Öll ferðalög snúast um mannlegar tilfinningar

„Allt fór þetta því vel á end­an­um,“ seg­ir hún skæl­bros­andi, „en ég gleymi aldrei þeirri til­finn­ingu að grípa í tómt þegar ég ætlaði að taka fram göngu­skóna.

„Í göng­um erum við að auka þol og styrk og oft reyn­um tals­vert á okk­ur og náum púls­in­um vel upp. Ávinn­ing­ur­inn er betra þol, sterk­ara stoðkerfi, meira jafn­vægi og vellíðan. Í jóga ger­um við það gagn­stæða, leit­umst við að finna innri ró, náum tök­um á hug­an­um og stund­um and­lega iðkun ásamt því að styrkja lík­amann með æf­ing­um.“

Þetta seg­ir far­ar­stjór­inn Edith Gunn­ars­dótt­ir, sem hef­ur getið sér gott orð fyr­ir jóga­ferðir á veg­um FÍ und­an­far­in ár. Edith er eng­inn nýgræðing­ur í far­ar­stjórn því hún hef­ur leitt stóra hópa í fjalla­verk­efn­inu Alla leið. Í aðdrag­anda þess hafði hún auk þess gengið með Ferðafé­lag­inu í mörg ár.

Alla leið er verk­efni á veg­um FÍ sem helg­ast af úti­vist, fræðslu og göng­um þar sem reyn­ir æ meira á göngu­fólk eft­ir því sem nær líður lok­um verk­efn­is­ins. Loka­hnykk­ur­inn er svo ganga á einn af hæstu tind­um lands­ins. Alla leið hef­ur eig­in­lega tvenns kon­ar merk­ingu fyr­ir Edith. Í því verk­efni hef­ur hún nefni­lega ekki bara gengið alla leið á marga af hæstu tind­um lands­ins held­ur kynnt­ist hún þar líka kær­asta sín­um, Örlygi Steini Sig­ur­jóns­syni, í einni ferðinni. Það hag­ar þannig til að hann er líka far­ar­stjóri hjá Ferðafé­lag­inu.

„Það er ótví­ræður kost­ur að hinn helm­ing­ur­inn sé líka í þessu,“ seg­ir Edith, „því maður er oft að vinna á óreglu­leg­um tíma, um helg­ar, á kvöld­in og yfir sum­ar­tím­ann. Þá er gott að mæta skiln­ingi en oft erum við einnig að vinna sam­an í ferðum.“

Jóga, leiðsögn og sál­fræði

Edith hef­ur lokið hluta af grunnþjálf­un í Flug­björg­un­ar­sveit­inni og öðrum nám­skeiðum sem tengj­ast leiðsögn og vetr­ar­fjalla­mennsku. Hún er því traust og ábyrg og áber­andi bros­mild að auki. Hún er menntuð í sál­fræði og vel að sér um geðheil­brigði. Hún er líka með kenn­ara­rétt­indi í jóga og djúpslök­un.

„Þegar ég tók fyrstu kennslu­rétt­ind­in mín í jóga fékk ég fljót­lega þá hug­mynd að flétta sam­an jóga og göng­um. Ég hafði stundað úti­vist í mörg ár og var alltaf með ann­an fót­inn í jóga og hug­leiðslu. Þessi áhuga­mál eru hvort á sín­um end­an­um en samt lík á ein­stak­an hátt. Bæði þessi áhuga­mál stuðla að jafn­vægi og vellíðan og það er gott að hafa í huga að það er ekki nóg að rækta ein­ung­is lík­amann held­ur verðum við líka að rækta hug­ann,“ seg­ir Edith og bæt­ir við, „já og sál­ina líka.“

Marg­ir gætu nú ætlað að hug­ur­inn og sál­in séu eitt og hið sama, en ó nei, seg­ir Edith og hún veit sko hvað hún syng­ur. „Þetta snýst allt um jafn­vægi, yin og yang, ida og pingala, hægri og vinstri hlið lík­am­ans,“ seg­ir hún og bros­ir. „Það er mik­il­vægt fyr­ir okk­ur að fá kyrrð og innri ró al­veg eins og það er mik­il­vægt fyr­ir okk­ur að fá hreyf­ingu þar sem púls­inn fer upp eins og t.d. í fjall­göngu. Með því að stunda bæði jóga og fjall­göng­ur erum við að koma jafn­vægi á lík­amann.“

Ekki gleyma and­legu hliðinni

Edith, sem er Reyk­vík­ing­ur í húð og hár, seg­ir að ávinn­ing­ur­inn af jóga sé sterk­ara ónæm­is- og tauga­kerfi, hug­ar­ró, meiri liðleiki og stöðug­leiki, betri svefn og meira jafn­vægi og vellíðan. „Í jóga­fræðunum er talað um að ef það er ekki jafn­vægi á milli þess­ara þriggja þátta, lík­ama, huga og sál­ar, get­um við byrjað að þróa með okk­ur sjúk­dóma eða heilsu­bresti.“

Hún seg­ir að allt of marg­ir hlúi ein­ung­is að lík­am­an­um og sinni ekki hinum tveim­ur þátt­un­um. Edith er ekki bara að bauna orðum út í loftið, hún tal­ar af reynslu. Hún hef­ur oft verið und­ir miklu álagi og þolað ótrú­lega streitu eins og flest okk­ar, því miður. En hún bognaði ekki bara und­an streit­unni, hún brotnaði og endaði í kuln­un. Kuln­un er gríðarlega al­var­legt and­legt áfall og í raun enda­stöðin á lang­vinnri og al­var­legri streitu.

„Ég hef líka lent í tveim­ur mjög al­var­leg­um bíl­slys­um,“ seg­ir hún og verður ögn al­var­legri. „Seinna slysið or­sakaði það að stoðkerfi mitt hrundi, ég fékk bæði byrj­un­ar­ein­kenni af brjósk­losi í baki og hálsi, vefjagigt, klemmd­ar taug­ar og mikla verki í baki og bólg­ur ásamt því að hægri hlið lík­am­ans var nán­ast alltaf dof­in,“ seg­ir Edith. „Þessu fylgdu að sjálf­sögu mikl­ir verk­ir og lít­ill svefn.“

Leiðin út úr þessu var jóga og fjall­göng­ur, sem færðu henni ótrú­leg­an bata.

„Þetta snýst ekki ein­ung­is um lík­am­legu hliðina held­ur einnig þá and­legu, það skipt­ir miklu máli að temja sér já­kvæðar hugs­an­ir, sér­stak­lega ef maður er að ganga í gegn­um end­ur­hæf­ingu af ein­hverju tagi eða glíma við lífs­ins verk­efni og þar kem­ur jóga og and­leg iðkun svo sterkt inn,“ seg­ir Edith. „Jóga snýst nefni­lega ekki um liðleika eða að kom­ast í full­komn­ar jóga­stöður held­ur leiðina í stöðuna, það er ekki áfangastaður­inn sem skipt­ir máli held­ur ferðalagið, al­veg eins og með göng­urn­ar.“

Líður alltaf vel eft­ir göngu

Edith er á því að ef við fengj­um enn fleiri til að ganga mynd­um við draga snar­lega úr neyslu á bólgu­eyðandi og verkj­astill­andi lyfj­um á Íslandi.

„Fjall­göng­ur eru mjög heilsu­efl­andi og ein besta úti­vist sem við get­um stundað allt árið. Að fara í fjall­göngu er allra meina bót og það er ekk­ert sem topp­ar út­sýni af ís­lensk­um fjöll­um. Það skipt­ir eig­in­lega ekki máli hvernig viðrar, það hef­ur eng­inn sagt eft­ir göngu: ég hefði ekki átt að fara í göngu í dag vegna veðurs. Manni líður alltaf vel eft­ir göngu,“ seg­ir Edith og er ákveðin í tali.

Hún seg­ir að fjöll­in færi sér jarðteng­ingu, hún finni meiri skýr­leika, upp­lifi vellíðan og sofi bet­ur eft­ir fjall­göngu. „Það er t.d ekk­ert eins dá­sam­legt og að hug­leiða úti í ís­lenskri nátt­úru, það er svo mik­il og sterk teng­ing sem maður finn­ur fyr­ir strax því við eig­um svo óspillta nátt­úru sem er upp­full af já­kvæðri orku. Þess vegna finnst mér jóga og göng­ur passa ein­stak­lega vel sam­an. Ástríða mín er að hjálpa öðrum að sjá ljósið og leiðina í átt að jafn­vægi, vellíðan og innri friði,“ seg­ir hún og hugs­ar eitt and­ar­tak. „Ekki setja lyk­il­inn að ham­ingj­unni í vas­ann hjá öðrum, því lyk­ill­inn að ham­ingj­unni býr innra með þér.“

Þurf­um að vera hvetj­andi og sýna skiln­ing

Edith hef­ur vegna mennt­un­ar og starfs síns sem ráðgjafi og jóga­kenn­ari skoðað mann­legt at­ferli í meira en ára­tug og unnið með fólki úr öll­um vídd­um sam­fé­lags­ins. „Sú reynsla nýt­ist mér í allri leiðsögn, við fáum alls kon­ar fólk í ferðir til okk­ar í mis­jöfnu ástandi, bæði and­lega og lík­am­lega,“ seg­ir hún. „Við þurf­um að vera hvetj­andi, hafa áhuga á fé­lags­leg­um sam­skipt­um, sýna sam­vinnu í verki og skiln­ing og hafa áhuga á vel­ferð og heilsu fólks.“

Edith seg­ir að öll reynsla sé góð, fyr­ir lífið sjálft og ekki síður fyr­ir starf leiðsögu­manns­ins. „En nám mitt í sál­fræði,“ seg­ir hún, „og í heil­brigðis­vís­ind­um og jóga­fræðum hef­ur gefið mér betri skiln­ing á hugs­un, hegðun og til­finn­ing­um fólks. Öll ferðalög snú­ast um mann­leg­ar til­finn­ing­ar og þá er nú gott að vera með góðan grunn sem get­ur nýst manni endr­um og eins.“

Með nátt­úr­una tengda í tauga­kerfið

Þótt Edith sé af möl­inni eða mal­bik­inu er hún ekk­ert sér­stak­lega bund­in stein­steyp­unni eða borg­ar­land­inu til­finn­inga­lega. Hún fékk þenn­an þráð sem tengdi hana beint í sam­band við nátt­úr­una og sum­arið í sinni tær­ustu mynd með því að fá að fara í sveit á sumr­in hjá ætt­ingj­um.

„Ég náði strax teng­ingu við nátt­úr­una sem barn, það var eitt­hvað svo heill­andi við nátt­úru­öfl­in og alla þessa fjalla­sýn. Ég man eft­ir frels­inu sem fylgdi því að fá að vera úti í nátt­úr­unni all­an liðlang­an dag­inn, hlaup­andi um í gúmmítútt­um um grasi vax­in tún, frjáls eins og fugl­inn.“

Spurð um upp­á­haldsstaðina kem­ur svarið snöggt. „Lóns­ör­æfi, Fjalla­bak og Langi­sjór!“ Og svo fer hún auðvitað næst yfir í þann stað sem er ekki bara vand­lega merkt­ur á landa­kort­um held­ur líka and­lega merkt­ur. „Snæ­fells­jök­ull og ná­grenni eru líka í fremstu röð,“ seg­ir hún. „Það er ein­hver óút­skýr­an­leg orka sem kem­ur frá jökl­in­um. Ef maður dvel­ur í ná­grenni við Snæ­fells­jök­ul í lengri tíma finn­ur maður þessi já­kvæðu áhrif frá jökl­in­um sem or­saka vellíðan á svo marg­an hátt. Enda er stund­um talað um að Snæ­fells­jök­ull sé ein af sjö orku­stöðvum heims­ins. Ég hef unnið við að ganga upp á Snæ­fells­jök­ul yfir sum­ar­tím­ann með ferðamenn og því­lík vellíðan í þeirri vinnu. Þótt maður færi upp á jök­ul­inn nokkra daga í viku var maður ekk­ert að spá í það vegna þess að manni leið alltaf svo vel. Bárður Snæ­fells­ás hugs­ar líka vel um sína. Ég gæti ör­ugg­lega búið á Arn­arstapa miðað við hvað manni líður vel þar.“

Edith er eins og all­ir fjalla­leiðsögu­menn vernd­ari og talsmaður ís­lenskr­ar nátt­úru. „Við erum hluti af henni og ég vona að fólk sé farið að finna meira fyr­ir aðdrátt­ar­afli henn­ar. Það hef­ur gildi fyr­ir okk­ur mann­fólkið að kom­ast í kyrrð og frið í ósnortna nátt­úru þar sem hægt er að njóta án trufl­ana og sums staðar jafn­vel án vél­knú­inna öku­tækja.“

Aldrei leiðin­legt fólk á fjöll­um

„Það er aldrei leiðin­legt fólk á fjöll­um,“ seg­ir Edith spurð hvað heilli mest við að starfa sem far­ar­stjóri. Og svo hlær hún.

„Þetta er meiri­hátt­ar og ótrú­lega þrosk­andi og gef­andi starf. Það er oft mikið um gleði og hlát­ur. Maður kynn­ist alltaf frá­bæru fólki alls staðar úr þjóðfé­lag­inu. Ég segi alltaf: það er ekki áfangastaður­inn sem skipt­ir máli, eða að toppa tind­inn, held­ur ferðalagið og fólkið sem maður kynn­ist á leiðinni, sam­ver­an og fé­lags­skap­ur­inn.“

Hún seg­ist vera ein­stak­lega hepp­in að fá tæki­færi til þess að vinna við áhuga­mál­in sín, ástríðuna, og sér finn­ist í raun­inni hún aldrei vera í vinn­unni. „En auðvitað er þetta líka mik­il ábyrgð og mik­il­væg ákv­arðana­taka fyr­ir hverja ferð. Það er áríðandi að vera með haus­inn á rétt­um stað. Það get­ur oft verið vandmeðfarið að snúa við fyrr en seinna og meta aðstæður rétt. En við hjá FÍ erum alltaf með ör­yggið á odd­in­um.“

Gleymdi göngu­skón­um í bæn­um

Fjalla­fólk sem fer ótroðnar slóðir lend­ir oft í áskor­un­um sem fest­ast vand­lega í minn­inu en sú sem Edith man best eft­ir gerðist bara við gal­opið far­ang­urs­rýmið á lang­ferðabíl.

„Versta mar­tröð leiðsögu­manns­ins er að gleyma göngu­skón­um heima þegar haldið er í lang­ferð. Það hef­ur gerst einu sinni og mun bara ger­ast einu sinni í mínu til­felli,“ seg­ir hún og skelli­hlær. „Það síðasta sem ég segi við alla fyr­ir lang­ferð er að tryggja að göngu­skórn­ir séu ör­ugg­lega með í för.“

Edith upp­götvaði nefni­lega sjálf, aðeins átta tím­um fyr­ir brott­för í fimm daga göngu með allt á bak­inu um óbyggðir Íslands, að göngu­skórn­ir hefðu orðið eft­ir í bíl­skotti í Reykja­vík, í aðeins 455 kíló­metra fjar­lægð.

„Nú voru góð ráð dýr, hvernig í ósköp­un­um átti ég að redda þessu?“ seg­ir hún og hlær. „Ekki gat ég sent hóp­inn leiðsögu­manns­laus­an í fimm daga ferð um óbyggðir Íslands. Ekki gat ég farið bara á striga­skón­um, eða keyrt í bæ­inn og til baka, ekk­ert flug fá­an­legt og eng­in búð í næsta ná­grenni. Ég trúði eig­in­lega ekki að þetta væri að ger­ast!“

En for­sjón­in var á bandi Edith­ar því frændi henn­ar var á leiðinni úr bæn­um í sömu göngu og var bara kom­inn hálfa leið á áfangastað. Hann var al­veg til í að snúa til baka drjúg­an spöl til að mæta bróður Edith­ar sem tók að sér að vera einka­bíl­stjóri Scarpa-skóp­ars lang­an veg meðfram mest­allri suður­strönd lands­ins.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert