Hornstrandir eru draumalandið

Náttúrufegurðin á Hornströndum er óumdeilandlega falleg.
Náttúrufegurðin á Hornströndum er óumdeilandlega falleg. Ljósmynd/FÍ

Þetta er lík­lega eini staður­inn á Íslandi þar sem þú get­ur horfst í augu við heim­skautaref af tveggja metra færi og hann læt­ur sér fátt um finn­ast enda á hann landið eins og hann gerði áður en maður­inn kom hingað fyrst.

Ferðafé­lag Íslands býður fjöl­marg­ar ferðir á Hornstrand­ir með reynd­um far­ar­stjór­um. Það er afar mik­il­vægt þegar ferðast er um þetta eyðiland að leiðsögu­menn þekki vel til því veður geta skip­ast á  fögr­um sól­armorgni í jök­ul­kald­an slydd­usudda með út­sýni sem nær ekki lengra en að nef­inu. Ein þeirra ferða sem hef­ur notið mik­illa vin­sælda und­an­far­in ár er leidd af Ólöfu Sig­urðardótt­ur sér­kenn­ara og kall­ast hún Hornstrand­ir – Saga, byggð og bú­seta, en með Ólöfu geng­ur Jón Örn Guðbjarts­son vís­inda­miðlari frá Há­skóla Íslands. 

Hér má sjá kort af Hornströndum en í ferðinni verða …
Hér má sjá kort af Horn­strönd­um en í ferðinni verða meðal ann­ars Hesteyri og Aðal­vík sótt heim. Ljós­mynd/​Wiki­media

Þau eru bæði kunn­ug staðhátt­um og þekkja því leiðirn­ar eins og lóf­ana sína. Í ferðinni eru tveir af helstu þétt­býlis­kjörn­um Horn­stranda heim­sótt­ir, Aðal­vík og Hesteyri. Í ferðinni er hugað að sögu, menn­ingu og at­vinnu­hátt­um þess­ara yf­ir­gefnu byggðakjarna.

Fór fyrst á Hornstrand­ir með bjarg­mönn­um

„Ég fór fyrst á Hornstrand­ir vorið 1972,“  seg­ir Ólöf, „en þá um vet­ur­inn hafði ég verið kenn­ari á Ísaf­irði. Við vor­um tvær vin­kon­ur sem vild­um endi­lega kom­ast á Hornstrand­ir og höfðum fyrst í huga að ganga suður Strand­ir. Við feng­um far með hópi af körl­um sem fóru í eggja­töku­leiðang­ur í hið hrika­lega Hæla­vík­ur­bjarg. Þetta voru tveir hóp­ar sem héldu til bæði í Stígs­húsi og Frí­manns­húsi í Horn­vík og við feng­um að fljóta með öðrum hópn­um,“ seg­ir Ólöf sem kann enda­laus­ar sög­ur af svæðinu. Hún gauk­ar að göngu­fólki fróðleik af ábú­end­um, at­b­urðum og fram­kvæmd­um og líka sjó­slys­um. Sum­ar sög­urn­ar sæk­ir hún jafn­vel yfir í ann­an heim enda eru fjöl­skrúðugar sög­ur af draug­um og sæskrímsl­um á Horn­strönd­um. Sum­ar sög­urn­ar lærði hún meira að segja í fyrstu ferðinni sinni.
„Þegar við fór­um með bjarg­mönn­um þarna um vorið vor­um við í rúma viku og ég heillaðist al­gjör­lega af nátt­úr­unni og um­hverf­inu. Mig minn­ir að það hafi verið gott veður all­an tím­ann. Þá lærði ég nokkr­ar sög­ur og fá­ein ör­nefni sem rifjuðust svo upp ald­ar­fjórðungi síðar þegar ég fór að leiða ferðir hingað.“
Þessi ferð þeirra vin­kvenna átti eft­ir að hafa sögu­leg­ar af­leiðing­ar á þann veg að sam­ferðar­kona Ólaf­ar kynnt­ist þarna manns­efn­inu sínu sem hún reynd­ar missti síðar í slysi í fugla­bjargi á Horn­strönd­um. 

Aðal­vík­in er fyrsti áfangastaður­inn

Í ferðinni með þeim Ólöfu og Jóni Erni er fyrst siglt frá Ísaf­irði í Aðal­vík og gist í húsi í Stakka­dal. Það er margt að sjá í Aðal­vík enda fjöldi húsa að Látr­um sem vel er við haldið og segja þau mikla sögu. Þarna er fjar­an gyllt og breiðir úr sér í magnaðri feg­urð, af­króuð af fjöll­um á þrjá vegu. Fyr­ir utan er svo út­hafið og ef kastað yrði stein­völu af óþekktu afli út fló­ann næmi hún ekki staðar fyrr en í Græn­lands­jökli. 

Staðarkirkja í Aðalvík.
Staðar­kirkja í Aðal­vík. Ljós­mynd/​Wiki­media

„Nátt­úr­an er bæði hrika­leg og fjöl­breytt og það kem­ur mörg­um á óvart hvað gróður­inn er fjöl­breytt­ur og mik­ill á þess­um slóðum,“ seg­ir Ólöf og bæt­ir því við að saga fólks­ins sem þarna bjó um ald­ir við erfið skil­yrði hafi alltaf heillað hana. „Það er ekki annað hægt en að dást að dugnaði þessa fólks og út­sjón­ar­semi þess við að lifa af en þetta er harðbýlt svæði þó svo að sjór­inn og bjargið hafi gefið vel af sér.“

Rúst­ir á Straum­nes­fjalli – Minj­ar um kalt stríð

Úr Aðal­vík er gengið á Straum­nes­fjall þar sem mestu mann­virki Vest­fjarða blasa við, hálf­hrun­inn minn­is­varði um kalda stríðið sem geisaði milli Banda­ríkja­manna og gömlu Sov­ét­ríkj­anna. Þarna var reist gríðarleg rat­sjár­stöð á sjötta ára­tugn­um sem varð að sumra sögn í raun úr­elt um leið og hún var tek­in í notk­un. Aðrir full­yrða að þarna hafi Kan­inn reist rat­sjár­stöð til að fylgj­ast með flugi Rússa um norðlæg­ar slóðir en þegar stöðin var opnuð höfðu Rúss­ar ekki tækni­lega burði til að fljúga hingað. Þá tækni öðluðust þeir hins veg­ar um leið og stöðinni var lokað. All­ir sem sjá þessi miklu hús verða orðlaus­ir og haka margra síg­ur al­veg niður í há­slétt­una. Í ferðinni eru rakt­ar marg­ar sög­ur af þess­ari mögnuðu fram­kvæmd, veru am­er­ískra her­manna á fjall­inu og tengsl­um þeirra við ábú­end­ur og aðra Íslend­inga. 


Hesteyr­in him­neska

Ólöf seg­ir að hóp­ur­inn haldi svo yfir á Hesteyri í Jök­ul­fjörðum eft­ir aðra næt­urg­ist­ingu í Stakka­dal. „Gat­an ligg­ur greið á milli þess­ara stærstu fyrr­ver­andi byggðakjarna friðlands­ins. Heim­sókn á Hesteyri er ógleym­an­leg lífs­reynsla. Þarna hvíl­ir lítið þorp und­ir fjallseggj­um í mikl­um hvann­ar­skógi.“

Frísklegir göngugarpar, nýbúnir að vaða yfir á sem varð á …
Frísk­leg­ir göngugarp­ar, ný­bún­ir að vaða yfir á sem varð á vegi þeirra. Ljós­mynd/​FÍ

Ólöf seg­ir töfr­andi að rölta um eyr­ina og njóta alls þess sem ber fyr­ir augu. Á sama tíma og sel­ir stingi jafn­vel upp koll­in­um í flæðar­mál­inu megi heyra gaggið í tóf­unni og jafn­vel rek­ast á yrðlinga sem láta sér hvergi bregða þótt maður­inn sé að slæp­ast í miðju óðal­inu þeirra. 
Ólöf seg­ir að síðustu íbú­arn­ir hafi flutt frá Hesteyri upp úr miðri síðustu öld en þarna var áður mikið mann­líf og skarkali frá hval­stöð sem reist var árið 1894. 
„Við göng­um að hval­stöðinni,“ seg­ir Ólöf, „en Hesteyri teng­ist sögu hval­veiða hér svo um mun­ar. Þarna stend­ur enn síðasta vígi norskra hvalafang­ara ef svo má að orði kom­ast. Norðmenn hófu hér fyrst hval­veiðar seint á 19. öld en þeir byggðu átta hval­stöðvar á Vest­fjörðum, þar á meðal á Stekk­eyri, skammt inn­an við Hesteyri. Reyk­háf­ur­inn er hár og stend­ur enn.“

Minj­ar um norska hval­fang­ara

Hval­ir hafa án efa verið í haf­inu við Ísland í þúsund­ir ára en þeir hafa verið tald­ir til hlunn­inda á Íslandi frá land­námi. Ólöf hef­ur sér­stak­an áhuga á Íslend­inga­sög­um en í sautján þeirra eru lýs­ing­ar á sam­skipt­um manna og hvala á fyrstu árum byggðar, m.a. í Fóst­bræðra­sögu þar sem sögu­sviðið er að hluta til á Horn­strönd­um. Orðið hval­reki er enn notað um góðan feng en til forna þýddi það í raun að heilt búr af mat hefði rekið á land. Þekkt er sena af Horn­strönd­um úr Fóst­bræðra­sögu þar sem Þor­geir Há­vars­son drep­ur Gils bónda Más­son vegna ágrein­ings um hval­reka. En Norðmenn á Hesteyri voru ekki að pæla í hval­reka, þeir vildu skutla hval. Á ör­fá­um árum gengu þeir svo nærri hvala­stofn­in­um fyr­ir vest­an að þeir fluttu veiðiflot­ann og vinnsl­una til Aust­fjarða.

Fræg­asta Lækn­is­húsið á Íslandi

 „Á Hesteyri eru nú um tíu hús frá fyrri hluta síðustu ald­ar og sum þau elstu voru reist fyr­ir alda­mót­in 1900,“ seg­ir Ólöf. „Við gist­um ein­mitt í einu því elsta, í Lækn­is­hús­inu en þegar inn er komið geng­ur maður eig­in­lega á vit hins liðna.“
Þar inni er urmull af lyfjakrukk­um og krús­um frá vel­meg­un­ar­ár­un­um. Ef losað er um tappa og nefið lagt við þess­ar kirn­ur mæt­ir manni keim­ur af joði og jurt­um og meðulum sem einu sinni hresstu við dugnaðarforka sem eru löngu gengn­ir til sam­fylgd­ar við forfeður sína. 
„Ég hef alltaf haft áhuga á jurt­um og hvernig þær voru notaðar til lyfja­gerðar, til mat­ar og sem heilsu­drykk­ir,“ seg­ir Ólöf þegar talið berst að krukk­um lækn­is­ins en hún bæt­ir því við að hún pæli líka í því hvernig jurtir voru áður fyrr notaðar til lit­un­ar á garni. Það er því gam­an að ganga með Ólöfu og greina með henni plönt­urn­ar við traðirn­ar sem eru gengn­ar. 
Marg­ir sem lesið hafa bók Yrsu Sig­urðardótt­ur, Ég man þig, eru spennt­ir að koma í Lækn­is­húsið og vilja sjálfsagt vita hvort þar sé ekki reimt eins og í sög­unni. Sum­ir full­yrða reynd­ar að í hús­inu sé maður sem neiti að hverfa því einn lækn­ir­inn á eyr­inni á að hafa fallið í snar­brött­um stig­an­um og staðið upp aft­ur… en bara í öðrum heimi. Stund­um þegar haustregnið lem­ur þakskeggið og salt­b­arða glugg­ana er lækn­ir­inn víst að rjátla við mortélið sitt og brún­ar krukk­urn­ar og geng­ur um tré­gólfin uppi til­bú­inn að vitja sjúk­linga sem hafa löngu lokið jarðvist sinni.

Andi liðinna tíma svífur yfir í elsta húsinu á Hesteyri, …
Andi liðinna tíma svíf­ur yfir í elsta hús­inu á Hesteyri, Lækn­is­hús­inu. Ljós­mynd/​FÍ

Ólöf seg­ir að þess­ar sög­ur um reim­leika séu stór­lega ýkt­ar og und­ir það tek­ur Birna Hjaltaín Páls­dótt­ir sem á Lækn­is­húsið og hef­ur snúið við hundrað þúsund pönnu­kök­um á gömlu elda­vél­inni í hús­inu og fært þær svöng­um ferðalöng­um. 
„Lík­legt er að við fáum pönnu­kök­ur í Lækn­is­hús­inu, en ekki frá Binnu held­ur syni henn­ar Hrólfi sem tek­ur stund­um upp á því líka að leika af stakri snilld á harmoniku fyr­ir okk­ur.“

Reynsla og gleði á göngu

Ólöf hef­ur stundað ferðalög og úti­vist fá því í æsku, fyrst með fjöl­skyld­unni og síðan með Ferðafé­lagi Íslands. „Ég hef alla tíð haft gam­an af því að ferðast og kynnt­ist því sem barn að ferðalög voru sjálf­sagður hluti af til­ver­unni,“ seg­ir Ólöf. „Það fylg­ir því mik­il vellíðan að ferðast úti í nátt­úr­unni, bæði and­leg og lík­am­leg. Að njóta fal­legr­ar nátt­úru bæði þar sem hún er stór­brot­in og hrika­leg en einnig þar sem hið smáa litar um­hverfið. Það þarf ekki alltaf að fara langt til að njóta og finna óbyggðakyrrðina. Jafn­vel inn­an borg­ar­lands­ins má finna staði þar sem fátt trufl­ar.“
Ólöf hef­ur leitt fjöl­marga hópa um Hornstrand­ir en minn­ing­in um ferðina 1972 var svo kröft­ug að hún fann ekki þörf fyr­ir að fara aft­ur fyrr en rösk­ur ald­ar­fjórðung­ur hafði liðið.

Pistlahöfundur nýtur umhverfisins í ljómandi góðu veðri.
Pistla­höf­und­ur nýt­ur um­hverf­is­ins í ljóm­andi góðu veðri. Ljós­mynd/​FÍ

„Þá fór ég eina ferð með Ferðafé­lagi Íslands og ekki var aft­ur snúið. Ég held ég hafi farið nán­ast hvert sum­ar eft­ir það. Fyrst var það í hópi sem gekk með Guðmundi Hall­v­arðssyni Horn­strandajarli, en þessi hóp­ur gekk sam­an ár eft­ir ár,“ seg­ir Ólöf. 
Það fór svo á end­an­um að Ólöf tók sjálf að leiða göng­ur Ferðafé­lags­ins og hef­ur henni þótt það afar ánægju­legt og einnig þeim sem gengið hafa með henni. 
„Það er gam­an að kynn­ast fólki í svona ferðum, stund­um á það ein­hver tengsl við svæðið, á ætt­ir að rekja hingað á Hornstrand­ir og er að koma til að kynn­ast staðhátt­um sem það hef­ur e.t.v. heyrt um í fjöl­skyldu sinni. Það er líka mjög ánægju­legt að ferðast með fólki sem vill njóta nátt­úr­unn­ar og leyf­ir sér að upp­lifa áhrif­in sem fal­leg nátt­úra hef­ur á okk­ur mann­fólkið.“  


Hús­in á Horn­strönd­um hafa öll sál

Þótt nátt­úr­an hafi firna­sterk áhrif á göngu­fólk þá gera hús­in á Horn­strönd­um það líka enda öll með mikla sál. Versl­un­ar­húsið á Hesteyri stend­ur í fjöru­borðinu og er upp­gert af smekk­vísi en eyr­in fékk lög­gild­ingu sem versl­un­arstaður árið 1881. Í búðinni er samt ekk­ert til sölu en slit­inn búðardisk­ur­inn spjar­ar sig vel og í hill­un­um hand­an við hann hafa eig­end­urn­ir raðað sumu því sem prýðir eld­hús eins og við þekkj­um þau í Reykja­vík. 
Í skóla­hús­inu, sem er utar á Hesteyr­inni, má enn sjá gömlu skóla­töfl­una og bekk­ina sem nem­end­urn­ir sátu á fyr­ir hundrað árum eða svo. Þarna eru marg­ir bæir – hver með sín sögu. 

Ekki er óalgengt að rekast á rebba í fæðuleit.
Ekki er óal­gengt að rek­ast á rebba í fæðuleit. Ljós­mynd/​Wiki­media

Kirkja Hesteyr­inga flutti reynd­ar burt eins og íbú­arn­ir gerðu all­ir áður, hún var flutt til Súðavík­ur en í kirkju­g­arðinum er klukk­an sem þar hringdi eitt sinn í turn­in­um. Nú má láta hana slá í takt við lóm­inn sem væl­ir úti á firðinum. 

Slástu í hóp­inn og komdu með á Hornstrand­ir

Fram­boð Ferðafé­lags­ins á göng­um á Hornstrand­ir er mikið eins og áður sagði enda hef­ur fé­lagið aðgang að mjög góðum húsa­kosti á svæðinu. Þess­ar eru m.a. ferðir fé­lags­ins í sum­ar á Hornstrand­ir: Ylur og birta í Horn­bjargs­vita, sem er göngu- og vinnu­ferð við ysta haf, Bækistöðvaferð í Hlöðuvík sem helg­ast af nátt­úru­feg­urð og and­rúms­lofti liðinna tíma, Hinar sönnu Hornstrand­ir þar sem gengið er út frá Horn­bjargs­vita um Horn­bjarg og Horn­vík og svo Jóga­ferð í Horn­bjargs­vita þar sem nátt­úr­an er grannskoðuð í bland við að iðka jóga að sjálf­sögðu.  
Ólöf er svo með sína ferð með Jón Erni, Saga, byggð og bú­seta og seg­ir að enn séu örfá pláss laus í göng­una en upp­lýs­ing­ar um hana eru að finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert