Kanadískur maður komst í hann krappann nú á dögunum þegar svartbjörn gerði sig líklegan til atlögu við heimili hans í borginni Coquitlam í Bresku Kólumbíu.
Maðurinn, sem heitir Alex Gold, deildi upptöku úr öryggismyndavél á Instagram nýverið og vakti hún mikla athygli, en í myndskeiðinu sést þegar Gold kemur auga á svartbjörninn sem var að skoða sig um í bílskúr við heimili hans.
Gold tókst að halda ró sinni og reyndi að fæla svartbjörninn burt með því að klappa og hrópa. Í lok myndskeiðsins sést glitta í annan svartbjörn, líklegast bjarnarhún.
Hátt í 800.000 manns hafa líkað við færsluna á Instagram-síðu Gold, en bandaríska sjónvarpsstöðin CBS deildi einnig myndskeiðinu með milljónum fylgjenda sinna á TikTok og þar hafa ríflega tvær milljónir manna líkað við færsluna.