Fjallaskíðaferðir njóta vaxandi vinsælda

Ísland er vett­vang­ur enda­lausra æv­in­týra fyr­ir þá sem vilja ferðast fyr­ir eig­in afli og njóta fjalla­dýrðar og nátt­úru sem við erum svo rík af. Mögu­leik­ar til að stunda úti­vist á fjöll­um eru fjöl­marg­ir.

Fjall­göng­ur, fjalla­hlaup, sleðaferðir, jeppa­ferðir, hesta­ferðir, göngu­skíði og þannig mætti lengi telja. Fjalla­skíðun er ein teg­und af úti­vist og hef­ur notið sí­fellt meiri vin­sælda á síðustu árum. Fjalla­skíðaferðir Ferðafé­lags Íslands hafa notið mik­illa vin­sælda. Tóm­as Guðbjarts­son, einn af fjalla­skíðafar­ar­stjór­um FÍ, seg­ir ástæðuna ein­falda.

„Þú kemst hraðar yfir og nærð meiru út úr deg­in­um. Oft er auðveld­ara að ganga á fjalla­skíðum en í göngu­skóm í snjó, ekki síst ef um lausa­mjöll eða blaut­an snjó er að ræða. Fjalla­skíðin fara bet­ur með lík­amann, ekki síst á leiðinni niður, en þau minnka álag á hné, ökkla og mjaðmir. Svo er ferðin niður eins kon­ar rús­ína í pylsu­end­an­um sem erfitt er að toppa. Svona heilt yfir ættu all­ir sem hafa gam­an af vetr­ar- og vorferðum að íhuga fjalla­skíði. Búnaður­inn er vissu­lega dýr en kostnaður fer lækk­andi. Og þetta er góð fjár­fest­ing sem end­ist,“ seg­ir Tóm­as.

Það er að ýmsu að huga í aðdrag­anda ferðar en rétt­ur út­búnaður er mik­il­væg­ast­ur. „At­huga þarf að skinn und­ir skíðin gleym­ist ekki og að þau passi á skíðin,“ seg­ir Tóm­as. „Það þarf líka að passa að skórn­ir séu rétt stillt­ir fyr­ir skíðin og að staf­ir séu í lagi. Síðan má ekki gleyma rétt­um fatnaði og hlýj­um auka­vett­ling­um og hlýrri húfu en líka sólgler­aug­um og skíðagler­aug­um. Að minnsta kosti þrjú lög eiga við í öll­um vetr­ar­ferðum.“

Í ferðum Ferðafé­lags Íslands er lögð áhersla á ör­yggið í öll­um ferðum, ekki síst þegar um vetr­ar­ferðir á fjöll­um að ræða og gera verður ráð fyr­ir því að veður geti skip­ast í lofti og ýms­ar hætt­ur leynst í ís­lenskri nátt­úru allt árið um kring. „Í fyrsta lagi þurfa all­ir þátt­tak­end­ur að hafa ýlu, snjóflóðastöng og létta skóflu meðferðis,“ seg­ir Tóm­as. Í jökla­ferðum er farið í ör­ygg­is­línu enda sprung­ur víða í jökl­um og eng­inn ætti að fara í jökla­göngu nema með reynd­um far­ar­stjór­um og með all­an ör­ygg­is­búnað meðferðis.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert