yfir í Leiru­fjörð. Allt heppnaðist vel þrátt fyr­ir smá þoku og myrk­fælni. Þetta var kannski ekki svo lang­ur tími eða löng leið en þetta var stórt skref fyr­ir mig.“

And­lega hliðin betri með mik­illi hreyf­ingu

Eyrún seg­ist þó ekki aðeins hafa eign­ast nýtt áhuga­mál held­ur hafi líðan henn­ar breyst til hins betra.

„Ég tengi bætta and­lega líðan mikið við aukna hreyf­ingu og úti­veru. Ég er far­in að stunda úti­hlaup allt árið og þau eru auðvitað góð und­ir­staða fyr­ir alla aðra úti­vist. Mér finnst líka gott að halda mér í fínu lík­am­legu formi en þá er maður bet­ur til­bú­inn að stökkva til ef það kem­ur gott til­boð um ferð með litl­um fyr­ir­vara. Mér finnst ég hrein­lega fun­kera bet­ur and­lega þegar ég stunda mikla hreyf­ingu en þegar ég var sófa­kartafla.“

Lífið tók miklum jákvæðum breytingum eftir að Eyrún flutti norður.
Lífið tók mikl­um já­kvæðum breyt­ing­um eft­ir að Eyrún flutti norður. Ljós­mynd/​Aðsend

Láta vaða og læra af þeim bestu

En hvað myndi Eyrún ráðleggja þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í úti­vist líkt og hún gerði fyr­ir ekki svo löngu? „Láta vaða! Það er kannski klisju­kennt en þetta er satt, alla­vega fyr­ir mína parta. Það er mik­il gróska í úti­vist þessa dag­ana og fullt af nám­skeiðum og hóp­um sem hægt er að sækja í til að kynn­ast því sporti sem þú hef­ur áhuga á. Það hef­ur reynst mér vel að vera með öðrum sem eru aðeins betri í sport­inu en ég, læra af þeim og þeirra þekk­ingu. Svo er það bara æf­ing­in sem skap­ar meist­ar­ann, það er eng­inn meist­ari í fyrstu til­raun svo maður þarf ekk­ert að hafa áhyggj­ur af því að vera ekki best­ur. “

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert