Gönguferð að hæsta fossi landsins

Gengið á planka yfir Botnsá.
Gengið á planka yfir Botnsá. Ljósmynd/Einar Skúlason

Það er mjög vinsælt að ganga upp að gljúfrinu og horfa á fossinn. Vegna lögunar gljúfursins er aðeins hægt að sjá allan fossinn austan megin við gljúfrið og því þarf að komast yfir Botnsá til þess að komast á útsýnisstaðinn. Neðan við gljúfrið er trjábolur sem nýtist sem göngubrú, en honum er komið fyrir í maí, eftir vorflóðin og svo er hann tekinn aftur upp á haustin. Nú er búið að koma trjábolnum á sinn stað þetta sumarið og því hægt að fara að skipuleggja gönguferð til að skoða hinn fallega Glym 

Gott er að vera í skóm með grófum sóla þegar farið er í þessa göngu, sérstaklega hjálpar það ef það er væta í brekkunum við brún gljúfursins. Fólk á sléttbotna strigaskóm rennur frekar til.   

Glymur er einstaklega fallegur foss.
Glymur er einstaklega fallegur foss. Ljósmynd/Einar Skúlason

Gengið er um land Stóra-Botns þar sem búið var til ársins 1982 og minna mörg örnefni á búsetu fyrrum. Þar á meðal er Þvottahellir sem gengið er um til að komast niður að ánni, en þar mun þvottur hafa verið þurrkaður ef viðraði ekki til slíks. Jón Þorkelsson var síðasti bóndinn í dalnum og hann hafði á orði að fólk ætti að fara varlega við gljúfrið enda missti hann margar kindur þar niður í gegnum árin og sérstaklega er það á vorin og í mikill vætutíð sem ber að fara varlega enda losnar þá um bergið 

Botnsá er yfirleitt ekki mikil um sig með meðalrennsli upp á 4 m³/s en í miklum vatnavöxtum á vorin hefur rennslið farið í yfir 60 m³/s. 

Hæsti foss Íslands 

Fossinn Glymur er 198 m á hæð og er almennt flokkaður sem hæsti foss Íslands. Þó kom í ljós foss við bráðnun í Morsárjökli skammt frá Skaftafelli sem mun vera hærri. Það hefur þó ekki verið formlega staðfest af Landmælingum Íslands.  

Útsýnið frá Glym er magnað.
Útsýnið frá Glym er magnað. Ljósmynd/Einar Skúlason

Ef fólk vill ekki fara sömu leið til baka þá er hægt er að halda áfram upp með gljúfrinu og vaða yfir Botnsána ofan við fossinn. Fólk er hvatt til að taka með vaðskó ef það hyggst vaða, til dæmis Crocs-skó, gamla strigaskó eða eitthvað annað. Það er þægilegra en að vaða berfætt á grýttum botni. Nokkur hundruð metrum ofar er hinn fallegi Breiðifoss og er fólk hvatt til að gera sér ferð þangað. Þegar komið er yfir ána eru tvær leiðir í boði. Annars vegar er hægt að fara um kjarri vaxnar brekkur vestan megin gljúfursins og hins vegar er hægt að ganga á brúninni til vesturs og fylgja svo jeppaslóða niður eftir Svartahrygg. Ég kann betur við þá leið enda er útsýni yfir Hvalfjörðinn allan tímann og það er líka skemmtilegt að skoða Víðiblöðkudal á hægri hönd en það var einn af uppáhaldsstöðum fyrrnefnds Jóns í Botni.  

Leiðin að Glym er í Wappinu en þar er einnig fjallað um þjóðsöguna um Rauðhöfða, Arnes Pálsson útilegumann og fleira sem tengist þessum fallega stað.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka